Hefnd Diddu Morthens eftir Sigríði Pétursdóttur er létt og skemmtileg skáldsaga um ríflega sextuga konu sem í stað þess að sætta sig við að lífið er orðið fyrirsjáanlegt og leiðinlegt nær að grípa til sinna ráða til að bæta það og ná fram sanngirni.
Það er mjög skemmtilegt hvernig Sigríði tekst að byggja upp spennu og halda lesandanum föstum því lengi er alls ekki víst hvernig upptæki Diddu Morthens fara. Það er allt eins víst að vopnin snúist í höndum hennar og hitti hana sjálfa fyrir. En hér sannast hið fornkveðna að hver er sinnar gæfu smiður og stundum getur eitt skref út fyrir þægindarammann skapað meiri lífshamingju en nokkurn óraði fyrir.
Þessi saga er stutt sem hentar vel stílnum. Hún er fyndin og gamansemin kraumar alls staðar undir niðri þótt margir geti án efa mátað sig við margt af því sem Didda prófar og samsamast tilbreytingalitlum hversdegi hennar. Sagan bar sigur úr býtum í Nýjum röddum, handritasamkeppni Forlagsins. Margir kannast hins vegar vel við Sigríði Pétursdóttur því í mörg ár var hún með umfjöllun um kvikmyndir á RÚV og var þar dagskrárgerðarmaður en hún er kvikmyndafræðingur að mennt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.