Valdníðsla bresku póstþjónustunnar

Undanfarið hefur RÚV sýnt þættina, Bates gegn póstþjónustunni eða Mr. Bates vs. the Post Office. Þættirnir vöktu gríðarlega athygli í Bretlandi þegar þeir voru sýndir þar í fyrra en breskur almenningur hafði lengi verið meðvitaður um málsóknir fyrrverandi póstmeistara á hendur póstinum og leit þeirra að réttlæti. Öll þessi málaferli eru talin stærsta réttarfarshneyksli í breskri sögu og til vitnis um hvernig gróf misnotkun valds getur snúist í höndum þeirra sem beita því.

Alan Bates ásamt Toby Jones sem leikur hann í þáttunum, Bates gegn póstþjónustunni.

Öfáum dögum eftir að fyrstu tveir þættirnir höfðu verið sýndir steig þáverandi forsætisráðherra, Rishi Sunak fram í breska þinginu og boðaði ný lög sem umsvifalaust sneru við öllum dómum gegn póstmeisturum og sýknaðu þá af öllum ákærum. En um hvað snýst þetta? Jú, breska póstþjónustan hafði um árabil verið ríkisstofnun en var síðan einkavædd að hluta. Í kjölfarið voru pósthúsin lögð niður og valdir umboðsmenn póstsins, svokallaðir póstmeistarar, í þorpum víðsvegar um landið. Oftast var um að ræða eigendur smárra verslana og þetta fólk var ábyrgt fyrir og gerði upp sér sölu frímerkja, burðargjöld, peningasendingar með pósti og annað er sneri að póstþjónustunni. Kerfið gekk vel og flestir sem höfðu valist í þetta verkefni strangheiðarlegt og samviskusamt fólk. Árið 1999 var hins vegar ákveðið að innleiða nýtt bókhalds- og uppgjörskerfi, Horizon. Mjög fljótlega kom í ljós að gallar voru á kerfinu og allflestir póstmeistarar lentu í vandræðum með að gera upp.

Það var sama hvað þeir gerðu kassinn stemmdi ekki og þeir voru í skuld en ekki pósturinn. Vegna þess að póstmeistararnir höfðu skrifað undir samning þess efnis að þeir væru ábyrgir fyrir mismuninum ef uppgjör ekki stemmdi urðu þeir að borga úr eigin vasa það sem á vantaði. Stór hópur fólks missti ævisparnað sinn, húsin sín og aðrar eignir í hít póstsins. Margir gáfust upp undan álaginu og veiktust alvarlega, nokkrir sviptu sig lífi, hjónabönd fóru í vaskinn og margt fleira. Marga fór strax að gruna að ekki væri allt með felldu. Í þeim hópi var Alan Bates. Þegar kassinn stemmdi ekki ítrekað hjá honum ákvað hann að draga sig í hlé og fara snemma á eftirlaun frekar en að halda áfram að borga. Aðrir voru ekki svo lánsamir og þegar þeir hættu að eiga fyrir „skuldinni“ voru þeir miskunnarlaust lögsóttir fyrir þjófnað, skjalafals og bókhaldssvik.

Monica Dolan leikur Jo Hamilton en hún var í hópi þeirra er misstu allt sitt til póstsins.

Í leit að réttlæti

En þótt Alan hafi hætt áður en hann varð eignalaus lét hugsunin um óréttlætið sem hann hafði orðið fyrir hann ekki í friði. Þegar hann frétti að fleiri væru í sömu sporum ákvað hann að stofna samtök og reyna að leita eftir sanngirni hjá póstinum og sönnun þess að Horizon-kerfið væri gallað. Sennilega hefur hann ekki gert sér grein fyrir því þá að baráttan myndi standa næstu tuttugu og fimm árin og henni er ekki fyllilega lokið enn í dag. Árið 2020 var fyrstu dómunum snúið og fólk sem hafði verið dæmt í héraðsdómi fyrir skjalafals, þjófnað og bókahaldssvik var sýknað. En svo virtist koma babb í bátinn vegna þess að breska póstþjónustan boðaði nýja rannsókn á málinu en í fyrra eftir sýningu þáttanna kom ný hrina sýknudóma sem endaði með lögum Rishis Sunaks.

Lia Williams leikur Paulu Vennells í þáttunum.

Þættirnir eru geysilega vel gerðir og þótt þeir víki hér og þar ögn frá raunveruleikanum til að skapa betra sjónvarpsefni eru öll meginatriði þáttanna sannleikanum samkvæm. Atriðin í réttarsölunum og fyrir rannsóknarnefnd þingsins eru tekin orðrétt upp. Halda mætti að það yrði leiðigjarnt en raunin er sannarlega önnur. Paula Vennells þáverandi forstjóri bresku póstþjónustunnar og aðstoðarkona hennar, Angela Van Den Bogerd eru hreint ótrúlegar í lygum sínum og undanfærslum. Í kjölfar þáttanna skrifuðu 1,3 milljónir Breta undir undirskriftalista og fóru fram á að Paula Vennells, yrði svipt Commander of the British Empire-orðunni og titlinum Dame. Áður en til þess kæmi að hún yrði svipt orðunni fór Paula sjálf og skilaði henni. Karl konungur III svipti hana svo titlinum í fyrra en það að skila orðunni hefur það ekki sjálfkrafa í för með sér.

En hvað gekk þessum konum til með því að ganga svo hart fram gagnvart fólki sem hafði sumt unnið fyrir póstinn í ríflega þrjátíu ár og átti að baki flekklausan feril? Paula hefur sagt að hún hafi viljað verja trúverðugleika póstsins. Í mörg ár hafði breska póstþjónustan mælst það opinbera fyrirtæki sem fólk bar mest traust til en fáir geta tekið undir með henni að verndun þeirrar ímyndar hafi verið þess virði að rústa lífi fjölda fólks til að viðhalda henni. Hún hélt því lengi fram að henni hafi ekki verið sagt frá göllum Horizon-kerfisins og þóttist einnig öll af vilja gerð að leysa málin. Þegar póstþjónustan loks lét af hendi öll skjöl sem lögfræðingar og endurskoðendur sem fengnir voru til að rannsaka málið fóru fram kom í ljós að hún var fyllilega meðvituð um að Horizon-kerfið var meingallað. Hún beinlínis fer fram á það í tölvupóstum að reynt sé að breiða yfir og grafa ýmislegt er sannað gæti réttmæti þess sem póstmeistararnir sögðu. Þetta verður enn alvarlega sé litið til þess að Paula Vennells var prestur í evangelísku kirkjunni og góð vinkona biskupsins af Canterbury en hann telst æðsti yfirmaður bresku kirkjunnar.

Paula Vennells grét þegar hún baðst afsökunar á framgöngu sinni í Horizon málinu og sagðist leið vegna þess skaða sem hún hefði valdið.

Grét krókódílatárum

Það vakti einnig talsverða athygli þegar Paula Vennells loks viðurkenndi að hafa eitthvað gert rangt og baðst afsökunar. Það gerðist í maí árið 2024 en á sama tíma fullyrti hún að hún hefði treyst um of á það sem undirmenn hennar sögðu henni og þess vegna ekki kannað nægilega vel hvort það gæti verið rétt sem póstmeistarnir sögðu. Hún grét þegar hún las þessa yfirlýsingu en fjölmargir Bretar hafa lýst þeirri skoðun sinni að þar hafi fallið krókódílatár. Paula Vennells iðrist einskis og hún hafi verið fullkomlega meðvituð um hvað var að gerast allan tímann en engu að síður farið fram á fádæma hörku gagnvart fólki sem átti slíkt síst skilið.

Enn sér ekki alveg fyrir endann á þessu ótrúlega ferli og nokkur skaðabótamál eru enn í vinnslu. Flestir póstmeistararnir hafa fengið einhverjar bætur og allir afsökunarbeiðnir frá ríkisstjórninni Það er vert að benda á að RÚV sýndi einnig nýlega heimildaþátt þar sem fram koma þeir einstaklingar sem sjónvarpsþættirnir snúast um og segja sögu sína.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 20, 2025 07:00