Undirbúningur málaferla á lokametrunum

Lífeyrissjóðirnir eru síðtekin laun sem ekki á að skerða, segir Wilhelm Wessman í grein á Facebook síðu sinni þar sem hann birti pistilinn sem hér fer á eftir, Hann segir að þegar að málaferlunum Gráa hersins komi, þurfi hann á víðtækri samstöðu að halda.

Nú þegar undirbúningur málferla á hendur ríkinu vegna skerðinga á greiðslum TR vegna greiðslu úr lífeyrissjóðum er á lokametrum, hafa þær raddir heyrst hvort það þýði að þeir sem hafa skammtað sér feitar lífeyrissjóðsgreiðslur eigi að njóta þess ef málið vinnst.

Wilhelm W.G. Wessman

Að mínu mati eiga umræðan og málaferlin að snúast um að afnema eigi allar skerðingar á greiðslum frá almannatryggingum. Það er baráttumál okkar allra sem höfum greitt í almennu lífeyrissjóðina. Umræðan og málaferlin eiga ekki að snúast um hvort alþingismenn og ráðherrar hafa skammtað sér feit eftirlaun sem skerðast ekki, það er að snúa málinu uppí andhverfu sína og afvegaleiða umræðuna.
Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir sem viðbót við almannatryggingakerfið með lögum frá 1969. Þeir eru söfnunarsjóðir, en ekki gegnumstreymissjóðir eins á hinum Norðurlöndunum
Hér á Íslandi fóru fram umræður að stofna Lífeyrissjóð Íslands í sama tilgangi og ATP-sjóðirnir á hinum Norðurlöndunum. Endirinn var þó sá að í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins í maí 1969 var samþykkt að koma á fót lífeyrissjóðum á stéttarfélagsgrunni og að þátttaka sjóðfélaga yrði almenn og skyldubundin.
Lífeyrissjóðirnir íslensku áttu sem sagt að koma til viðbótar við greiðslur almannatrygginga. Greiðslu fyrirkomulagið sannar þetta,en bæði hluti launþega og atvinnurekanda eru tekin af launum.
Guðmundur Gunnarsson skrifar eftirfarandi athugasemd við pistil Drífu Snædal forseta ASÍ síðasta föstudag:
„Íslenska lífeyriskerfið byggist á þremur megin stoðum. Í fyrsta lagi almannatryggingum, í öðru lagi eftirlaunum frá lífeyrissjóðum og í þriðja lagi greiðslum úr séreignarsparnaði. Ríkisstjórnir síðustu ára hafa einhliða breytt þessu grundvallarmarkiðum í að grunnstoðin séu lífeyrissjóðirnir en síðan komi almannatryggingar sem viðbót. Þetta er alrangt og stenst enga skoðun, þegar betur er að gáð.
Þegar lífeyrissjóðirnir voru settir á stofn var markmiðið að þeir væru viðbót við greiðslur frá almannatryggingum. Þeas grunnlífeyrir, eins og það er í öllum nágrannalöndum okkar. Þar er litið á það sem stjórnarskrárvarin réttindi sem þjóðfélagsþegn hefur öðlast eftir að hafa skilað sínu til samfélagsins gegnum framlagt starf og greiðslur til samfélagsins.
Sjóðirnir hafa ávalt átt að vera önnur stoð lífeyriskerfisins, en fyrsta stoðin eru almannatryggingar.“
Grunnlífeyrir almannatrygginga á að vera liðlega 200 þús. kr. á mánuði hjá öllum en til viðbótar komi svo lífeyrir frá lífeyrissjóðunum. Frítekjumark af lífeyristekjum ætti því að vera óþarft, en miðað við þá stöðu mála í dag, m.a. vegna skeytingaleysis stjórnvalda á undanförnum áratugum að hækka grunnlífeyri TR í samræmi við hækkun launavísitölu.
Ég las í dönsku pressunni að umræða um að rætt hefði verið á á Danska þinginu að þingmenn og ráðherrar ættu að lúta sömu lögmálum og almenningur í landinu hvað eftirlaun varðar. Er þetta ekki eitthvað fyrir Alþingi að skoða!

 

Ritstjórn september 4, 2019 21:27