Þurfum ekki starfshóp – förum í mál við ríkið

 

Wilhelm Wessman

Wilhelm W.G. Wessman eldri borgari skrifar

Að segja að ellilífeyrir fólks í sambúð sé  239,484 krónur fyrir skatt á mánuði og þeirra sem búa einir 300,000 krónur fyrir skatt á mánuði, eru helber ósannindi, sett fram af stjórnvöldum til að fegra skammarlega framkomu þeirra gagnvart eldri borgurum.

Til að þessar tölur standist þarf fyrst að svara því hver stór hluti þeirra sem hafa fullan rétt til eftirlauna (neita að kalla þetta ellilífeyri), hafa aldrei greitt í lífeyrissjóð og eru því með óskertar greiðslur frá  TR. Að mínu mati er það mikill minnihluti sem fær óskertar greiðslur frá TR. Það er ekki boðlegt að bera það á borð að greiðslur frá TR séu 239,484 krónur eða 300,000 krónur á mánuði, þegar aðeins þeir sem engar aðrar tekjur hafa fá þessa upphæð. Í fróðlegri grein  Dr.Hauks Arnþórssonar í Mbl  07.10.17.kemur fram að eftirlaunagreiðslur ríkisins eru eingöngu 1,98% af þjóðartekjum og að Ísland skori lægst af öllum  þjóðum OECD  þegar greiðslur ríkisins til eldri borgara eru skoðaðar.

Það er ekki nóg með að við sem höfum greitt í lífeyrissjóði frá upphafi, lífeyrissjóðirnir voru flestir stofnaðir 1968-1969, séum endalaust skert, heldur erum við að hluta tvísköttuð. Við borguðum fullan skatt af þeim hluta sem við greiddum til sjóðanna til 1988 þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp, í mín tilfelli í tuttugu ár.

Harpa Njáls, sérfræðingur í velferðarrannsóknum var í viðtali við Stöð tvö um þessi mál og Vísir sagði frá.

Breyting á almannatryggingalöggjöfinni tók gildi í ársbyrjun 2017. Harpa Njáls, sérfræðingur í velferðarrannsóknum, segir að eftir þær sé stærsti hluti ellilífeyrisþega með lægri ráðstöfunartekjur en dæmigert viðmið velferðarráðuneytisins ef húsnæðiskostnaði sé bætt ofaná. „Ég myndi segja að það væri 70%,“ segir Harpa.

Harpa segir að frítekjumörk atvinnutekna, lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna hafi verið afnumin við breytingar á almannatryggingakrefinu en eitt almennt frítekjumark lögfest upp á 25.000 krónur. Þá hafi skerðingar verið hertar. Þetta þýði að mun meira sé tekið af ellilífeyrisþegum nú en áður og lítið verði eftir af lífeyrissjóðsgreiðslum. „Fyrir hverjar fimmtíu þúsund krónur sem einstaklingur hefur úr lífeyrissjóði heldur hann rúmum þrettán þúsund krónum.“

Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða tók í svipaðan streng í fréttinni.

Mönnum finnst sem þeir séu ekki að njóta ávinningsins af því að hafa greitt inní lífeyrissjóði vegna þess hversu tekjutengingarnar eru miklar í almannatryggingakerfinu. Þær eru 40% af almennum lífeyri og allt uppí 56% varðandi heimilisuppbótina. Þessi mikla tekjutenging þekkist hvergi nema á Íslandi,“ segir Þorbjörn.

Nú hefur enn einn starfshópurinn, (áður hét þetta nefnd) verið skipaður. Síðasta nefnd var ellefu ár að störfum og skilaði þeim óskapnaði sem settur var í lög 2017.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að við þurfum að fara í mál við ríkið út af skerðingum. Ekki það að skerðingar séu eina málið þar sem eldriborgarar eru beittir óréttlæti, heldur hitt að með málsókn sýnum við að okkur er alvara og að við sættum okkur ekki lengur við að vera beitt óréttlæti.

Það er komið meira en ár síðan ég bauð mig fram til að „fronta“ mál gegn ríkinu, enn ekkert svar hefur borist mér frá formönnum LEB og FEB, þrátt fyrir að ég hafi gengið eftir svari.

 

 

 

 

 

Wilhelm Wessman maí 16, 2018 09:33