Þegar Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði tók til starfa fyrir 60 árum var boðið þar uppá leiðböð sem þótti afar nýstárlegt. Heitur jarðleir er forn lækningameðferð sem þróaðist við bað- og náttúrulækningastaði í Evrópu og er enn notuð. Þar tíðkast að nota leðju eða sjávarbotnfall í leirböðin, en í Hveragerði er leirinn sóttur í leirhverina við Reykjafjall.
Legið í leirnum í 15 mínútur
Í hveraleirnum er meðal annars að finna kísilsýru sem er talin góð fyrir húðina auk þess sem hitinn gerir vöðvum, liðum og beinum gott. Hitinn í leirbaðinu er 38-40 gráður á celcius. Menn liggja í 15 mínútur í leirbaðinu og slaka síðan á í sérstöku slökunarherbergi í 20 mínútur á eftir.
Gott fyrir gigtina
Náttúrulækningafélagið hefur boðið uppá leiðböð á heilsuhælinu sem nú kallast Heilsustofnun alveg frá upphafi árið 1955. Þau þykja hafa góð áhrif á gigtarsjúklinga, á húðsjúkdóminn psoriasis og önnur húðvandamál og hafa margir fengið bata til lengri eða skemmri tíma með því að stunda þau. Auk leirbaðanna er boðið uppá leirmeðferð fyrir hendur og fætur. Hún er hugsuð fyrir þá sem geta ekki nýtt sér böðin.
Bakteríur þrífast ekki í leirnum
Gerðar hafa verið rannsóknir á leirnum sem sýna að bakteríur og veirur þrífast ekki í honum. Það er afar sérstök tilfinning að dýfa sér niður í leirbað og láta spúla af sér leirinn á eftir. Sumir hafa lýst leirbaði þannig að það sé einna líkast því sem menn svífi í þyngdarleysi og það má til sanns vegar færa.
Þeir sem ekki ættu að fara í leirbað
Flestir geta farið í leirböð segir í upplýsingum frá NLFÍ, þó ekki þeir sem eru með nikkelofnæmi eða alvarlega hjarta-og lungnasjúkdóma, og heldur ekki fólk sem er nýkomið úr æðahnútaaðgerð. Það er ekkki nauðsynlegt að vera dvalargestur á Heilsustofnun til að komast í leirbað. Það er einfaldlega hægt að panta sér þar tíma, hafi menn áhuga á.