Tengdar greinar

Fótanuddtækin fá uppreisn æru

Kristinn Johnson

„Það hefur líka  verið grínast með fótanuddtækin hér innanhúss“, segir Kristinn Johnson framkvæmdastjóri hjá Eirbergi, sem sérhæfir sig í vörum sem tengjast heilbrigði og  heilsugeiranum. „Eins fyndið og þetta er þá var ég að velkjast með heitið á tækjunum, fótanuddtækin voru ekki hátt skrifuð og ég spáði í heiti eins og til dæmis nuddtæki fyrir fætur. Endaði samt með fótanuddtæki. Það var ekki markmiðið að selja fótanuddtækin í bílförmum, þannig að þau enduðu öll í bílskúrnum“, segir hann hlæjandi en hann var ekki fæddur þegar fótanuddtækin náðu landsfrægð fyrir margt löngu og söfnuðust í geymslur landsmanna og bílskúra.

Fótanuddtækið heldur vatninu vel heitu

Eiga rétt á sér fyrir ákveðinn hóp

Fótanuddtækin voru venjuleg íslensk della og hafa verið hálfgert tabú síðan allir fengu þau í jólagjöf á sínum tíma.  En Kristinn segir þau eiga jafn mikinn rétt á sér og áður fyrir ákveðinn hóp.  „Það gerir til að mynda fólki með bjúgmyndun á fótum gott að nota nuddtækið og einnig fólki með sykursýki eða lélegt æðakerfi. Það eykur svo virknina að nota þrýstingssokka samhliða.  Fótaheilsa hefur verið stór hluti starfseminnar hjá okkur frá upphafi og er enn. Þannig eiga fótanuddtækin fullan rétt á sér. Til dæmis fyrir fólk sem þarf að bæta blóðflæðið í fótunum eða er með verki í fótum. Fólk sem stendur uppá endann í vinnunni allan daginn þarf líka að hugsa vel um fæturna. Við sjáum flugfreyjur kaupa bæði fótanuddtæki og þrýstingssokka. Stærsti hlutinn sem kaupir tækin er svo eldra fólk, sem hreyfir sig minna og er komið með slakara æðakerfi“, segir hann.

Tásuglennur svo fóturinn haldi réttu lagi

Minnkar bólgur og eykur blóðflæði í fótum

Gömlu nuddtækin voru þannig að í þau var sett heitt vatn og síðan var mótor undir tækinu þannig að það titraði og framkallaði einhvers konar nudd. Vatnið kólnaði  hins vegar nokkuð hratt í tækinu. Ný útgáfa fótanuddtækisins er öðruvísi. Það heldur vatninu heitu, í 43 gráðum, og síðan eru nuddhausar í botninum sem nudda fæturna. Kristinn segir gott að setja magnesium salt í vatnið. Nuddið minnki bólgur og vöðvaspennu í fótunum og bæti blóðflæðið. Fótanuddtæki kosta á bilinu 12-30 þúsund krónur. „Við sjáum þetta sem hlekk í góðri fótaheilsu, hluta af þeim lausnum sem við bjóðum þeim sem eru með fótavandamál“.

Öfugmæli að nota támjóa skó

Svona eru skór sem henta lögun fótanna

Áhersla Eirbergs á fótaheilsu hefur þróast út í skóna, þannig er í versluninni hægt að fá skó sem eru sérlega breiðir yfir tána. „Það er lógískt framhald af fótanuddi og þrýstingssokkum að vera í góðum skóm. Menn vilja geta hreyft tærnar náttúrulega í skónum og það er hálfgert öfugmæli að nota þá támjóa skó.  Tærnar eru breiðasti hluti fótarins og þurfa því  breiða skó. Ástæðan fyrir támjóu tískunni má tekja til frönsku hirðarinnar. Þar þótti fínt að vera í támjóum og hælaháum skóm og fínt að þurfa ekki að vinna. Stíga upp í vagna og niður úr þeim á támjóu flottu skónum. Þeir voru ekki hannaðir út frá líkamsbyggingunni“, segir Kristinn.

Sérstakir tásusokkar sem halda tánum gleiðum

Eðlilegra að tærnar séu gleiðar

Tásusokkar og tásuglennur, eru einnig hlutir sem Eirberg býður uppá, til að bæta fótaheilsuna. „Þegar þú fæðist eru tærnar gleiðar, síðan fer manneskjan að nota skó sem eru þröngir yfir tærnar, þannig að þær klessast saman. Fagfólk telur að fólk missi jafnvægi og styrk með því að leyfa tánum ekki að grípa jörðina eins og náttúran gerði ráð fyrir. Notkun tásuglenna og tásusokka er leið til að komast nær náttúrulegu stöðunni, sem er gleiðari en venjulegir skór gera ráð fyrir“, segir Kristinn.  „Tásuglennan spennir út tærnar. Talið er að um 40% jafnvægisins sé í stóru tánni. Ef hún skekkist, myndar hún skekkju út frá sér og upp stoðkerfið allt upp í háls.Íþróttafólk notar glennurnar til að spenna tærnar sundur til að ná góðri stöðu, til dæmis við lyftingar og Cross fit“.

 

Ritstjórn mars 14, 2023 07:00