Tengdar greinar

Nýtt Liðskiptasetur getur gert 430 aðgerðir á ári

Heilbrigðisráðuneytið tilkynnir stofnun Liðskiptaseturs á Akranesi. Í tilkynningunni frá ráðuneytinu segir meðal annars:

Liðskiptaaðgerðum verður fjölgað umtalsvert með opnun liðskiptaseturs, þ.e. skurðstofu þar sem eingöngu er sinnt liðskiptaaðgerðum, við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi (HVE). Gert er ráð fyrir að liðskiptasetrið taki að fullu til starfa í mars á næsta ári. Stofnunin verður þá með getu til að framkvæma um 430 aðgerðir á ári sem er rúmlega tvöföldun á núverandi afkastagetu. Stofnun setursins er liður í víðtækari áætlun sem unnið hefur verið að síðustu misseri í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra, til að mæta vaxandi þörf fyrir þessar aðgerðir, stytta bið fólks í brýnni þörf, bæta verkferla og samræma þjónustuna.

300 aðgerðir til viðbótar í sérstöku átaksverkefni

Að jafnaði eru gerðar rúmlega 1.500 liðskiptaaðgerðir á ári við Landspítala, Sjúkrahúsið á Akureyri og HVE. Með tilkomu liðskiptasetursins er stefnt að varanlegri árlegri fjölgun sem nemur um 260 aðgerðum á ári. Vegna COVID-19 hafa aðgerðir síðustu misseri verið nokkru færri en að jafnaði. Því hefur verið ákveðið að ráðast í sérstakt átak til 12 mánaða til að fjölga aðgerðum enn frekar tímabundið og stytta biðlista. Í því átaki er gert ráð fyrir að gerðar verði um 300 liðskiptaaðgerðir sem koma til viðbótar þeirri fjölgun sem leiðir af opnun liðskiptasetursins á Akranesi.

Liðskiptaaðgerðir hér á landi eru gerðar á þremur stöðum auk HVE, þ.e. á Landspítala, við Sjúkrahúsið á Akureyri og á Klínikinni Ármúla. Áætlaður kostnaður við að koma á fót liðskiptasetri við HVE er rúmar 200 milljónir króna.

Þess er vænst að með framangreindum aðgerðum verði biðtími þeirra sem bíða eftir liðskiptaaðgerð í brýnni þörf samkvæmt forgangsröðun, ekki lengri en 90 dagar.

Ritstjórn ágúst 31, 2021 16:40