Höfundur Mackintosh-rósarinnar – Charles Rennie Mackintosh

Einn af áhugaverðustu hönnuðum síðustu aldar var Skotinn Charles Rennie Mackintosh. Hann var einstaklega fjölhæfur listamaður og var leiðandi í bæði impressjónistahreyfingu Bretlands og mikill frumkvöðull Art Nouveau tímabilsins. Hann hannaði jöfnum höndum byggingar, innanstokksmuni, nytjahluti og fallegt skart. Ein hans frægasta hugmynd er Mackintosh-rósin sem tekur á sig margvíslegar myndir í verkum hans.

Hin þekkta Mackintosh-rós birtist í margvíslegum útgáfum í hönnun Charlesar.

Charles Rennie Mackintosh fæddist þann 7. júní árið 1868  í Glasgow í Skotlandi. Hann var fjórða barn Williams Mackintosh og konu hans Margaretar Rennie. Systkinin urðu ellefu áður en yfir lauk og Charles ólst upp ío glöðum og samheldnum hópi. Faðir hans var yfirmaður í lögreglunni og fjölskyldan lagði mikla áherslu á menntun. Charles gekk í the Allan Glen’s Institution sem var einkaskóli fyrir börn iðnaðarmanna og annarra fagstétta. Fimmtán ára gamall hóf hann nám í kvöldskóla við Glasgow School of Art  og ári síðar fékk hann fimm ára námssamning hjá arkitektinum John Hutchins. Árið 1889 var honum svo  boðin staða hjá Honeyman & Keppie sem var ein virtasta arkitektastofa Skotlands á sinni tíð.

Ferðaðist um Ítalíu

Hæfileikar hans vöktu strax athygli og hann hlaut ferðastyrk úr námsmannasjóði helguðum minningu Alexanders Thomson en honum fylgdu þær kvaðir að hann kynnti sér klassískan arkitektúr og ynni úr áhrifunum í anda Thomsons. Mackintosh ferðaðist um Ítalíu og drakk í sig alls konar list en í ferðinni virðist áhugi hans á að teikna annað en hús hafa vaknað. Hann sneri aftur til Honeyman & Keppie og hans fyrsta verk eftir heimkomuna var að hanna byggingu the Glasgow Herald sem var eitt stærsta dagblað Skota um þær mundir.

Húsgögn eftir Charles Mackintosh þykja einstaklega stílhrein og falleg.

Á þessum árum voru miklir uppgangstímar í Glasgow. Iðnbyltingin hafði haldið innreið sína í borgina og hún var miðstöð málmiðnaðar og skipasmíða. Mikill uppgangur var í byggingum og gríðarleg eftirspurn var eftir fallegum innanstokksmunum. Iðnjöfrar kepptust við að byggja glæsivillur og innrétta þær í eins nýríkum stíl og hugsast gat. Þetta var blómaskeið breska heimsveldisins og lögð var áhersla á að efla samskipti milli allra landa hennar hátignar Viktoríu drottningar.

Charles kvæntist samstúdent sínum við listaskólann Margaret MacDonald árið 1900 en hún, systir hennar Frances, Charles og Herbert McNair mynduðu samstarfshóp listamanna sem gekk undir nafnið The Four. Saman teiknuðu þau stóla, borð og plaköt. Ákveðinna asískra áhrifa tók að gæta í hönnun og stíl þessa tíma og Mackintosh fór ekki varhluta af því. Japönsk áhrif eru augljós í húsgögnunum sem hann teiknaði en um þessar mundir opnaðist Japan mun meira en áður hafði verið og viðskipti hófust við Evrópu og Bretland.

Á þessum tíma urðu breskir hönnuðir fyrir miklum áhrifum af japanskri list og innanhúshönnun.

Japönsk áhrif

Charles heillaðist af japanskri list og einkum þeim einfaldleika sem hann skynjaði í línum og litameðferð þeirra. Það vakti athygli hans og aðdáun hversu létt og stílhrein japönsk húsgögn voru en fram að þessu hafði þungur stíll einkennt evrópsk húsgögn. Þau voru stór og þunglamaleg oft skreytt miklu flúri og útskurði.

Um svipað leyti var að ryðja sér til rúms ný heimspeki í Evrópu sem snerist um að skapa hagnýta og jarðbundna hluti og byggingar. Stefnan gekk undir heitinu The Modernist Movement en hugmyndafræði þeirra gekk út að þróa frumlega hugmyndir og nýta nýja tækni. Hönnun átti að miðast við nútímann og framtíðina fremur en draga dám af fortíðinni og hefðunum. Allt skrautið og flúrið skyldi burtu og heimili fá léttara yfirbragð þar sem allt miðaðist við notagildið fremur en útlitið.

Mackintosh varð fljótlega þekktur sem frumkvöðull hreyfingarinnar í Skotlandi þótt hönnun hans væri langt frá hinni einföldu og beru nytjastefnu í hönnun modernistanna í Evrópu. Hans hugsjón var að hanna með þarfir fólks í huga og þá með áherslu á einstaklinginn fremur en fjöldann. Hann taldi að fólki hentaði ekki að vinna inni í tómi heldur þyrfti það á fegurð að halda. Stíll Mackintosh er byggður á skoskri arfleiðf hans sem hann blandði á snilldarlegan hátt við einfaldleika japanskrar listar og flúrið sem einkenndi Art Nouveau-stílinn.

Mikil áhersla var á vandað handverk og góð efni á þeim tíma sem Charles Mackintosh var hvað afkastamestur.

Afkastamikill og vinsæll

Á þessum árum var hann einstaklega afkastamikill og hannaði skartgripi, tókbaksdósur, hárbursta, gardínur, veggfóður, mynstur í fatnað auk bygginga og innréttinga í þær. Einna þekktasta verk hans frá þessum árum er bókasafn Glasgow-borgar og listskólinn. Þarna varð Mackintosh-rósin til en hún birtist í ýmsum myndum í steindum gluggum bygginga sem og í þeim smáhlutum sem hann hannaði. Seinna varð rósin nokkurs konar vörumerki hans í augum fólks.

Mackintosh var vinsæll arkitekt og hann gerðist meðeigandi í arkitektastofunni árið 1907. Fimm árum síðar sagði hann sig hins vegar frá stofunni og ákvað að reyna fyrir sér upp á eigin spýtur. Hvers vegna veit enginn en sagt er að hann hafi verið mislyndur og ekki auðveldur í umgengni. Menn hafa því leitt getur að því að hann hafi rokið burtu í fússi en um það finnast engar heimildir.

Honum reyndist of dýrt að reka eigin stofu svo hann hélt ásamt konu sinni til Suffolk til að mála vatnslitamyndir af blómum. Þar var hann handtekinn því grunur lék á að hann væri þýskur njósnari. Sá grunur var ekki á neinum rökum reistur en kom líklega til vegna þess að þau hjónin höfðu mjög oft sýnt í Vín. Honum var fljótt sleppt en hjónin fluttust til London og þar hélt Charles áfram að skapa hönnunarhluti. Árið 1916 var hann beðinn um að endurhanna heimili auðmannisns W. J. Bassett-Lowke. Hann gerði það á snilldarlegan og ákaflega framúrstefnulegan hátt miðað við það sem þá þekktist.

Til allrar ólukku fyrir Mackintosh var á þessum tíma ákveðið afturhvarf til hins klassíska í arkitektúr og innanhússhönnun þannig að hönnun hans þótti gamaldags og úr takti við tímann. Hann fékk því ekki fleiri verkefni og náði aldrei sama flugi í London og í Glasgow. Hann fluttist árið 1923 til Suður-Frakklands og bjó þar allt þar til hann kom aftur til London til að deyja árið 1927. Síðustu árin helgaði hann sig eingöngu vatnslitamálun og vangaveltur um samspil villtrar og manngerðar náttúru eru áberandi í þeim. Mackintosh fékk krabbamein í hálsinn og tunguna og neyddist þá til yfirgefa Port Vendres, smábæ rétt við landamæri Spánar og Frakklands. Hann lést árið 1928 eftir nokkurra mánaða sjúkdómslegu.

„Þar var hann handtekinn því grunur lék á að hann væri þýskur njósnari. Sá grunur var ekki á neinum rökum reistur en kom líklega til vegna þess að þau hjónin höfðu mjög oft sýnt í Vín.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.