Margrét S. Höskuldsdóttir kvað sér hljóðs í glæpasagnasenunni fyrir þremur árum með bókinni Dalurinn. Það er vel unnin og spennandi saga og Í djúpinu kom ári síðar og er ekki síðri. Nú er komin þriðja bókin um þau Rögnu og Berg en sú heitir Lokar augum blám. Hún gerist við Ísafjarðardjúp líkt og hinar tvær og gamlir glæpir eða fornar syndir hafa í henni eins og hinum áhrif á nútímann.
Bergur er fluttur vestur á Ísafjörð og býr tímabundið hjá pabba sínum. Hann er enn að jafna sig eftir áföllin sem síðasta mál þeirra olli en Ragna er í Reykjavík og ekki alveg laust við að álagið í hversdagslífinu sé farið að ná til hennar. Þegar tilkynnt er um hvarf tveggja ungra manna, kajakræðara, hefst leit hjá vestfirsku lögreglunni og fljótlega finnst annar þeirra látinn. Ragna er þá send vestur til að aðstoða fyrrum félaga sinn við að finna lausnina.
Á sama tíma er ungt par að gera upp gamalt eyðibýli og reyna að koma sér fyrir í samfélaginu. Konan, Elena, er af pólskum uppruna og þótt allt virðist til að byrja með betra sækja að henni ónot í húsinu þar sem hún ætlar að reyna að byggja upp heimili. Henni finnst hún heyra raddir og umgang þegar enginn á að vera þar nema hún ein. Þá er gott að eiga góða granna og gamall maður á næsta bæ gefur sig að henni og sýnir henni hlýju. Hún kemst líka að því að kærastinn hennar, Svavar, á þarna sögu og það er eitthvað sem hann leynir hana.
Eins og áður vinna þau Ragna og Bergur vel saman og skarpskyggni þeirra hjálpar þeim að skynja hvenær einhver hefur einhverju að leyna. Margrét er góður höfundur og kann vel þá list að byggja upp spennu og skapa góðar persónur. Lokar augum blám er spennandi saga sem rennur vel og heldur lesandanum sannarlega við efnið.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.