Stífur hnakki veldur vanlíðan

Fartölvur, spjaldtölvur og snjallsímar eru vissulega hagnýt og þægileg tæki en hvernig við notum þau getur komið okkur í koll, ekki hvað síst hvað varðar vöðvabólgu og vanlíðan. Flestir sitja með tölvurnar í fanginu og símana í höndunum. Þeir hengja haus meðan rýnt er í skjáinn en þetta skapar álag á vöðvana aftan á hálsinum og hnakkanum en það getur leitt til vöðvabólgu og stífs hnakka með tilheyrandi höfuðverk, suði fyrir eyrum og svima.

Að halla sér fram og láta hálsinn bera meginþunga höfuðsins er ekki góð staða fyrir líkamann sérstaklega ekki lengi í einu. Efsti hluti hryggjarins er boginn líka og það veldur auknu álagi á bak og herðar. Mjög margir þjást af vöðvabólgu í hálsi og öxlum vegna mikillar setu við símana eða tölvurnar. Með auknum aldri verður fólk viðkvæmara fyrir vöðvabólgu og líklegra til að þjást af henni. Það var ástæða fyrir því að í gamla daga voru börn hvött til að ganga upprétt og bera höfuðið hátt. Þótt nú hafi verið aflagt að láta stúlkur af fínum ættum ganga með bók á höfðinu til að æfa limaburðinn. En þessi þjálfun skilaði þeim heilbrigðari líkamsstöðu og þær fengu síður stoðkerfisverki á efri árum. En það að sitja með snjalltæki í fanginu og andlitið ofan í tölvunni jafngildir því að menn séu með um það bil tuttugu og fimm kíló hangandi um hálsinn. Þetta hefur að sjálfsögðu vond áhrif á heilsuna, sérstaklega til lengdar.

Ef verið er að vinna á tölvu ætti fólk að standa reglulega á fætur og stilla sér upp með bakið í vegg, þrýsta síðan rassinum og herðablöðunum eins fast að veggnum og hægt er og reyna að láta höfuðið og hálsinn leggjast eins beint að veggnum og hægt er. Með þessu móti er staða hryggjarins leiðrétt og síður hætta á að hálsliðir og vöðvar í hálsinum festist í óeðlilegri stöðu. Ef ekki tekst að rétta fyllilega úr höfði og það leitar fram á við þrátt fyrir að staðið sé í þessari stöðu er líklegt að vöðvarnir séu í fastir og nauðsynlegt að leita til sjúkraþjálfara til að leiðrétta það.

Réttu úr líkamanum

Slæm líkamsstaða er ávani en að einhverju leyti einnig arfgeng. Á unglingsárum hafa börn tilhneigingu til að leitast við að minnka sig. Þetta á helst við feimna og uppburðarlitla krakka en þær stellingar sem þau setja sig í geta orðið að vana. Margir ganga alltaf álútir, aðrir beygja sig í herðum og hnjám og það breytir því hvernig þeir hreyfa sig. Beinþynning hefur einnig áhrif á hvernig menn bera sig.

Í dag vinna flestir við tölvur allan sinn starfsferil. Mörg önnur störf krefjast einnig einhæfra hreyfinga og mikillar viðveru. Allt stuðlar þetta að stoðkerfisvandamálum síðar á æfinni. Streita hefur sömuleiðis mikil áhrif á hversu stífir vöðvarnir eru og smátt og smátt skapast vöðvahnútar við hrygg og hnakka. Blóðrásin er heft um þessa staði og það veldur bólgum og sársauka.

Fimm einkenni vegna vöðvahnúta í hnakka:

Verkir aftan á hálsi og í hnakka

Höfuðverkir og suð fyrir eyrum (tinnitus)

Verkir og striðleiki í kjálka skertrar blóðrásar

Andþyngsli

Misjafnt er hve mikil einkenni fólk finnur og margir eru einkennalausir þar til komið er í óefni.

Aldurinn hefur áhrif

Þegar fólk eldist fer það smátt og smátt að ganga saman, meðal annars vegna þess að diskarnir milli hryggjarliðanna þynnast. Þetta getur valdið vandamálum, sérstaklega í hálsinum. Með því að vera meðvitaður um vandann og styrkja vöðvana er hægt að vinna gegn þróuninni. Það þarf ekki mikla þjálfun. Einfaldar æfingar í fimm til tíu mínútur tvisvar til þrisvar á dag duga.

Þrjár góðar æfingar

  1. Út með brjóstkassann! Vöðvabólga í hnakka og herðum getur tengst minnkuðum styrk í brjóstvöðvum. Standið reglulega upp og andið djúpt, rekið brjóstkassann út og haldið í 4-7 sekúndur, andið þá hægt frá ykkur. Stillið ykkur upp í dyraopi og leggið flata lófana á dyrakarmana sitt hvoru megin. Stígið síðan eitt skref inn í herbergið en hafið hendurnar kyrrar. Haldið teygjunni í 120-30 sekúndur og endurtakið þrisvar sinnum. Hægt er að gera þessa æfingu fyrst hægra megin síðan vinstra megin.2. Styrkur í hnakkann! Dragið hökuna inn að hálsinum þannig að góð undirhaka myndist. Þrýstið með vísifingri á hökuna og dragið hana til hliðar en reynið um leið að halda hökunni fastri með hálsvöðvunum. Haldið þessari stöðu í 10 sekúndur og endurtakið nokkrum sinnum.
  2. Takið hlé! Þegar þið sitjið fyrir framan tölvu eða eruð að skrolla í símanum gætið þess að taka hlé á hálftíma fresti. Reynið að hreyfa ykkur í stað þess að sitja alltaf í sömu stöðu. Teygjið á hnakkanum og hálsinum með því að halla höfðinu fram og til beggja hliða og halda við með hendinni þegar þið finnið teygju á vöðvunum. Teygjið fram hökuna og dragið hana inn til skiptis. Haldið hverri teygju í 10 sekúndur.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.