Nægir að taka vítamín?

Fæstir Íslendingar borða nóg af ávöxtum og grænmeti en allflestir taka einhvers konar vítamín. Skyldi það vera nóg til að sjá okkur fyrir því magni af C-, D-, og A-vítamínum sem við þörfnumst? Fyrir svo utan fólat, kalsíum, sink og önnur steinefni sem grænmetið er svo ríkt af. Svarið er nei, það er ómögulegt að bæta sér upp þau næringarefni sem fólk fær úr fæðu með inntöku taflna.

Ráðlagður dagskammtur af grænmeti og ávöxtum fyrir einstaklinga yfir fimmtugt er sem svarar einum og hálfum ávexti og um það bil tveimur bollum af grænmeti. Þetta hljómar alls ekki mjög mikið og ætti að vera auðvelt að uppfylla. Samt þvælist það fyrir okkur. Með því að borða einn ávöxt á morgnana og hálfan í eftirrétt á kvöldin væri sá hluti ráðlagðs dagskammts uppfylltur og salat með matnum í hádeginu og á kvöldin, ásamt soðnu grænmeti sem meðlæti nægði til að klára hinn. Ef menn ákveða hvenær og hversu mikið þeir borða af þessari hollu fæðu yfir daginn og halda sig síðan við rútínuna er auðvelt að sjá til þess að þeir nái alltaf að fá eins mikið og þeir þurfa af nauðsynlegum næringarefnum.

Jafnvel þótt vítamínpillur innihaldi þau efni sem við þörfnumst vantar í þau holl og góð fylgiefni sem menn fá þegar fæðu neytt. Í einum tómati er til að mynda mun meira en bara vítamín. Þar eru litarefni sem hægja á vexti krabbameinsfrumna, trefjar sem bæta meltinguna og næring fyrir góðgerlana í þörmunum. Þetta gerir það að verkum að mun betra er að vanda fæðuvalið og hugsa vel um mataræðið fremur en að treysta á að maður geti bætt sér upp það sem á vantar með vítamínpillu á morgnana.

Ritstjórn desember 18, 2023 09:01