Netsvik, falsfréttir, rangupplýsingar og gervigreind – hvað er raunverulegt?

Næsta miðvikudag 14. janúar kl. 17:30 verður áhugaverður fundur í Hannesarholti um netsvik, falsfréttir, rangupplýsingar og gervigreind. Það verður sífellt erfiðara að greina milli staðreynda, raunverulegra upplýsinga og þess sem er beinlínis falsað og gert til að afvegaleiða fóllk það verður því sífellt mikilvægara að læra að greina þarna á milli.

Fundurinn í Hannesarholti er opinn öllum og verður einnig streymt á netinu. Fundurinn ber yfirskriftina: Netsvik, falsfréttir, rangupplýsingar og gervigreind – Hvað er raunverulegt?

Heimili Heimsmarkmiðanna býður öllum áhugasömum, einkum og sér í lagi eldri borgurum að mæta á umræðufundinn. Rætt verður um vaxandi upplýsingaóreiðu í samfélaginu.

Í dag er sífellt erfiðara að greina á milli hvað er satt og hvað er logið. Samfélagsmiðlar eru mettaðir af sannfærandi ósannindum, á meðan raunverulegar fréttir geta virst ótrúlegar, þótt þær séu sannar. Í heimi þar sem mörkin milli sannleika og skáldskapar verða sífellt óskýrari vakna brýnar spurningar: Hvernig bregðumst við við gervigreind, falsfréttum, rangupplýsingum og netsvikum? Og hvernig endurheimtum við og styrkjum fjölmiðlalæsi á nýjum tímum?

Í Hannesarholt mæta sérfræðingar með mikla þekkingu á efninu: Haukur Brynjarsson, sérfræðingur hjá Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands, Jón Gunnar Ólafsson, lektor við HÍ og Sigríður Dögg, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannróms stýrir fundinum. Fundurinn er gjaldfrjáls og verður einnig sendur út í streymi. Heimili Heimsmarkmiðanna er styrkt af Reykjavíkurborg og Hannesarholti.