Það sem fer upp kemur ekki endilega niður

Auður Haralds

Auður Haralds

Auður Haralds rithöfundur skrifar

Hvernig er bezt að þreyja þorrann? Liggja í sófanum og leyfa þyt þúsundkallanna í lögnunum að svæfa sig. Fljóta síðan sofandi að Feigðarósi, já, eða einhverjum öðrum viðkomustað lífshindrunarhlaupsins, til dæmis sjónvarpsþætti sem er betur skrifaður og betur leikinn en fréttirnar.

Fyrir helgi var friðurinn rofinn þegar þunglamaleg digur rödd brauzt inn í værðina. Röddin sagði, að kaupmenn hefðu enn einu sinni stolið peningunum okkar. Matvörur hefðu ekki lækkað. Ég opnaði bæði augun til að skoða manninn. Alltaf gaman að sjá mann sem á von á að eitthvað lækki.

Ég skildi ekki rök mannsins, sem við skrifum á höfgina sem heitavatnsbruðlið olli, því það getur nú ekki verið að menn fari í miðlana með illa rökstuddar yfirlýsingar. Þess utan er það ekki satt, að ekkert hafi lækkað. Benzínið. Það er beinlínis orðið ódýrt. Nú gæti einhver sagt, að benzín sé ekki matur. Sá einhver kann þá lítið fyrir sér í eldhúsi. Þegar benzínið er orðið hræódýrt, þá getur fólk keypt meira af dýrum mat. Svo stendur benzín í beinna sambandi við matargerð en margan grunar: Það er til fólk sem notar það til að ná verðmiðanum af nýkeyptum búsáhöldum. Sem er óverjandi bruðl, það má nota terpentínu, sem á öllum tímum er ódýrari en hreinsað benzín.

Svo hafa einhverjar matarörður lækkað. Ekki allar, ekki flestar, ekki margar, en sumar. Það gæti villt fyrir fólki, að áður en lækkunin skall á, hækkaði matur svo ört, að fólk þurfti hjálpartæki til að fylgjast með verðklifinu. Annað hvort báru menn bókhaldsdoðrantana með sér í kauffélagið eða fengu sér app til að appa eða fletta við hillurnar. Þannig má vera að margir hafi einfaldlega misst af síðustu hækkun fyrir lækkun og þess vegna virðist vöruverðið hafa staðið í stað eða hækkað.

Ég nota einfalda leið til að vega og meta hækkun/lækkun: Dómsúrskurðurinn á kassanum. Fyrir hrun sagði kassakrafturinn oftast „eiddúsond ádda úndruð og eitthvað.“ Eftir hrun hætti hún því og hóf átök við ný orð í íslenzku: „Dvo dúsond sjo úndroð og eitthvað.“ Núna segir hún: „Fjogur dúsond drjú úndrod og eitthvað.“ Borða ég nú 60% meira en árið eftir hrun? Nei. Þá hefur eitthvað hækkað, þó það hafi kannski líka lækkað.

lýst eftir réttlætinuEr það hér sem minnt er á, að á meðan kassakvittunin kleif hæð sína í loft upp (frá því fyrir hrun og fram á daginn í dag), hafa bætur ekki hækkað um 100%? Er það ekki óþarfi? Þá sleppum við því og tökum verðlækkanir: Meðal þess sem ég tók eftir að lækkaði var kaffið. Það féll um fjórar krónur. Fór úr 1.076 í 1.072. Það er hvorki meira né minna en 0,41% lækkun. Maður veit varla hvernig maður á að lóga þessum umframkrónum. Haldist þetta lága verð á kaffipakka stöðugt, áætla ég að hafa vetursetur á Bali næsta vetur.

Annað sem hefur lækkað- og hér er um verðhrun að ræða- eru rommkúlur. Þeim var nú bara hrint fram af verðhamrinum og féllu lóðrétt um ein 9%. Nú gætu sumir spurt- sennilega þeir sömu og skilja ekki að benzín er matur – hvort rommkúlur séu matvara. Það fer nú bara eftir hvernig á er haldið. Kúlurnar eru gerðar sem hér segir: Innst er áfengi; líklega læknaspritt með rommslummu út í. Rommblandan er heft með þykkri sykurhúð sem er blönduð kókosmjöli. Yzt er súkkulaðihúð. Séu kúlurnar notaðar í morgunverð í stað andabrauðsins, þá koma þær ofan í tóman maga. Þannig hámarksnýtist áfengið í þeim og magnast jafnframt upp af sykrinum sem fylgir. Það þarf ekki margar kúlur til að ganga glaðari inn í nýjan dag. Svo er súkkulaðið seðjandi og ekki má gleyma kókosmjölinu: Trefjar! Og ekki bara trefjar, heldur sætar trefjar. Það gæti sparast álitleg upphæð í minni neyslu á hægðalyfjum.

Sú neyzluvara sem mest hefur lækkað, heil 80%, margfalt meira en rommkúlur og miklu meira en benzín, er kókaín. Það eina sem okkur vantaði ekki.

 

 

 

 

 

Auður Haralds febrúar 2, 2016 11:35