Oft var þörf, nú er nauðsyn

Auður Haralds

Auður Haralds

Auður Haralds rithöfundur skrifar

Árans fjárans vitleysa var það hjá okkur að segja okkur frá kaþólskum siði. Þar á bæ eiga menn verndardýrðlinga, sem vinna dag og nótt við að láta smátt sem stórt ganga upp hjá mannfólkinu. Það eina sem þarf til að fá aðstoð að ofan, er stutt ákall, svo stutt, að það er styttra en óþarft símtal.

Tökum dæmi: Þú ert við það að missa af strætó. Næsti vagn kemur einhvern tíma í óræðri eilífðinni. Þá másar þú: „Heilagur Kristófer, láttu mig ekki missa af strætó“. Uppá himnum smellur Kristófer í gír. Hann þenur vængina og steypir sér til jarðar. Haukfrán augu hans finna strætóinn þinn, sem markvisst af meðvituðum ásetningi ætlar að æða fram hjá biðstöðinni þinni og bruna leiðar sinnar án þín. Kristófer grípur aftan í vagninn, breiðir út vængina í hemlunarstöðu (sjá vinnuteikningar af flugvélum) og stingur niður himneskum hælunum. Nú ekur strætó á hundrað metra hraða á klukkustund. Þú nærð að lagfæra hárið sem ruglaðist í æsingnum, máta mismunandi yfirhafnir, finna lyklana og ganga síðan virðulega út á biðstöð. Þegar þú hefur tekið þér stöðu þar og sett upp umburðarlyndan þolinmæðissvip, þá sleppir Kristófer takinu. Vagninn þýtur til þín og þökk sé verndardýrðlingi ferðalanga standast áætlanir þínar. Það er óþarfi að nefna það, en auðvitað dáleiðir Kristófer bílstjórann og aðra farþega svo þeir taki ekki eftir töfunum.

Kannski er eins gott að Kristófer er lítið kallaður til.  Göturnar okkar mega varla við því að harðsnúnir hælar Heilags Kristófers bætist við og risti upp malbikið.

Hið efra er skýr verkaskipting og afmörkuð verksvið.  Þeir eru svo ekki jafn afdankaðir og villutrúar – hér er átt við lúterstrúar – menn gætu haldið. Dæmi um að fylgst er með tækni og framförum hér niðri væri, að Heilög Klara sér um sjónvarpið.  Þó virðist hún ekki sinna dagskránni, heldur halda utanum útsendingar og fólkið sem vinnur við þær.  Það þýðir ekki að hún geti ekki fært út kvíarnar og farið að föndra skárri dagskrá. Sameinað ákallsátak, t.d. alla virka daga; „Heilög Klara, viltu hafa eitthvað skemmtilegt í kvöld“ gæti ýtt henni til aukins vinnuframlags.

Öryrkjar eiga sér verndardýrðling, Heilagan Rocco, sem var heilari í lifanda lífi. Mætti ekki nefna við hann, að hér höfum við Grensás og Reykjalund og Náttúrulækningahælið og hvort hann væri ekki til í að taka gangstéttarbrúnirnar í staðinn. Þar sem hallinn er á þeim, þið vitið, hallinn sem hjólastóll á að geta klifið. Sem var lagður af Pólverja á þriðja bjór eða unglingi sem aldrei hefur orðið misdægurt og aðeins tónf hundruð hestafla trukkur getur ekið upp eftir. Jafna það, Rocco.

Dýrðlingar óskastSvo mikil og margvísleg er umhyggjan hið efra, að maður verður hreint hlessa að uppgötva, að í gögnum um gagnsemi himnanna engla eiga ellilaunaþegar sér engan verndardýrðling. Væntanlega er það vegna þess, að fyrr á öldum var fólk skynsamara og dó Drottni sínum áður en það komst á eftirlaun. Þar sem sú ráðdeildarsemi líkt og flest önnur er farin fyrir lítið, þá þyrfti eiginlega að ráða bót á þessu. Það er ekki eins og skortur sé á dýrðlingum, þeir hlaupa á þúsundum og flestir verkefnalausir. Þetta er líka óréttlæti og af því höfum við nóg. Ef að vændiskonur (háð því að þær hafi iðrast) og hattagerðarmenn (án iðrunar) hafa verndardýrðling, þá eigum við líka að fá. Sting ég upp á að lagzt sé á eitt og verndarengli síma – og fjarskipta sent sms og kurteislega farið fram á að okkur sé afhentur einn slíkur. Verndarengillinn heitir Gabríel Erkiengill og boðin hljóta að berast honum séu þau send á skiptiborð Símans.

 

Auður Haralds júní 7, 2016 13:58