Draumur eins, martröð annars?

Auður Haralds

Auður Haralds

Auður Haralds rithöfundur skrifar

Menn eiga sér drauma.  Sumir stóra drauma, aðrir hógværa drauma.  Nokkrir eiga sér byggðadrauma.  Það eru aðallega ríkisstjórnir og borgarstjórnir. Þeir draumar eru oft draumórar.

Ríkisstjórnir vilja byggja á ræmum undir bröttum hlíðum og styrkja ofankomusjóð.  Það er af því að ríkisstjórnir eru ekki eins vitlausar og borgarstjórnir, þær vita að vikuleg snjóflóð halda mannfjöldanum niðri og þá atvinnuleysi í lágmarki.  Borgarstjórnir halda að gamlir miðbæir séu svarthol og taki endalaust við. Þetta héldu menn um sjóinn á síðustu öld. Nú vitum við að sjórinn tók ekki endalaust við. Lítur borgarstjórnin til hafs og dregur lærdóm af? Nei, hún æðir blint í sjóinn.

Nú á ekki bara að þétta byggð, það á líka að blanda hana betur. Veitti ekki af, miðborgin er óttalega einsleit; hótel, gistihús, veitingahús og lopabúllur. Innan um þessi naglföstu verðmæti velkjast nokkrir innlyksa aldraðir og örlítið fleiri yngri og hraustari. Þó er ekki mannlaust í miðbænum, síður en svo, já það er bara mannmargt, en 90% íbúanna eru ferðamenn og greyin hírast í 80% húsnæðisins. Þetta er óneitanlega blanda en hráefnin eru fá.

Í draumi sá einhver fyrir sér eðlilega byggð og eðlilegt mannlíf. Annað hvort eins og maður sér í útlandinu, þar sem engum hefur dottið í hug að breyta miðborg höfuðborgar í leiksvæði ferðamanna þar sem örvona innfæddir hrekjast á milli olnboga og þrífóta með glóðaraugu og skrámur. Eða eins og Reykjavík fyrir fimmtíu árum, þegar hún  ar nákvæmlega eins og málpípa borgarinnar lýsti óskaborginni sinni: Alls kyns verzlanir, skrifstofur, þjónusta, léttur iðnaður og íbúðarhúsnæði.

Um miðja síðustu öld var miðborgin blönduð byggð.  Í bílskúrum á báðum Holtum voru verkstæði, heildsalar á hæðum, skósmiðir í kjöllurum og við Laugaveginn var léttur iðnaður; járnsmiðja. Þar voru líka klæðskerar, fatahreinsanir, húsgagnaverzlanir, kjötvinnsla og reykhús. Verksmiðjur vantaði ekki, á einu horninu var smíðað kex, handan við það súkkulaði og spölkorni ofar var bruggað maltöl.

Fyrst fór reykhúsið. Einhverjar húsmæður höfðu fengið þvottinn reyktan á snúrunum. Það tók mörg ár að bola því í burtu, en á endanum hafðist það.

Síðan hófust draumfarir. Einhver með skuggalega skipulagsþráhyggju og hólfunaráráttu gat sagt til um, að nú skyldi reisa iðnaðarhverfi og öll starfsemi sem í heyrðist eða af rykaðist skyldi í sóttkví fyrir utan byggð, rétt eins og hver annar pestarpyttur. Næst væri gott að setja skrifstofur í einangrun og því skyldi byggja skrifstofuhverfi. Allar verzlanir væri bezt að hafa í einu húsi, fjarri öllum fótgangandi aulum. Með þessum aðgerum mætti losa miðborgina við rápandi rollur, sem hvort eð er gátu fengið súrefniseitrun af að rjátla undir beru lofti.

Þá var aðeins eftir að flokka fólkið: Efnafólk fékk nesin (með útsýni), fátæklingar fengu naglaskúffu fyrir ofan snjómörk, fólk með uppsteit fékk hraðbraut fyrir dyrnar og meðalmaðurinn gat velkzt á veðursvæðum.

Þetta tókst vel. Miðborgin er ný tegund eyðimerkur, engin þjónusta, fáar verzlanir (hvað getur borgarbúi þurft mikið af lopa og lífsstíl um ævina?), uppgefnir frumbyggjar. Draumur eins er martröð annars.Auglýsing álver

Og nú nýr draumur: Blöndum miðborgina uppá nýtt. Troðum inn barnafólki með trampólín í stofunni (það verður ekkert „úti“ eftir), fáum tannsmið í einhvern bílskúrinn og kannski konu með prjónavél í annan(snyrtilegt), reisum áburðarverksmiðju við Tjörnina (og seljum ferðamönnum svanaseyru í túbum) og lítið lekkert álver við Laugaveginn. Verum eðlileg.

Auður Haralds mars 29, 2016 12:41