Ásdís Ósk Valsdóttir eigandi Fasteignasölunnar Húsaskjóls skrifar
Það er oft freistandi að fara í kostnaðarsamar endurbætur fyrir sölu til að auka söluverðmætið. Hins vegar er smekkur manna er svo misjafn að stundum færðu ekki einu sinni kostnaðinn til baka þar sem kaupandanum finnst þetta forljótt og vill skipta út glænýja baðherberginu. Það er mikill munur á að selja eitthvað ný endurnýjað eða gamalt ef það kemur upp galli. Ef það fer á leka á bakvið nýju flísarnar á baðinu þá berð þú ábyrgðina á þeim galla. Þú færð yfirleitt meira í vasann þegar upp er staðið með því að selja eignina aðeins ódýrara og leyfa kaupandanum að gera hana að sinni.
Er hægt að auka virði eignarinnar fyrir sölu?
Það er mjög auðvelt að auka virði eignarinnar fyrir sölu með mjög ódýrum leiðum. Laga bilaða krana, brotna hurðarhúna, festa listana, mála vegginn sem er orðinn kámugur og ljótur. Þessi atriði skila þér í raun oft hærra söluverði heldur en glænýtt eldhús. Ef smáviðhaldi er ábótavant hafa kaupendur iðulega áhyggjur af stórum viðhaldsþáttum sem sjást ekki og vilja þá greiða minna fyrir eignina.
Hefur dót áhrif á söluverð eignar?
Stundum eru rými svo yfirhlaðin að þau sjást ekki. Leyfa rýmunum að njóta sín þannig að kaupandinn eigi auðvelt með að sjá sig í þeim. Hvað ætlar þú EKKI að flytja með þér á nýja heimilið? Láttu það fara áður en þú setur á sölu. Tiltekt fyrir sölu er yfirleitt hæsta tímakaupið sem þú kemst í og ég mæli eindregið með því byrja ferlið áður en þú hringir í fasteignasalann.
Skiptir aðkoma máli fyrir sölu?
Já fyrsta sýn skiptir höfuðmáli og kaupendur keyra oft fyrir utan hús til að sjá hvernig þeim líst á umhverfið áður en þeir bóka skoðun. Það er því gott að lakka útihurðina og yfirfara útiljósin. Taka vel til í garðinum og nærumhverfinu. Slá blettinn og reita beðin. Þú vilt að kaupendum líði vel með að koma að húsinu. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég fengið símtal frá kaupanda sem afboðar skoðun vegna þess að hann keyrði framhjá húsinu um helgina og leist ekki á ytri aðkomu.
Þarf að undirbúa eign fyrir sölu?
Því betur sem eign er undirbúin því fleiri kaupendur getur þú laðað að og þá selur þú oft hraðar og á hærra verði. Með því að nýta sér alla þá þjónustu sem er í boði s.s. stílista og fagljósmyndara þá nýtur eignin sín betur og fær meiri sýnileika. Það er gífurlegt áreiti á öllum vígstöðvum í dag og við erum alltaf að berjast um athygli kaupenda. Því betri sem undirbúningurinn er því meiri athygli fáum við.
Það er yfirleitt best að selja fyrst
Með því að selja eignina sína fyrst og kaupa svo getur þú leyft þér að bíða eftir besta mögulega tilboðinu. Þú verður ekki að taka næsta tilboði þar sem þú ert komin í tímaþröng með klára kaupin á draumaeigninni. Þú verður líka betri kaupandi þar sem þú ert með færri fyrirvara og þannig eykur þú líkurnar á því að þínu tilboði verði tekið.