Á vel heima á hinu pólitíska sviði

Fjölskyldur frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningunum eru ekki alltaf mikið í sviðsljósinu. Oftast eru það makar og börn sem kastljósið beinist að.  Lifðu núna lék hins vegar forvitni á að heyra viðhorf foreldra frambjóðenda til stjórnmálaþáttöku barna sinna og hafði samband við móður Dags B. Eggertssonar, Bergþóru Jónsdóttur sem er lífefnafræðingur hjá Actavis. Faðir Dags, Eggert Gunnarsson er dýralæknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. Hvernig hefur Bergþóru fundist að fylgjast með Degi í pólitíkinni.

Sagði upp Mogganum

„Það er svolítið sérstakt og mjög gaman að fylgjast með því hvað hann á vel heima á hinu pólitíska sviði. Hann er svo kröftugur, duglegur og ákveðinn í að láta gott af sér leiða. Það sem er erfitt er hvað pólitíkin er grimm. Ég sagði upp Mogganum, að vísu aðallega útaf umfjöllun um Gauta, yngri bróður Dags. Það var svo illa talað um þá í blaðinu. Leiðist þessi neikvæð umræða segir Bergþóra sem á tvö börn fyrir utan Dag, Gauta sem er hagfræðiprófessor í Bandaríkjunum og Valgerði sem er lögmaður í Reykjavík. Börnin hafa alla tíð verið mjög samrýmd og kannski bestu ráðgjafar hvors annars í stóru og smáu. T.d. talast þeir bræður við mörgum sinnum í viku hverri.

Áhugi á félagslífi kom snemma

„Dagur hefur alltaf verið mikil félagsvera, alveg frá í barnaskóla. Hann var inspector scholae í MR þegar hann var þar og tók síðan virkan þátt í starfi Röskvu í Háskólanum og var formaður stúdentaráðs m.a. Hann kom snemma hjá honum, þessi áhugi á félagslífi. Annars var hann virkur á mörgum sviðum, var í handbolta og fótbolta, sló öll met í sölu getraunamiða fyrir félag sitt Fylki, sótti norsku tíma niður í Miðbæjarskóla, var í Lúðrasveit Árbæjar og Breiðholts, reyndi fyrir sér í postulínsmálningu og í heilt ár lék hann í Línu langsokk í Þjóðleikúsinu. Í framhaldi af því fór hann í ballett og væri líklega balletdansari í dag en ekki læknir og borgarstjóraefni ef hann væri ekki með plattfót. Við muldum svo sem ekki undir börnin okkar. Þau fóru allar sínar ferðir í strætó enda hefur Dagur síðan verið ötull baráttumaður fyrir góðum almenningssamgöngum. Ég hélt, þegar hann fór í læknisfræðina að hann myndi söðla um og einbeita sér að henni, en hann tók pólitíkina fram yfir. Ég hef ekki miklar skoðanir á því sem börnin mín gera en styð þau heilshugar í því sem þau vilja gera. Ég reyni að draga ekki úr þeim og vera hvetjandi, enda treysti ég þeim svo vel. „Lærðu það sem þú hefur áuga á, það er alls staðar þörf fyir gott fólk.“ Börnin mín hafa valið sér sínar leiðir. Þau hafa öll verið félagslynd, en Dagur er sá eini sem valdi pólitíkina. Og það af hreinni hugsjón.  Gæti sjálfsagt haft það miklu þægilegra sem læknir og væri áreiðanlega frábær sem slíkur því að hann er svo hlýr og á gott með að umgangast fólk.“

Alinn upp í vinstri pólitík

Foreldrar Dags, systkini og nánasta fjölskylda eru öll í Samfylkingunni og móðir hans og móðursystkini sem og föðurfólk voru alin upp hjá vinstri sinnuðum foreldrum gott ef ekki kommúnistum. Gísli Geir Jónsson móðurbróðir Dags var í framboði fyrir Samfylkinguna í Garðabæ í þessum kosningum. Dagur á því sterkt bakland í pólitíkinni. Hann var samt ekki búinn að ákveða í hvaða stjórnmálflokk hann gengi, þegar hann var í stúdentapólitíkinni, en það var þá sem hann skrifaði ævisögu Steingríms Hermannssonar fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins.

Dagur „Jónsdóttir“

Dagur fæddist í Noregi. Þegar að fæðingu kom og það var ljóst að foreldrarnir voru ekki giftir,mátti ekki kenna hann við föður sinn og lá beinast við að dómi Norðmanna að hann fengi eftirnafn móður sinnar og yrði Jónsdóttir. Það varð síðan málamiðlun að kalla hann Bergþóruson. Þegar fjölskyldan flutti aftur til Íslands var ákveðið að bæta Eggertsson við eftirnafnið, en þar sem þjóðskráin leyfði ekki svo langt nafn var endirinn sá að Dagur varð B. Eggertsson. Og nú er hann að verða borgarstjóri.

Duglegur og fylginn sér

Kom það móður hans á óvart? „Nei, ég get ekki sagt það. Þetta var auðvitað háð því að kosningarnar gengju vel sem þær gerðu og skoðanakannanir sýndu að hann þætti góður kostur sem borgarstjóri. Það kemur mér ekki á óvart að hann taki við þessu embætti. Hann er duglegur og fylginn sér og gerir það sem hann ætlar sér. Ég dáist mest að konunni hans, hvað hún er þolinmóð og bakkar hann vel upp. Hún er yndisleg og hann hefði ekki getað staðið í þessu nema af því hann hefur hana sér við hlið“,segir hún.  Eiginkona Dags er Arna Dögg Einarsdóttir læknir og þau eiga 4 börn á aldrinum 3-10 ára. Arna er í fullu starfi og vaktavinnu. Bergþóra segir að þau hjónin vilji gjarnan hjálpa þeim með börnin og hafi gert það alveg frá því að þau voru nýfædd. „ Einhverju sinni heyrði ég á tal tveggja eldri barnanna þegar þau voru lítil, en þá spurði Heiða „Steinar, hvort eigum við heima á Óðinsgötunni eða í Þverásnum (húsi afa og ömmu)“? Steinar hugsaði sig vel um og sagði svo „Bara bæði“.

Ritstjórn júní 18, 2014 15:53