Miðjarðarhafsmataræði hollt og gott

Fyrir ekki svo löngu var ráðist í að kanna heilsufar eldra fólks víða um Evrópu og þá komust menn að því að í löndunum við Miðjarðarhaf var fólk heilsuhraust langt fram eftir aldri og margir langlífir. Þetta vildu vildu vísindamenn þakka mataræðinu. Síðan þá hefur gjarnan verið talað um Miðjarðarhafsmataræðið og það talið eitt hollasta fæðuval sem völ er á.

En hvað er þetta Miðjarðarhafsmataræði? Í raun ekki annað en það sem forfeður okkar gerðu, nýting á þeim mat sem býðst á svæðinu og auðvelt er að rækta. Þarna er jörð frjósöm og veðurfar hlýtt þannig að ávaxtatré og margvíslegar nytjajurtir vaxa villtar og auðvelt er að rækta það sem hugurinn girnist. Ólífutréð vex þarna villt en er einnig ræktað og því vel sinnt. Úr því fæst holl og góð olía til matargerðar. Mataræði er þess vegna fjölbreytt og hollt. Matreiðsla er almennt einföld og réttirnir auðveldir og einstaklega góðir. Þetta eru lönd sem liggja að hafi og fiskur því víða aðalprótíngjafinn en alls konar kjöt býðst líka, auk grænmetisins og allt er eldað frá grunni.

Hvað gerir þetta mataræði fyrir heilsuna?

Helsti kostur þess að fylgja Miðjarðarhafsmataræði og borða helst fisk og mikið af grænmeti dregur úr bólgum í líkamanum, lækkar kólesteról í blóði og blóðþrýstingur helst í eðlilegum mörkum. Grænmeti og ávextir eru gott fóður fyrir þarmaflóruna og nýleg bresk rannsókn sýndi fram á að með því að nota eldunaraðferðir og hráefni í mat á sama hátt og tíðkast í löndunum við Miðjarðarhafið gæti roskið fólk bætt meltingu, minni og skerpu hugans umtalsvert. Þetta er ekki lítill ávinningu.

En fleira kemur til:

  • Minni líkur á hjartasjúkdómum. Eitt af því sem komið hefur fram í rannsóknum er að hægt að minnka líkur á hjartasjúkdómum með því að borða mikinn fisk, minna af rauðu kjöti og draga úr saltneyslu. Þetta kemur af sjálfu sér ef reynt er að tileinka sér matarvenjur íbúa við Miðjarðarhaf.
  • Minni líkur á heilablóðfalli. Miðjarðarhafsmataræðið hjálpar mönnum að draga úr vonda kólesterólinu, LDL, í blóði og það dregur úr hættu á heilablóðfalli.
  • Minni líkur eru á að menn þrói með sér sykursýki II. Sýnt hefur verið fram á að Miðjarðarhafsmataræði bætir insúlín næmni í líkamanum og stuðlar að heilbrigðri þarmaflóru vegna þess hve trefjaríkt þetta fæði er. Þetta tvennt dregur úr líkum á að menn þrói með sér sykursýki.
  • Betri hugræn virkni. Ef fólk vill halda skýrri hugsun og skörpum huga lengi fram eftir aldri er Miðjarðarhafsmataræðið góður kostur. Grænmeti er stór hluti fæðuvals á þessum slóðum og uppistaðan í mörgum réttum. Einnig eru hnetur, fræ, ávextir og kryddjurtir mikið notaðar. Í þessu hráefni eru andoxunarefni, steinefni, vítamín og trefjar sem hjálpa til við að halda heilanum heilbrigðum. Nokkrar rannsóknir styðja að Miðjarðarhafsmataræðið geti dregið úr líkum á að menn fái alzheimerssjúkdóminn.
  • Þyngdarstjórnun. Það er skynsamlegt að velja ætíð fæðuna sem þú neytir út frá því hvað er heilsusamlegt og nærir líkamann best. Miðjarðarhafsmataræði er fjölbreytt og gott og inniheldur ekki þau efni sem helst valda því að fólk á vesturlöndum þyngist.

En hvað á þá að borða?

Í raun snýst Miðjarðarhafsmataræði um það sama og manneldisráðleggingar Landlæknis. Að borða meira af grænmeti, minna af rauðu kjöti og velja holla fitu. Ástæða þess að það hefur orðið svo vinsælt að fylgja því víða um heim er að þetta er ákaflega góður og fjölbreyttur matur og fljótlegt að elda hann.

Meðal þess sem vert er að prófa

  • Ætiþistlar, avókadó, rauðrófur, paprikur í öllum litum, sellerí, eggaldin, grænkál, ferskar baunir af öllu tagi, spínat, tómatar af öllum stærðum og gerðum og kúrbítur.
  • Epli, apríkósur, kirsuber, klementínur, döðlur, fíkjur, greip, melónur, nektarínur, appelsínur, ferskjur, perur, granatepli, jarðarber og sítrónur eru allt hluti af Miðjarðarhafsmataræði og gott að borða eitthvað af þessu daglega.
  • Möndlur, furuhnetur, pistasíur, valhnetur, bygg, hveitiklíð, hafrar, búlgur, kúskús, kínóa, nýrnabaunir, smjörbaunir og kjúklingabaunir.
  • Eplaedik, vínedik, balsamik-edik og ólífuolía
  • Basillauf, lárviðarlauf, kanill, negull, kóríander, pipar, dill, mynta, múskat, óreganó, rósmarín, salvía og tímían.
  • Ólífur, sesamfræ og tahini.

Til að fá góðar hugmyndir að réttum úr þessum hráefnum er hægt að gúgla, Giada di Laurentis eða Yotam Ottolenghi þau hafa bæði sérhæft sig í að elda eftir hefðum Miðjarðarhafslandanna, gefið út matreiðslubækur og gert sjónvarpsþætti.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 30, 2025 07:00