Þá hjálpuðust menn að

Ásgerður Pálsdóttir fyrrverandi bóndi á Geitaskarði í Langadal og formaður stéttarfélagsins Samstöðu og núverandi formaður Félags eldri borgara í Húnaþingi skrifar.

Þegar ég lít til baka, sé ég að samfélagið sem ég ólst upp í og samfélagið í dag er afskaplega ólíkt.Mér fannst alltaf að kynslóð foreldra minna hefði upplifað mestu breytingar á samfélagi sem urðu um árhundruð, en ég er ekki svo viss um það í dag.

Foreldrar mínir tilheyrðu gamla bændasamfélaginu sem ég ólst upp í, og ef ég held mig við mína ævi eru breytingarnar miklar.

Þegar ég var að alast upp var vélaöldin að vísu búin að ryðja sér til rúms, en það voru enn notaðir hestar við slátt og rakstur. Seinna kom svo Fergusoninn góði og allt þróaðist áfram. Þegar byrjað var að selja mjólk til kauptúnsins var enn handmjólkað.

Í þessu samfélagi var eins og á öllum tímum sagðar sögur um náungann og menn uppnefndir og þar fram eftir götunum. En það var samkennd með fólki og allir lögðust á eitt að hjálpa ef erfiðleika bar að höndum eða byggja þurfi útihús eða íbúðarhús.

Þá voru þekktir svokallaðir steypudagar. Þá var sementssteypa til húsbygginga enn handhrærð eða notaðar litlar steypuvélar og svo var steypunni hellt í mótin og notaðar við það fötur. Þetta var mannaflsfrekt og því hjálpuðust menn að. Þarna tók enginn krónu fyrir steypudaga eftir þvi sem ég best veit. Endurgjaldið kæmi þegar þeir þyrftu á aðstoð að halda.

Menn fylgdu sínum stjórnmálaflokki fast og vinir og nágrannar gátu rifist um pólitík eins og grimmir hundar, en það hafði ekki áhrif á kunningsskap eða samvinnu.

Lifsafkoma flestra fólst í búskap, fiskveiðum og fiskvinnslu og fólk var tilbúið að vinna þau störf . Mörg þessara starfa eru unnin af innflytjendum í dag.

Ég held að tíminn frá stríðslokum og framundir 1970 hafi kannski verið sá tími sem minnstur stéttamunur var á Íslandi. Fólk var ekki lengur að þéra og beygja sig fyrir prestum og prelátum. Það var að vísu komin auðstétt í Reykjavík m.a. vegna stríðsgróðans, en út um land gætti þess minna. Það var vissulega borin virðing fyrir læknum og lögfræðingum og kennarar voru vel metnir en það var ekki lengur litið upp til þeirra eins og áður var.

Fólk var meira metið eftir dugnaði en ætterni og það eru nokkur dæmi um það að fátækir menn byggðu upp stórveldi t.d. í fiskveiðum og vinnslu og höfðu fyrir virðingu síns samfélags. Í slíkum fyrirtækjum varð til atvinna og þar með var lífsafkoma byggðarlaganna tryggð. Auðvitað hafði fólk misjafnt á milli handa eins og á öllum tímum en skilin voru ekki eins skörp og nú.

En þetta gamla samfélag var ekki mikið að huga að sálarástandi fólks né sýna þeim sérstakan skilning sem urðu fyrir andlegum áföllum. Það var lítill skilningur eða þekking á þeim málum. En daglegt áreiti var minna og lífið einfaldara á ýmsan hátt. Þá voru engir samfélagsmiðlar, sem geta verið jákvæðir og góð tenging á milli fólks, eru eru líka notaðir til neikvæðni og persónuárása milli manna, auk allskyns fréttafals.

Ég ætla alls ekki að segja að allt hafi verið betra í þá daga, því fer fjarri. Og þá eins og nú fór lífið ekki alltaf mjúkum höndum um fólk og mannfólkið var breyskt þá eins og á öllum tímum. En ég minnist minnar bernsku- og æskuára með gleði og er þakklát fyrir minningarnar frá þeim tíma.

Ritstjórn febrúar 6, 2024 14:00