Mörgum finnst eins og það sé skuldbundið til að viðhalda sömu jólahefðunum ár eftir ár, jafnvel þó það langi til að breyta til. Það þarf að elda sömu hátíðaréttina, nota sama matarstellið, fara í sömu boðin. „Við höfum öll ákveðnar væntingar til jólanna,“ segir sálfræðingurinn Michelle Baumgartner á vefsíðunni aarp.org. „Það er ákveðinn þrýstingur í fjölskyldum að hafa hátíðirnar alltaf með svipuðu sniði,“ segir hún. En tímarnir breytast, barnsfæðing eða dauði einhvers í fjölskyldunni getur kallað á breytingar eða stundum langar fólk einfaldlega að breyta til og borða ekki sömu steikina og sama desertinn ár eftir ár með sama fólkinu. Þegar við eldumst breytast líka hlutverk okkar í fjölskyldunni. Börnin stofna sínar eigin fjölskyldur og þegar við verðum enn eldri gera barnabörnin það sama. Þau yngri í fjölskyldunni langar þá oft að búa til eigin hefðir og það getur orsakað reiði og leiðindi þeirra sem eldri eru. Bara það að breyta til og hafa önd í staðinn fyrir hamborgarhrygg svo dæmi sé tekið getur eyðilagt gleði og ánægju einhverra með jólamáltíðina. Matur er stór hluti af því að halda jólin hátíðleg og sumir vilja borða sama matinn jól eftir jól. Jólin eru oft tilfinningaþrunginn tími og fólk er oft auðsærðara á þessum árstíma en öðrum, segir sálfræðingurinn Turner. Hann segir að ætli fólk að hætta ákveðnum jólahefðum eða breyta þeim ætti fólk að taka sér stund til að íhuga af hverju ákveðin hefð myndaðist. Var það einhver ákveðinn atburður í fjölskyldunni eða eitthvað annað. Ef þú getur búið til nýja siði sem minna að einhverju leyti á fyrri sið getur það breytt öllu. Þú getur til að mynda ákveðið að borða með fjölskyldu þinni á jóladag án þess að afi og amma, frændur og frænkur séu boðin. Þess í stað gætir þú boðið fólkinu þínu heim á einhverjum öðrum tíma. Það gæti orðið upphafið að nýjum jólasið í fjölskyldunni, segir Turner.
Þarfir og væntingar í fjölskyldum eru síbreytilegar. Við verðum að ræða við fólkið í kringum okkur ef við ætlum að breyta gamalgrónum hefðun og siðum jafnvel þó við vitum að slík samtöl geti tekið á. En það getur komið í veg fyrir átök síðar meir. Þú getur sagt ömmu þinni að þú komist ekki í messu á aðfangadagskvöld vegna þess að þig langi að vera með barnabörnunum. Í leiðinni getur þú spurt hvort þið getið ekki farið saman í messu seinna. Það sem skiptir mestu er að virða þarfir allra í fjölskyldunni svo engum finnist hann utangarðs og afskiptur. Í stað þess að hafna breytingum verið þá glöð yfir því að eiga fjölskyldu sem vill vera með ykkur um jólin.