Ættarmót tengja stórfjölskylduna

Margar fjölskyldur halda ættarmót í sumar, enda eru ættarmót orðin hefð í mörgum fjölskyldum og eru þau þá haldin reglulega, til dæmis á þriggja, fjögurra eða fimm ára fresti. Það er misjafnt hvar ættarmótin eru haldin og hversu margir mæta á þau, en svo virðist sem ættarmót séu um margt keimlík að uppbyggingu. Það er forvitnilegt að glugga í BA ritgerð Iðunnar Jónsdóttur í þjóðfræði við HÍ, um ættarmót, en titill hennar er svohljóðandi. „Maður fer í vinnupartý með vinnunni, bekkjarpartý með bekknum, af hverju ekki að halda partý með fjölskyldunni sinni“.

Viðhalda sambandi við heimahagana

Saga ættarmóta hér á landi er ekki löng, spannar að mestu síðustu 40-50 ár. Að mati Iðunnar, tengjast ættarmótin flutningi fólks úr sveitinni á mölina á fyrri hluta síðustu aldar. Þegar þangað var komið, höfðu menn þörf fyrir að viðhalda sambandi við heimahagana og fólkið sitt. Um tíma voru átthagafélög vinsæl, en þau lögðust að mestu af. „Í daglegu lífi hittist stórfjölskyldan sjaldan og erfitt er að halda sambandi við stóran hóp“, segir Iðunn í niðurstöðukafla ritgerðarinnar. Ættarmót eru vettvangur þar sem fólk úr sömu stórfjölskyldu hittist.

Sameiginlegur uppruni

Það er fróðlegt að grípa niður í rannsókn Iðunnar, sem fjallar um ýmsar hliðar ættarmótanna og tilganginn með þeim.  Einn viðmælandi hennar segir um hlutverk ættarmótanna og gildi þess að hitta frændfólk sitt:

Það er þessi uppruni, við eigum þetta sameiginlegt, sem maður á ekki endilega sameiginlegt með öðrum sem maður umgengst. Þarna ertu komin með stóran hóp af fólki sem á þetta sameiginlegt, þennan uppruna og einmitt svipaða reynslu og er kannski búið að upplifa sömu hlutina og vera á sömu stöðunum, þekkir sama fólkið og það er þetta sameiginlega.

Annar viðmælandi hennar segir:

Það var bara kominn tími til að við hittumst undir öðrum kringumstæðum, en við jarðarfarir. Þetta er svo skemmtilegt fólk. Maður verður einhvern veginn að fá að njóta þess að vera með þessu fólki og ég held ég megi segja að flestir hafi upplifað þetta sem eitthvað svona, skemmtilegt og gaman að taka þátt í.

Dagskrá og staðsetning

Ættarmót eru yfirleitt haldin um helgar að sumri til og inntakið er að hittast, minnast forfeðranna og fræða þáttakendur um þá. Það eiga flest ættarmót sameiginlegt og það er staðfest í ritgerð Iðunnar. Þar kemur fram að laugardagskvöldið er gjarnan aðalkvöld ættarmótsins og þá er sameiginlegur matur og dagskrá af ýmsu tagi. Auk þess gerir stórfjölskyldan ýmislegt skemmtilegt saman þessa daga. Ættarmót eru stundum haldin á jörð forfeðranna, en það getur orðið erfitt ef jörðin er ekki lengur í eigu skyldmenna. Þess vegna færist í vöxt að ættarmótin eru haldin á stöðum, þar sem auðvelt er fyrir fólkið í stórfjölskyldunni að hittast. Stundum nálægt höfuðborginni, ef flestir úr ættinni búa þar. Þess eru líka dæmi að ættarmót séu haldin á hóteli í Reykjavík.

Ættarmót einn af hornsteinum stórfjölskyldunnar

En grípum niður í lokaorð Iðunnar í ritgerðinni.

Jafnvel þótt ættarmót endurspegli þörf fólks til að rækta tengsl við fortíð, heimahaga og gengnar kynslóðir, þá virðast þau mestmegnis endurspegla þörf fólks til að tengjast hópnum sínum, stórfjölskyldunni, líkt og allir viðmælendur bentu á. Því mætti í raun telja ættarmót einn af hornsteinum stórfjölskyldunnar þar sem meðlimir rækta mikilvæg tengsl við hópinn sinn, því án tengsla er enginn hópur.

Þessi grein um ættarmót er úr safni Lifðu núna.

Ritstjórn ágúst 9, 2023 07:00