Að fá sína nánustu til að nota heyrnartæki

Þegar kemur að heyrninni virðist allt annað uppá teningnum, segir í þessari grein af systurvef Lifðu núna í Bandaríkjunum aarp.org

Um 80% fólks á aldrinum 55 – 75 ára, sem myndu hafa mikið gagn af að nota heyrnartæki, gerir það ekki. Þetta kemur fram í rannsókn sem birtist í tímaritinu International Journal og Audiology. Sumir eru hreinlega í afneitun og neita að trúa því að heyrn þeirra fari hrakandi, aðrir eru einfaldlega hégómagjarnir. Þeim finnst það aldursmerki að nota heyrnartæki.

Stundum er verð heyrnartækjanna líka fyrirstaða, eða það vefst fyrir fólki að það getur verið erfitt að stilla þau rétt. Það útheimtir margar heimsóknir til heyrnarsérfræðinga þannig að þau fari að virka eins og þau eiga að gera.

Hver sem ástæðan er fyrir því að eiginkonan, faðirinn, eða besti vinur þinn vilja ekki nota heyrnartæki, er nokkuð víst að lífsgæði þeirra yrðu mun meiri ef það væri hægt að koma þeim í skilning um að þau ættu að leita sér aðstoðar.

Finndu tíma þegar allt er í rólegheitum og eigðu við hann eða hana samtal. Vertu róleg/rólegur og ekki ögra viðkomandi. Reyndu að fá botn í hvers vegna hún/hann vill ekki leita sér aðstoðar. Það er gott að hefja umræðuna á þessum nótum. „Ég hef tekið eftir því að þú ert farinn að heyra illa. Hver heldurðu að sé ástæðan?“ eða „Viltu segja mér hvers vegna þú vilt ekki leita læknis vegna heyrnarinnar?“.

Hér eru fleiri ráð frá sérfræðingunum.

Legðu áherslu á kosti og staðreyndir. Sérfræðingar ráðleggja fólki að ræða þetta ekki á tilfinninganótum heldur benda á staðreyndir og rannsóknir. Það eru margir kostir við að nota heyrnartæki og rannsóknir sýna það. Meðal þeirra er minni hætta á vitrænum skerðingum og elliglöpum, betra hjónaband og það getur aukið tekjumöguleika fólks ef það heyrir betur.

Segðu frá því hversu flott það er að nota heyrnartæki. Heyrnartækin í dag eru langt frá þeim heyrnartækjum sem foreldrar okkar notuðu. Hér eru nokkur hátæknileg atriði sem nútíma heyrnartæki búa yfir.

  • Bluetooth tenging. Með því að nota hana þarf ekki að nota heyrnartól, heldur er hægt að fá tónlist, hljóðið úr snjallsímanum, fartölvunni eða sjónvarpinu beint í eyrað.
  • Notkun í ræktinni. Sum heyrnartæki geta mælt það sem þú ert að gera, virkni og fjölda skrefa sem þú tekur.
  • Persónulegur þýðandi. Með því að nota app, er hægt að fá þýðingu á erlendum tungumálum í heyrnartækið, næst þegar þú ferð í frí.
  • Það er til tækni sem gerir heyrnarsérfræðingnum kleift að stilla heyrnartækin þín án þess að þú þurfir að sækja þá heim.
  • Neyðarhnappur. Heyrnartæki með skynjurum geta greint það ef menn detta og sent eftir hjálp.

Lítil og nett. Stóru gömlu heyrnartækin sem voru notuð fyrir áratugum eru ekki lengur í notkun. Í stað þeirra hafa komið lítil, falleg og lítt áberandi tæki.

Reiknaðu dæmið til enda. Það er rétt að heyrnartæki eru ekki ódýr. Meðalverð er í kringum 240 þúsund krónur fyrir eitt tæki, og þá helmingi hærra fyrir þann sem þarf tvö tæki. Hægt er að sækja um styrk hjá Sjúkratryggingum hér á landi og er stykurinn kr. 50.000 á hvort eyra. Nútíma heyrnartæki endast í 5-8 ár.  Ef miðað er við notkun tækisins, má segja að þau séu ekki sérstaklega dýr.

Sýndu fram á áhrif á aðra. Heyrnrtap hefur ekki einvörðungu áhrif á þann sem býr við það. „Þetta hefur áhrif á alla fjölskylduna vegna þess að það eru allir að reyna að aðlaga sig ástandinu“, segir einn sérfræðinganna sem rætt var við í greininni. „Staðreyndin er sú að sumir hafa það ekki á hreinu að þeir séu með slæma heyrn. Ég var með sjúkling sem var alveg omeðvitaður um hversu mikill vandinn var, vegna þess að allir í kringum hana töluðu hátt, þannig að hún gat heyrt, eða þá að hún stillti hljóðið í Sjónvarpinu það hátt að hún gat vel heyrt það. Hún fann ekki fyrir heyrnarleysinu vegna þess að allir í kringum hana höfðu lagað sig að því. Ef þú átt ástvin í afneitun, væri hægt að hjálpa þeim að skilja vandann með því að fylgjast með og skrifa niður, hversu oft yfir daginn hann biður einhvern að endurtaka það sem hann sagði.

Taktu að þér hlutverk aðstoðarmanns.  Þú skalt bjóðast til að fara til heyrnarsérfræðings með ástvini þínum, bara til að tékka á heyrninni og athuga hvað læknirinn segir. Það er oft hlustað meira á sérfræðinga og þeir gætu fengið viðkomandi til að gra eitthvað í málunum. Það er líka hægt að fá lánuð heyrnartæki til prufu. Þannig er hægt að átta sig betur á stöðunni, áður en endanleg ákvörðun er tekin um að kaupa tækið.

Semdu.  Það er hægt að leggja fram tilboð um, að fari vinur þinn eða ástvinur til heyrnarsérfræðings, muni þú fara í ristilspeglunina sem þú hefur svo lengi trassað.

Frægir með heyrnartæki. Nefndu til sögunnar fólk eins og Whoopi Goldberg, Jodie Foster, Pete Townsend og Bill Clinton fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þetta er allt fólk sem notar heyrnartæki. Það er ekki slæmt að vera í þeim félagsskap.

En hvað ef ástvinur þinn sem er farinn að tapa heyrn, vill ekki gera neitt af þessu? Þá skaltu draga þig í hlé. „Þetta snýst á endanum um að fólk verður að vera tilbúið til þess sjálft að leita sér aðstoðar. Ef fólk er þvingað til að kaupa heyrnartæki, án þess að vera tilbúið til að nota það, endar tækið niður í skúffu og það vill náttúrulega ekki nokkur maður.

 

Ritstjórn mars 5, 2020 08:39