Að lifa af hjartaáfall einsamall

Um árabil hefur póstur farið um netið þar sem fólki sem fær hjartaáfall í einrúmi er ráðlagt að hósta. Þetta eru rangar upplýsingar og eiga ekki við nein rök að styðjast, segir í grein á vefnum Hjartalíf.is  í greininni segir að lykilatriðið sé að þekkja einkenni hjartaáfalls, kalla umsvifalaust á hjálp auk þess að taka magnýl eða sprengitöflu eins fljótt og mögulegt er.

Hver eru einkenni hjartaáfalls?

Viðvörunarmerki hjartaáfalls eru yfirleitt mild, mjög margir myndu skrifa þau  á aðrar heilsufarslegar ástæður en að hjartað sé að gefa sig. Fólk bíður að meðaltali í 3 klukkutíma  áður en leitað er aðstoðar vegna hjartaáfalls sem er allt of langur tími.

Dæmi um einkenni:

  • Þrýstingur eða herpingur í brjósti
  • Þreyta
  • Mæði
  • Sviti eða kaldur sviti
  • Kviðverkir
  • Brjóstsviðatilfinning
  • Svimi
  • Yfirliðstilfinning
  • Hjartastopp
  • Ógleði
  • Óreglulegur hjartsláttur
  • Óþægindi eða verkir í baki, hálsi eða kjálka

Það er mikilvægt að vita að hjartaáföll geta líka átt sér stað án þess að gera boð á undan sér og ef einkenna verður vart geta þau verið ólík hjá körlum og konum.


Hvað áttu að gera til að lifa af hjartaáfall þegar þú ert einn

„Hægt væri að koma í veg fyrir mörg dauðsföll með því að bregðast skjótt við og fá rétta meðferð strax,“ segir Dr. Robert Frankel sérfræðingur í kransæðavíkkunum við Maimondides Medical Center. Það er algengt að fólk finni fyrir þyngslum fyrir brjósti og verkurinn getur leitt út í vinstri handlegg eða upp í háls.“

Marmiðið á að vera að vera kominn undir læknishendur þar sem hægt er að opna æðina sem stíflast innan 90 mínútna.  Fólk ætti að hringja strax á sjúkrabíl í stað þess að aka sjálft.

Þegar búið er að hringja á sjúkrabíl –jafnvel áður en að því kemur- og beðið er eftir aðstoð, ætti fólk að taka 162-325 mg af aspiríni eða magnýl.

Með því að taka strax inn magnýl er komið í veg fyrir að blóðflögurnar loði saman og þar með er búið að fyrirbyggja að blóðtappinn stækki og versni og valdi með því jafnvel enn meiri skaða.

Núverandi leiðbeiningar benda til þess að einstaklingur hafi bestan möguleika á því að lifa af hjartaáfall þegar viðkomandi er einsamall, með því að tyggja magnýlið (aspirínið) áður en lyfinu er kyngt í stað þess að taka og kyngja heilli töflu. Rannsóknir benda til að magnýltafla sem er tuggin, sé 5 mínútum síðar búin að draga úr viðloðun blóðflagna um 50% og 14 mínútum síðar búin að ná hámarksvirkni.

Ef taflan er gleypt í heilu lagi, virkar hún líka en það tekur hana 12 mínútur að ná 50% virkni og 26 mínútur að ná hámarks virkni.

Ef þú ert einn eða ein og átt sögu um hjartasjúkdóm, áttu kannski nú þegar annað áríðandi lyf til að hafa við höndina. Þetta er nitroglyserin eða eins og þær eru oft kallaðar, sprengitöflur.  Ef grunur leikur á því að þú sért að fá hjartaáfall taktu þær strax eins og leiðbeiningar segja til um. Aldrei skal neyta sprengjutaflna frá öðrum þar sem slíkt getur skapað alvarleg vandræði.

Lykilatriðið er að þekkja einkennin, kalla umsvifalaust á hjálp auk þess að taka magnýl  eða sprengitöflu eins fljótt og mögulegt er.

Hér er hægt að lesa greinina á vefnum Hjartalíf.is í heild.

Ritstjórn mars 17, 2016 10:42