Að vinna hug og hjarta tengdadótturinnar

Höfundur þessarar þýddu greinar, sálfræðingurinn Terry Apter, gerir ráð fyrir hefðbundnu fjölskyldumynstri sem samanstendur af foreldrum með gagnkynhneigð börn og miðar ráðleggingar út frá því. Hér ræðir hún um samband tengdamæðgna en hún hefur skrifað fjölda bóka um fjölskyldusambönd. Gefum henni orðið um samband tengdadætra og tengdamæðra:

Þrátt fyrir að tengdamóðirin sé alltaf kurteis, bjóðist til að aðstoða í tíma og ótíma og gleymi aldrei að kaupa gjafir á tyllidögum mætir hún stundum óvild frá konunni sem giftist heittelskuðum syni hennar. Þetta er líklega engin ímyndun því oft reynist samband tengdamóður og tengdadóttur flókið og þrungið spennu. Terry Apter, segir að bandarískar rannsóknir hafi sýnt að 60% kvenna vitni um að samband við tengdamóður sé þvingað og pirrandi á meðan aðeins 15% tengdasona lýsi yfir því sama. Rannsakendur hafa bent á að það séu líffræðileg öfl þarna að baki, þar sem konur leitist sífellt við að vernda fjölskyldueininguna. Það gerir að verkum að tengdamóðirin er í sífelldri keppni um hver hefur mest áhrif á son hennar sem nú er eiginmaður annarrar konu, segir Apter. (Við hjá Lifðu núna efumst raunar um að þetta sé jafn útbreitt vandamál hér á landi og það virðist vera í Bandaríkjunum).

En það er önnur hlið á málinu, segir Apter. Hefðin er sú að konur sjái  að mestu um stundaskrá fjölskyldumeðlimanna, sérstaklega barna sinna. Þær konur sem hafa haft frumkvæði og stjórnað þegar kemur að fjölskylduviðburðum ættu að undirbúa sig undir nýtt stjórnarfyrirkomulag. Vandamálið byrjar þegar slíkt fyrirkomulag er látið hefjast með árekstrum. Þá getur verið erfitt að leiðrétta kúrsinn. Eftirfarandi heilræði gætu hjálpað að hennar sögn, og þau eru líka í góðu gildi fyrir þá sem vilja bæta samskiptin við uppkomin börn og tengdabörn:

  1. Hættu að leiðbeina

Allt frá vali á brúðarkjól til brjóstagjafar gætu verið atriði sem þú hefur farið í gegnum á lífsleiðinni. Tengdadóttir þín hefur samt að öllum líkindum ekki áhuga á að heyra þína sögu. Hún gæti verið að gera mistök sem þú vilt leiðbeina henni með en það eru hennar mistök sem hún þarf að læra af. En hvað ef hún biður um ráð? Þá skaltu stíga varlega til jarðar og segja til dæmis: “Ég myndi gera svona en þú gætir vitað um betri leið.” Haltu svo áfram að sýna hennar hugmyndum og skoðunum áhuga.

  1. Slepptu gömlum minningum

Þegar ný manneskja, eins og unnusta sonar, kemur í fjölskylduna á hátíðum verður hún vitni að því að sagðar eru sögur sem hún þekkir ekki. Það  lætur henni finnast hún vera utanveltu. Gættu þess því að tala ekki mikið um fortíðina nema tengdadóttir þín spyrji. Síðan skaltu spyrja hana um hennar eigin fjölskyldu. Ein undantekning er þó á þeirri reglu sem er að tengdadótturinni mun mjög líklega þykja gaman að heyra sögur af syni þínum frá því hann var barn og skoða af honum myndir.  Gættu þess svo að spyrja hana um hefðir og uppskriftir úr hennar eigin fortíð og felldu þær inn í fjölskyldusamkomur.

  1. Fylgdu hennar reglum um uppeldi

Sumar hugmyndir sonar þíns og tengdadóttur um foreldrahlutverkið gætu komið þér fyrir sjónir sem hálfskrítnar. En hvað með það? Hver einasta kynslóð hefur sína siði og venjur þegar kemur að barnauppeldi og þegar allt kemur til alls mun það ekki skipta barnabörnin öllu máli. Farðu eftir þeirra reglum ef þú vilt vera með. Og ef þú ert óörugg með reglurnar skaltu spyrja. Tengdadóttir þín mun verða ánægð með að þú sýnir henni þá virðingu að spyrja.

  1. Berðu virðingu fyrir sambandi þeirra

Ef þú og tengdadóttir þín eru í vanda með samband ykkar gætir þú freistast til að biðja son þinn að skerast í leikinn. Ekki gera það! Í fyrsta lagi er ekki sanngjarnt að biðja hann að miðla málum á milli tveggja manneskja sem honum þykir vænt um. Í öðru lagi er mun líklegra að hann taki afstöðu með maka sínum. Þó ekki væri nema bara til að halda friðinn heima. Og að lokum skaltu reyna af fremsta megni að koma í veg fyrir að sonur þinn lendi í andstöðu við makann því það mun koma í bakið á þér. Ef tengdadóttirin finnur út að þú fórst á bak við hana, sem hún mun gera, verður hún ergileg og þá verður erfiðara að jafna málin.

  1. Vertu  hreinskilin

Ef þú hefur á tilfinningunni að eitthvað sé undirliggjandi skaltu ekki draga að spyrjast fyrir og fá allt upp á borð og ekki leika píslarvott. Þegar öllu er á botninn hvolft ertu að byggja upp samband sem mun vonandi vara í áratugi. Spyrðu rólega: “Þú virðist vera ósátt. Eigum við að tala um hvernig við getum lagað samskiptin? Mér þykir vænt um þig og vil umfram allt vera í góðu sambandi við þig í framtíðinni.” Hlustaðu hvað hún hefur að segja. Stundum er bara nóg að hlusta.

 

Ritstjórn apríl 24, 2019 09:43