Einar á Einarsstöðum fyllti mig von og sjúkdómurinn stoppaði mig aldrei eftir það

Guðmundur Kolbeinn Björnsson, eða Kolli eins og flestir kalla hann, er fæddur 1959 og er því orðinn 63 ára gamall. Kolli er skírður í höfuðið á afa sínum sem var alltaf kallaður stóri Kolli og Guðmundur Kolbeinn litli Kolli. Kollanafnið festist því við Kolbein og hann er hæstánægður með það.

Kolbeinn og Guðlaug í garðinum heima.

Kolbein var aðeins 24 ára gamall þegar hann fékk dóminn um að einkenni, sem hann fann fyrir, stöfuðu líklega af því að hann væri kominn með MS sjúkdóminn. Hann vissi nú lítið um þann sjúkdóm annað en að hann ætti á hættu að verða hreyfihamlaður ef illa færi. Eftir langt símtal við lækna í Reykjavík sagði læknirinn í Stykkishólmi: ,,Þetta er svo sem allt í lagi á meðan þú getur staðið á tánum en ef þú getur það ekki getur þú  búist við að hætta að anda“. ,,Ég stóð á tánum alla þá helgi,“ segir Kolbeinn.

Hann hafði þá eignast tvö börn með eininkonu sinni, Guðlaugu Ágústsdóttur, en þau  höfðu hist í Hollywood við Ármúla þegar Kolli var í vélstjóranámi í Reykjavík 1979. Þar sem tvö af þremur börnum voru þegar fædd þegar þarna var komið sögu var útlitið ekki bjart þegar læknirinn í Stykkishólmi sagði honum eftir skoðun að eftir honum biði pláss á Landspítalanum og hann skyldi taka flugvélina suður þann dag.

Er Kolli kominn á geðdeildina?

Kolbeinn var þá sendur á taugadeild Landspítalans sem, vegna húsnæðisskorts, var staðsett í sama húsnæði og geðdeildin. Þá flaug

Kolbeinn í vélarrúmi ferjunnar Baldurs 2009.

fiskisagan um að Kolli hefði sést á geðdeildinni. Það var nú fjarri lagi að Kolli væri á geðdeild því hann hélt andlegri heilsu mjög vel þótt erfitt hefði verið að sætta sig við dóminn. Einkennin, sem komu fyrst fram, voru doði í fótum sem fljótlega færðu sig upp upp eftir líkamanum. Sjón á vinstra auga skertist, máttur í vinstri fótlegg og hægri hendi.

Þessi einkenni gengu til baka að nokkru leyti en Kolli var alltaf að bíða eftir lækningu sem lét á sér standa. Þegar hann var búinn að vera í fjóra mánuði á spítalanum var hann orðinn óþreyjufullur að halda áfram að lifa með sínu fólki þrátt fyrir skerðinguna sem þegar var orðin. ,,Þeir voru auðvitað að gera á mér alls konar rannsóknir og prufur sem ekkert kom út úr annað en þeir fundu skemmd ofarlega í mænunni sem var orsökin. Mér leið ekki vel að horfa upp á sjúklingana sem lágu á deildinni því þarna voru auðvitað verstu tilfellin. Þar sem mér þótti lítið vera að gerast hjá mér vildi ég nýta far hjá föður mínum sem hafði komið í bæinn en hann var að flytja jarðbor á flutningabíl til Reykjavíkur. Systir mín hafði boðið okkur feðgum í mat og ég segi við pabba: ,,Ætli ég ætti ekki bara að koma mér þér norður,” en foreldrar hans bjuggu í Reykjadal. Pabbi segir þá ,,jú jú, komdu bara með mér. Ég tilkynnti þeim á spítalanum þessa ákvörðun mína og fékk samþykki læknanna fyrir því að fara. Við lögðum af stað morguninn eftir og þegar við vorum komnir upp að Korpúlfsstöðum ók pabbi bílnum út í kant og sagði: ,,Jæja, takt þú nú við”. Og ég ók bílnum langleiðina norður.“

Einar á Einarsstöðum vill hitta þig

,,Við komum heim um miðja nótt og þegar ég vaknaði um morguninn segir mamma við mig: ,,Einar á Einarsstöðum vill hitta þig strax” en

Kolbeinn 25 ára í lögreglustarfi í Stykkishólmi.

hann var miðill og bjó í sömu sveit og þau. Ég fór til Einars og sat með honum í tvo klukkutíma. Þá segir hann við mig: ,,Þú verður aldrei góður Kolli minn en þú verðu betri en þú ert núna. Leggðu þig eftir hádegið og hugsaðu til mín. Ég gerði eins og hann sagði og ég get svarið það að ég vaknaði nýr maður. Líðanin var miklu betri þótt einkenni sjúkdómsins væru enn til staðar. Þarna fékk ég von sem dugði mér til að halda áfram því eðlilega sóttu þungar hugsanir á mig þarna 25 ára gamlan, tveggja barna föður. Af því ég trúði Einari fékk ég vissu um að lífið væri ekki búið og ég gæti haldið áfram með mínu fólki og hér er ég enn,” segir Kolbeinn og brosir breitt. Einar var lækningamiðlill og hvort sem eitthvað er til í sögum um handanheima eða ekki þá gaf Einar Kolbeini trúna sem hann þurfti til að geta haldið áfram sem hann gerði sannarlega.

Lífið heldur áfram

Þegar Kolbeinn kom svo heim til Stykkishólms eftir fundinn með Einari á Einarsstöðum hringdi læknirinn á staðnum í hann og sagði

honum að það vantaði  sjúkraflutning ofan úr Helgafellssveit. ,,Ég sagði honum að ég vissi nú ekki hvað ég ætti að gera í því vegna þess að væri nú bara að koma heim af spítalanum eftir fjóra mánuði. Þá segir læknirinn: ,,Já, líttu á Kolbeinn, lífið heldur áfram og þú þarft að taka þátt í því.” Svo ég þurfti bara að sjá um þennan flutning og taka þannig þátt í lífinu áfram. Og síðan eru liðin 40 ár,” segir Kolbeinn ánægður. Eftir þetta var Kolbeinn með sjúkraflutning eina viku í mánuði næstu 20 árin ásamt því að gera jarðýturnar út, m.a. hjá Vegagerðinni og í verkefni út um allt Snæfellsnes.

Hittust á balli í Hollywood

1979 fór Kolbeinn í Vélskólann í Reykjavík og þá var Hollywood aðal ballstaðurinn. Þar hittust þau Guðlaug og eitt leiddi af öðru. Til urðu

Kolbeinn og Guðlaug á Akureyri nýlega í skemmtiferð kirkjukórsins í Stykkishólmi.

fljótlega tvö börn  fædd 1980 og 81 og svo það þriðja 1990 og nú eiga þau 7 barnabörn.

Þegar Kolbeinn veiktist þurfti hann að hætta náminu í Vélskólanum en ákvað að ef hann kæmist út úr þessum erfiðleikum sem steðjuðu að honum og hann lifði þetta af myndi hann leita  allra ráða til að gera eitthvað allt annað en hann hefði verið að gera fram að til þessa í lífinu. Einn daginn, fjórum árum síðar, kom hann svo auga á auglýsingu þar sem verið var að auglýsa þrjár jarðýtur og verkstæðishús í Stykkishólmi til sölu og hann ákvað að kaupa pakkann. Þarna var hann orðinn 28 ára, þau Guðlaug búin að kaupa húsið sem þau búa enn í, og nú sá hann tækifæri í því að gera út jarðýtur. Þar sem hann var að læra vélvirkjun þegar hann veiktist og hafði ungur farið að aðstoða föður sinn á jarðýtum fannst honum þetta liggja beint við.

Mikil fjárfesting kallaði á mörg störf

Kolbeinn í gröfu sinni við vinnu við Stóragarð í Flatey á Breiðafirði.

Þar sem Kolbeinn fjárfesti á stuttum tíma bæði í húsnæði og fyrirtæki þurfti hann eðlilega að vinna mikið. Hann lét það samt ekki aftra sér frá því að taka þátt í öðru sem honum var treyst til.

Hann var til dæmis í stjórnstöð Björgunarsveitarinnar Berserkir og tók þátt í og skipulagði leitir og nefnir til dæmis Haförn sh árið 1983 og  flugslysið í Ljósufjöllum 1986 þegar vél flugfélagsins Ernis brotlenti í Ljósufjöllum á Snæfellsnes en þangað sést vel úr Stykkishólmi. Slysið var hörmulegt og leiddi af sér breytingar á reglugerðum og vinnubrögðum við leit og björgun.

Sjúkdómurinn stoppaði Kolbein aldrei í neinu

Kolbeinn í fulltrúaráði Slysavarnafélags Íslands.

Kolbeinn segir að sjúkdómurinn hafi eðlilega háð sér nokkuð en aldrei stoppað sig í neinu. Hann var í fulltrúaráði Slysavarnafélagsins

gamla og lenti þess vegna í fyrstu stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar eftir að félögin sameinuðust.  Önnur störf sem hann sinnti voru afleysingar í lögreglu og héraðslögregluþjónn, dælumaður í Slökkviliði Stykkishólms og félagi, formaður og gjaldkeri í Leikfélaginu Grímnir.

Kláraði námið í Vélskólanum

Þegar Kolbeinn hætti árið 2000 í ,,vinnuvélabrasinu” eins og hann orðar það, fór hann í Vélskólann til að klára námið sem hann hafði ekki

Útskrift 2005, Kolbeinn úr Vélskólanum í Reykjavík, sonur hans úr sama fagi frá Akureyri og dóttirin stúdent frá Borgarholtsskóla í Reykjavík.

náð að klára á sínum tíma og lauk því 2005. ,,Einn kennaranna vildi hjálpa mér því ég átti orðið erfitt með að skrifa. Til þess þurfti ég að fara til taugalæknis og fá vottorð og sá læknir sagði mér að kannski ætti ég að hætta þessu brasi og fara bara á örorkubætur sem ég ætti rétt á. Ég vildi það alls ekki og með hjálp kláraði ég prófin og vann í mörg ár eftir það sem vélstjóri á Breiðafjarðarferjunni Baldri eða til 2015. Samstarfsmenn mínir á bátnum komu mér til hjálpar ef með þurfti  svo þetta gekk alltaf vel og var alltaf skemmtilegt.

Kominn í pólitík

Í miðju viðtalinu bankaði kona á dyrnar sem var komin til að óska Kolbeini til hamingju með afmæli hans sem var daginn áður. Hún vildi ekki stoppa þegar hún heyrði að Kolbeinn væri í viðtali en hann notaði tækifærið og fékk hana til að skrifa undir sem meðmælandi því hann var beðinn um að gefa kost á sér á lista H-listans, sem er listi framfarasinnaðra í Stykkishólmi. Hann segist nefnilega reyna að segja aldrei nei þegar hann er beðinn um greiða svo nú var leitað til hans aftur en hann hefur áður tekið að sér pólitísk störf. Hann segist hafa gaman af þessu stjórnmálavafstri, það haldi honum upplýstum og það sé alltaf gaman að vinna með hugsjónafólki.

Kolbeinn og Guðlaug með börnum sínum þremur. Mynd tekin í Barcelona í brúðkaupi eldri sonar þeirra.

,,Það er samfélagsleg skylda mín að taka þátt ef til mín er leitað,” segir Kolbein og brosir. Hann er í Lions og Frímúrarareglunni og er búinn að syngja í kirkjukórnum í Stykkishólmi frá 1986 sem hann segir að sé óhemju gaman.

En nú er Kolbeinn hættur daglegri vinnu en er alls ekki hættur að lifa lífinu lifandi þrátt fyrir að sjúkdómurinn hafi nú tekið sinn toll. ,,Það er bara svo margt sem ég get gert og af hverju ætti ég þá að einblína á það sem ég get ekki gert?” spyr þessi kraftmikil maður sem hefur lifað með sjúkdómi sínum mestalla ævina en aldrei látið bugast.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Viðtal af vef Lifðu núna.

Ritstjórn janúar 31, 2023 11:15