Æðislegir bláberjabitar

Það er fátt jafn skemmtilegt og að fara til berja og nú er sá dásemdartími að renna upp. Berin er hægt að nota á ótal vegu en hér er uppskrift að bláberjabitum sem sagðir eru sérlega góðir. Ef að fólk nennir ekki eða kemst ekki til berja þá er hægt að nota frosin ber. Uppskriftin er af vefnum Elhúsperlur Helenu og slóðin inn á vefin er hér. 

  • 3 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 225 gr kalt smjör skorið í bita
  • 1 egg
  • 1/4 tsk salt
  • Fínrifinn börkur og safi úr einni sítrónu
  • 4 bollar bláber (má nota frosin ber)
  • 1/4 bolli sykur (meira ef berin eru mjög súr)
  • 3 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl

Hitið ofn í 160 gráður með blæstri annars 180. Smyrjið form. Skúffukökuform passar t.d. vel fyrir þessa uppskrift.

Hrærið saman 1 bolla af sykri, 3 bollum af hveiti, lyftidufti, salti og sítrónuberki. Blandið köldu smjörinu og egginu saman við þar til blandan líkist blautum sandi. Hellið helmingnum af deiginu í formið og þrýstið niður með fingrunum.

Blandið þá saman berjunum,sykrinum, sterkjunni og sítrónusafanum. Hellið berjablöndunni yfir botninn.

Myljið restina af deiginu yfir berin. Bakið í  um 40-45 mínútur eða þar til bakað í gegn og gullinbrúnt (tekur aðeins lengri tíma eða um 50 mínútur ef notuð eru frosin bláber).

Kælið alveg og skerið svo í litla bita.

Ritstjórn ágúst 24, 2018 10:44