Tengdar greinar

Ætlarðu að draga þetta endalaust?

Þegar Ari Jóhannesson læknir og rithöfundur, lauk sérfræðinámi sínu i Connecticut í Bandaríkjunum flutti hann beint til Akraness og tók við stöðu yfirlæknis á spítalanum þar. Ari sem er sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum, flutti sig seinna um set og hóf störf á Landsspítalanum, en hélt áfram að búa á Akranesi, enda eiginkona hans Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir innfæddur Akurnesingur og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Engir umferðarhnútar á Akranesi

Það þarf ekki að hafa áhyggjur af umferðinni á Akranesi

„Það er náttúrulega mjög hentugt með alla þjónustu sem þarf að sækja hér og Akranes er tiltölulega samheldið og framsækið bæjarfélag. Svo eru aldrei umferðarhnútar á Akranesi, það er mikill kostur!!“, segir Ari sem er sestur niður með blaðamanni Lifðu núna til að segja honum frá nýútkominni bók sinni, Urðarmána. Ari er sonur Jóhannesar Arasonar sem var áratugum saman þulur í Ríkisútvarpinu og konu hans Elísabetar Einarsdóttur. Hann er einn þriggja systkina og ólst upp ofarlega á Þórsgötunni. „Á æskuárum mínum var bara kór Hallgrímskirkju risinn og þar fermdist ég“, rifjar hann upp.

Viðbrigði að koma í hitasvækjuna vestra

Ari gekk menntaveginn, var í Miðbæjarskóla, Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti og síðan í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar kviknaði bókmenntaáhugi hans, en ekki fór hann þó að fást við skriftir eins og ýmsir jafnaldrar hans.  Hann las líka ljóðin sem faðir hans hafði safnað og bundið inn sjálfur. Það voru aðallega nítjándu aldar skáldin svokölluðu, en sá yngsti í hópnum var Steinn Steinarr.  Úr MR lá leiðin í læknisfræði í  Háskóla Íslands og síðar fór Ari í sérnám í Connecticut í Bandaríkjunum. Honum brá við að koma í hitsvækjuna vestra í júlíbyrjun 1976, en þá var verið að halda uppá 200 ára afmæli Bandaríkjanna.

Rökræður gegndu stóru hlutverki í náminu

Ari hrósar kennslukúltúrnum sem hann kynntist í Connecticut og segist hafa kynnst þar frábærum „kollegum“ sérstaklega í eldri kynslóð lækna og reynt að læra af þeim allt sem hann gat. „Þetta var ekki endilega ítroðsla, heldur gengdu rökræður stóru hlutverki í kennslunni. Eftir því sem á leið hafði maður meira að segja og það var tekið tillit til þess“, segir hann. „Ég hefði ekki viljað taka sérnámið neins staðar annars staðar“, bætir hann við.  Það voru jafn mikil viðbrigði að koma aftur heim, frá Connecticut á Skagann, en þá segist hann hafa vitað að hverju hann gekk.

Bandarískur læknir sem orti út frá starfinu

Ari segist hafa byrjað að skrifa fljótlega uppúr aldamótunum, en hugmyndin hafði blundað með honum frá því hann var í menntaskóla. „Ég var eldri en flestir sem byrja að skrifa og það var ekkert eitt sem olli því að ég hóf skriftir. Ég hugsaði bara einn daginn. Þú ert orðinn 57 ára gamall, ætlar þú að draga þetta endalaust, þannig að það verði ekkert úr því?“. Síðan fór hann að fást við ljóðagerð. „Ég tók snemma þá ákvörðun að yrkja útfrá mínu starfi, ásamt öðru. Ég hafði það í huga að þekkt bandarískt skáld, William Carlos Williams, var alla tíð starfandi læknir í New Jersey. Hann orti útfrá sínu starfi og er núna talinn eitt fremsta ljóðskáld Bandaríkjanna“, segir Ari.

Spurning hvenær næsti heimsfaraldur skellur á

Forsíða bókarinnar sem er fáanleg sem kilja og einnig sem rafbók

Árið 2007 hlaut Ari Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og í kjölfarið kom út fyrsta bókin eftir hann, ljóðabókin Öskudagar. Hann segir að um þriðjungur ljóðanna hafi verið „læknis“ ljóð ort útfrá starfinu, en hin hafi komið úr ýmsum áttum.  Skáldsagan Lífsmörk kom út árið 2014 og það má segja að yrkisefni sögunnar sé beinlínis fengið úr læknisstarfi Ara, enda gerist sagan á sjúkrahúsi og fjallar meðal annars um siðferðilegar spurningar sem tengjast læknisstarfinu. Hann segir að nýja bókin Urðarmáni tengist ekki starfi sínu á sama hátt, enda gerist hún í spánsku veikinni fyrir 100 árum. Þetta er því söguleg skáldsaga. „Hún fjallar um sjúkdóm en ég tylli bæði framan og aftan við köflum úr náinni framtíð eða árið 2020. Það er til að minna okkur á að það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær næsti heimsfaraldur lífshættulegrar innflúensu skellur ár“, segir Ari.

Rúmlega 260 dóu á þremur vikum

Það var stökkbreytt innflúensuveira sem olli spánsku veikinni. „Hún varð mjög skæð, fólk hafði ekki varnir gegn henni og það gerði hana svona hræðilega í Reykjavík. Það var líka svo náinn samgangur meðal fólks. Menn höfðu flutt úr sveitunum og bjuggu þétt saman í bænum. Útbreiðsla veikinnar var því mjög hröð. Og það var unga fólkið sem dó, ekki gamla fólkið. Um þriðjungur ungra ófrískra kvenna sem veiktist lést til dæmis. Í Reykjavík dóu 264, langflestir á 3ja vikna tímabili, en þá  bjuggu 15.000 manns í bænum.

Lokaði veginum til að hindra útbreiðslu veikinnar

Ari segir að spánska veikin sé allt um kring og nánast á hverri blaðsíðu í bókinni. „Það er brugðið upp sviðsmyndum og klippum úr blöðum þannig að lesandinn fái tilfinningu fyrir stað og tíma. Sögupersónur eru all margar en Jón Rósenkranz læknir gegnir hlutverki sögumanns í Urðarmána. Hann var í raun og veru læknir í Reykjavík og tveir aðrir nafngreindir læknar koma einnig við sögu í verkinu. Þórður Thoroddsen sem var elsti læknir bæjarsins og sinnti fleiri sjúklingum en nokkur annar og Þórður Sveinsson yfirlæknir á Kleppi sem var sóttur til að gegna stöðu yfirlæknis á bráðabirgðasjúkrahúsinu sem var stofnað í Miðbæjarbarnaskólanum. Gísli Sveinsson sýslumaður í Vík í Mýrdal er einnig meðal sögupersóna, en hann ákvað að verja sína sýslu og loka fyrir umferð austur, við Jökulsá á Sólheimasandi.  Það varð til þess að veikin barst ekki austur og raunar ekki heldur norður yfir Holtavörðuheiði vegna sambærilegra aðgerða“.

Afdrifaríkt uppgjör landlæknis og Kötlu

Börn og hjúkrunarfólk í spönsku veikinni. Myndin líklega tekin í MIðbæjarskólanum

Aðalpersónur bókarinnar eru tvær. Annars vegar Arngrímur Sigurðsson landlæknir Íslendinga og hins vegar kona að nafni Ketilríður Jónsdóttir, kölluð Katla. Hún er ung kona með fortíð og hefur lært fæðingarhjálp. Hún er langömmubarn Vatnsenda-Rósu og kann reyndar ýmislegt fleira fyrir sér. Ari segir þetta skáldaðar persónur, en Arngrímur landlæknir eigi sér þó fyrirmynd að töluverðu leyti í Guðmundi Björnssyni sem var landlæknir þegar spánska veikin geisaði. „Hann var atorkumikill og fjölgáfaður maður, en hafði ákveðnar brotalamir. Það þótti undrun sæta að þessi málafylgjumaður skyldi ekki hafa frumkvæði að vörnum gegn innflúensunni“, segir Ari. En leiðir Kötlu og landlæknis liggja reglulega saman í bókinni og það skapar spennu sem leiðir til afdrifaríks uppgjörs.

Stéttarmunur, misskipting og fíknir

Ari segir að í bókinni sé fjallað um efni sem tali beint inní samtímann, burtséð frá fyrsta kaflanum og þeim síðasta. „Það er fjallað um stéttamun, misskiptingu veraldlegra gæða, átök alþýðulækninga og hefðbundinna lækninga, fíknsjúkdóma, þeir voru til fyrir 100 árum eins og nú, viðbrögð við drepsóttum og um hetjuna sem fellur af stalli og verður skúrkur“, segir hann. Um 50 milljónir manna í heiminum dóu úr spánsku veikinni, en tæplega 500 Íslendingar, þar af 264 í Reykjavík eins og áður sagði. Ari segir að þeir sem til þekkja telji það einungis tímaspursmál, hvenær næsta drepsótt komi upp í heiminum „ Þessi veira er landlæg í fuglum, ekki síst í Asíu. Menn horfa til Kína í þessu sambandi. Veiran hefur þann eiginleika að geta stökkbreyst. Geri hún það gæti hún farið að smita fólk og þá er faraldur óhjákvæmilegur. Það tekur töluverðan tíma að þróa bóluefni. Á meðan gæti veikin breiðst út og hún gæti verið fljót að fara víða, eins og samgöngum er háttað í heiminum í dag“, segir Ari að lokum.

 

 

Ritstjórn júní 21, 2019 08:19