
Ellert Grétarsson ljósmyndari skrifar.
Fyrir mörgum árum, þegar ég stundaði hellamennsku af miklu kappi, villtist ég eitt sinn niðrí hraunrásarhelli í flóknu völundarhúsi ótal ganga og afkima. Þar ráfaði ég um í myrkrinu í óratíma, örvæntingafullur að finna ekki leiðina út og kvíðafullur ef höfuðljósið myndi að lokum slökkna þegar rafhlöðurnar tæmdust og ég væri umlukinn kolsvörtu myrkri sem er svo þykkt undir yfirborði jarðar að nánast er hægt að skera það með sveðju.
Þetta var mikil þolraun því þessi endalausu göng voru víðast hvar mjög þröng og lág til lofts þannig að ég þurfti að skríða á fjórum fótum eftir oddhvössu hrauninu. Loksins, eftir heila eilífð, fann ég rétt göng þegar ég sá grilla í ljósið við enda þeirra. Ég skreið út í dásamlegt dagsljósið, algjörlega örmagna og kófsveittur svo ekki var þurr þráður á mér. Mikið lifandi ósköp var ég feginn. Ég var hólpinn.
Mér hefur stundum fundist þessi reynsla vera eitthvað svo táknræn og lýsandi fyrir ástarlíf mitt í gegnum árin. Þegar maður álpast inn í eitthvað sem maður kann ekki skil á og ræður ekki við, algjörlega áttavilltur. Að vita ekki hvort maður er að koma eða fara. Þetta var ónotaleg reynsla en samt fór maður í hellaferðir áfram. Sömuleiðis í ástarlífinu. Maður sýndi bara meiri varkárni. Það er aldrei of varlega farið, betra að læra af reynslunni og vera ekkert að koma sér í vandræði.
Ég var að lesa ágæta bók sem ber heitið „Sterkari í seinni hálfleik” eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Virkilega fróðleg bók og vel skrifuð, en hún fjallar um lífið eftir miðjan aldur frá ýmsum hliðum. Meðal annars er komið inn á ástarlífið á þessu æviskeiði, kynlífið og kynhvötina. Vissuð þið t.d. að karlar fara líka á breytingaskeið eins og konur? Það liggur að sjálfsögðu í hlutarins eðli að það er allt öðruvísi hjá körlum en konum, án þess að ég ætli að fara nánar út í það hér. Ég mæli hins vegar eindregið með bókinni.
Í henni kemur m.a. fram að helmingur karla 50 ára og eldri upplifir risvandamál. Já, þið lásuð það rétt – helmingur – fimmtíu prósent, hvorki meira né minna. Einhvern veginn finnst mér eins og það sé afar lítið talað um þetta miðað við hversu algengt vandamálið er. Kannski er þetta feimnismál, egó karlmennskunnar getur stundum vera brothættara en antík postulínsvasinn hennar ömmu.
Ég var reyndar búinn að heyra þetta fyrir nokkrum árum hjá hjartalækninum mínum. Hann ákvað að setja mig á blóðþrýstingslyf eftir að í ljós kom að genatískur háþrýstingur úr föðurættinni var farinn að gera vart við sig. Þessi ágæti hjartalæknir varaði mig við því að algengur fylgifiskur þessara lyfja væri einmitt áðurnefnt risvandamál. „Hafðu engar áhyggjur af þessu, þú kemur þá bara og talar við mig og við finnum út úr þessu,” sagði hann hughreystandi.
Einmitt um svipað leyti hafði ég álpast í eina „hellaferðina” í kvennamálum og þá kom þetta á daginn. Ég fór frekar hnípinn til hjartalæknisins og skýrði honum skilmerkilega frá raunum mínum og búksorgum.
„Ekkert mál, Ellert minn. Ég skrifa þá bara upp á Viagra fyrir þig,” sagði hann með föðurlegri umhyggju í röddinni.
„Ha? Bíddu….má ég taka það? Ég meina – upp á blóðþrýstinginn og svona,” spurði ég undrandi.
„Jájá, og bara nógu andskoti mikið af því”,svaraði hann glottandi um leið og hann tiplaði fingurgómunum á lyklaborðið við gerð lyfseðilsins.
Þar með var það vandamál leyst og það með slíkum undrum og stórmerkjum ég var nánast með’ann reiddan um öxl heila helgi upp í sumarbústað. Ég hef reyndar ósköp lítið þurft á þessu að halda síðustu misserin, eiginlega ekki neitt þar sem áðurnefndar „hellaferðir” hafa meðvitað svo gott sem verið aflagðar í ljósi reynslunnar. Hvað sem öllum hellaferðum líður þá eru til lausnir við þessu algenga vandamáli. Fyrsta skrefið er auðvitað að tala um það og leita sér faglegrar hjálpar. Það er algjör óþarfi að skammast sín fyrir það vegna þess að þú er langt í frá sá eini, eins og áður er getið. Mundu það.







