Katrín Fjeldsted læknir

Katrín er fædd 1946, varð því 70 ára 2016 og hætti þá að vinna sem heimilislæknir. Henni hafði verið sagt að annað hvort yrði hún að segja starfi sínu lausu eða hún fengi uppsagnarbréf. Einhverjir fengu bakþanka og buðu henni að vinna áfram í tímavinnu hjá heilsugæslunni. “Það var ekki í boði í mínum huga því ég var þá búin að senda kveðjubréf til sjúklinga minna,” segir Katrín. “Heimilislæknar bindast sjúklingum sínum gjarnan sterkum böndum og hafa gengið í gegnum súrt og sætt með þeim. Mér þótti ekki í boði að fara að hræra í því aftur þeirra vegna.” Katrín segir að það sé alveg eðlilegt að læknar hætti á vissum aldri og er alveg sátt við hlutskipti sitt. Hún hefur enn starfsorku og sinnir því sem verktaki fyrir Tryggingastofnun að ræða við fólk, sem sækir um örorku.  Á meðan læknar geta nýtt menntun sína og reynslu áfram á öðrum vettvangi, eins og Katrín hefur gert, er það auðvitað ómetanlegt, sérstaklega fyrir okkur hin.

Katrín var borgarfulltrúi 1982-1994 og þingmaður og varaþingmaður 1995-2007.  Hún var formaður Félags íslenskra heimilislækna frá 1995 til 1999 og átti sæti í stjórn Læknafélags Íslands. Hún hefur um árabil verið fulltrúi þess í Evrópusamtökum lækna, í stjórn samtakanna frá 2006 og síðan forseti 2013-´15, fyrst Íslendinga og fyrsta konan. Það þýddi mikla fundasókn og ferðalög, allt að 20 sinnum á ári. Hún hætti sem forseti samtakanna í árslok 2015 en hefur setið þar áfram sem fulltrúi Læknafélags Íslands.

Katrín hefur um árabil verið tengd framhaldsnámi í heimilislækningum, sér um svokallaða Balint fundi. “Balint hugmyndafræðin á uppruna sinn í Bretlandi og gengur út á samband læknis og sjúklings en Balint fundir eru vettvangur þar sem læknum er veittur stuðningur við erfið mál.

Fyrsti viðkomustaður fólks inn í heilbrigðiskerfið er gjarnan hjá heimilislækninum og sýnt hefur verið fram á að þorri heilsufarsvandamála sem sem fólk kemur með á heilsugæsluna leysast þar.”

Katrín reynir af fremsta megni að hugsa jákvætt alla daga. Sú lífsafstaða er aðdáunarverð eftir langa ævi með áföllum sem lífið færir. “Ég treysti því að verða látin vita ef eitthvað stórkostlegt hefur átt sér stað á Facebook en vil alls ekki vera þar sjálf,” segir Katrín og brosir. “Ég hlífi mér við því sem fólk eys úr sér í geðvonsku á samfélagsmiðlum, ég þarf ekki á því að halda. Mér þykir svo gott að hugsa jákvætt og vakna á morgnana og lesa blöðin í rólegheitum. Það er mikill munur á því eða samfélagsmiðli þar sem allir geta sett allt inn, alveg ósíað.”

Katrín hefur fengist töluvert við skriftir um ævina í starfi sínu og undanfarið hefur hún þýtt tvær bækur sem hún á bara eftir að finna útgefanda að. Aðdragandinn að þýðingu þeirra var þannig að hún var á ferðinni um Kastrup flugvöll í Kaupmannahöfn snemma árs 2018, sem oftar, og rakst þá á bók þar sem hún beið. Bókin hét Dödevaskeren eða Líkþvottakonan og er eftir unga konu, fædda 1986, sem heitir Sara Omar. Sara er fædd og uppalin í kúrdíska hluta Íraks en flytur til Danmerkur 2001 með foreldrum sínum. “Sara tileinkar bókina konunum í kringum sig og líklega er hún að hluta til saga hennar þótt það komi hvergi fram því bókin er skáldsaga. Aðallega fjallar hún þó um meðferðina á konum þar sem ríkir trúarofstæki og kvennakúgun í samfélagi þar sem er menntunarleysi og fáfræði. Ég las bókina þegar ég kom heim og varð gersamlega hugfangin af sögunni. Hún er auðvitað svakaleg því hún fjallar um kvennakúgun, sem reyndar á sér stað í öllum trúarbrögðum, en er líka falleg því alls staðar er gott fólk og Sara fjallar um það á yndislegan hátt. En svo gerist það að allt frá því bókin kom út hefur Sara þurft að vera undir lögregluvernd því ýmsum líkaði ekki það sem hún var að skrifa um. Sara skrifaði svo aðra bók sem kom út 2019 og nefnist Skuggadansarinn. Fyrir þá bók fékk hún dönsku bókmenntaverðlaunin De Gyldne laurbær 2019. Hún var valin kona ársins af kvennatímaritinu Elle sama ár og hefur fengið ýmsar mannréttindaviðurkenningar og verðlaun. Í seinni bókinni er Sara að fjalla um sama fólkið og í þeirri fyrri og er að mörgu leyti framhald.“

Hér átti að vera bókmenntahátíð í haust en var frestað fram í apríl. Katrín sá fyrir sér að tilvalið væri að fyrri bókin kæmi út um þessar mundir eða í byrjun árs 2021, Sara yrði síðan fengin til að koma hingað á bókmenntahátíð og svo kæmi Skuggadansarinn út þar á eftir. “Ég vissi ekki þá að hún þyrfti lögregluvernd og nú er veröldin breytt á svo margan hátt. En þessi höfundur á sannarlega erindi við heiminn í dag,” segir Katrín Fjeldsted sem gerir kröfur til sjálfrar sín og lætur hækkaðan aldur ekki stoppa sig.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

Ritstjórn nóvember 10, 2020 18:48