Langþráður draumur að kynna sér málefni Vestur-Íslendinga

Hjónin Kjartan Jóhannesson og María Guðmundsdóttir hlakka til eftirlaunaáranna og sjá fyrir sér að sækja námskeið og ferðast bæði innanlands og utan.  Kjartan vinnur hjá Reiknistofu bankanna, en gerir ráð fyrir að hætta þar fljótlega, en María sem var lengi fræðslustjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar hætti nýlega í föstu starfi á vinnumarkaði. Áður var hún forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamála, kenndi ensku og frönsku um tíma og starfaði hjá franska sendiráðinu svo eitthvað sé nefnt.

Farið til vesturheims kostaði 169 krónur

Þau voru nýlega á námskeiðinu Vestur Íslendingar, saga og samskipti, sem Stefán Halldórsson sá um, en það var haldið hjá Endurmenntun HÍ.   Það var uppúr 1850 sem menn fóru að hugsa sér til ferðar vestur um haf, burtu frá fátæktarbasli hér á landi, þar sem atvinnutækifæri voru takmörkuð og fólk sat því fast í fátæktargildru. Menn héldu til Vesturheims í leit að betra lífi.  Þegar náttúruhamfarir áttu sér stað um 1875, jukust vesturferðirnar til mikilla muna. Leiðin lá þá með skipum til Skotlands og þaðan var siglt vestur um haf. Kanada var fyrirheitna landið í hugum margra, enda áttu menn kost á ókeypis jarðnæði þar. Ferðin yfir hafið kostaði 169 krónur árið 1884, sem svarar til um 40 þúsund króna á verðlagi dagsins í dag. Mönnum vegnaði misjafnlega í nýja heiminum og dreifðust á marga staði í Kanda og Norður Ameríku.

Sigrún amma Kjartans með hann nýfæddan

Bróðir hennar var á móti því að hún færi en hún fór samt

„Amma mín, Sigrún Guðmundsdóttir, átti 11 systkini fyrir vestan, sem annað hvort fluttu þangað með foreldrum sínum eða fæddust þar. Hún og bróðir hennar Helgi voru skilin eftir , en hún var þá komin í fóstur hjá góðu fólki á Brennu í Flóa.  Fólkið hennar var úr Borgarfirði. Langamma mín hét Guðrún Steingrímsdóttir. Foreldrar hennar fóru vestur um haf snemma  á tímabili vesturferða á 19. öldinni en hún fór seinna eða um 1900. Bróðir hennar Jón Steingrímsson sem var prestur vildi ekki að hún færi, en hún fór samt. Hann vildi heldur ekki að hún giftist manninum sem hún giftist, en hann hét Guðmundur Emil. Það kann að hafa haft áhrif á að hún ákvað að fara“ segir Kjartan í samtali við Lifðu núna.

Systkinin dreifðust um allt Kanada

„Þessi 11 systkini ömmu minnar dreifðust víða. Þau byrjuðu í Winnipeg, sumir fluttu þaðan til Mountain í Norður-Dakóta, aðrir til Saskatchewan og enn aðrir til Point Roberts á vesturströndinni. Systur ömmu sem hét Dagmar og bjó þar. Þær skrifuðust á þegar þær voru orðnar fullorðnar. Rétt fyrir 1970 komu svo þrír bræður ömmu í heimsókn og dvöldu á Hótel Borg. Amma, mamma mín Álfheiður Kjartansdóttir og bróðir hennar Magnús Kjartansson fóru að hitta þá og það var ekkert vandamál að þekkja þá, þeir voru alveg eins og hún. Einn þeirra bjó í Kaliforníu“, segir Kjartan og bætir við að hann sé bara rétt að byrja að grúska í þessu. Námskeiðið virki svo sannarlega hvetjandi, þannig að hann gerir ráð fyrir að kynna sér þetta frekar. „Þetta er svona undirbúningur að því að fara að skoða sig um og fara kannski seinna í heimsókn vestur og hitta ættingja“, segir hann.

Loftur Jörundsson afabróðir Maríu

Varð byggingaverktaki og stórgrósser í Winnipeg

María hefur líka tengingu vestur. „ Afabróðir minn var kúnstugur fýr sem hét Loftur Júlíus Jörundsson og var afkomandi Hákarla -Jörundar í Hrísey. Hann varð meiriháttar byggingaverktaki og stórgrósser í Winnipeg, fæddur 1857. Hann siglir út frá Seyðisfirði 1889. Sex árum áður hafði hann farið til Ameríku og þaðan hélt hann til Panama og tók þátt í að grafa Panama skurðinn. Síðan lá leið hans til Ástralíu þar sem hann vann fyrir byggingaverktaka, áður en hann fór aftur til Íslands. Hann á víst yfir 100 afkomendur sem eru víðsvegar í Kanada og Bandaríkjunum“.

Langþráður draumur að kynna sér vesturfarana

María segir að þau hjónin hafi lengi verið að hugsa um að kynna sér þetta betur þegar um hægðist í vinnu hjá þeim. „Þá verður meiri tími til að grúska og þegar maður eldist fær maður meiri áhuga á hvar rætur manns liggja“.  Hún segir að á námskeiðinu hafi hún fengið frekari innsýn í  málefni vesturfaranna  og það hvernig hægt er að leita uppi ættingja sem hafa flutt vestur. Hún segir að ferðalög hafi heillað hana  alla ævi.  Ferðaupplifunin sé þríþætt. „Það er undirbúningurinn, ferðin sjálf og minningarnar. Á námskeiðinu hafi gefist kjörið tækifæri til að undirbúa sig betur til að sjá hvert maður vilji fara, ef leiðin liggi á slóðir Vestur Íslendinga“.

Lærir líka portúgölsku

En María stundar einnig tungumálanám og er að læra portúgölsku, til að þjálfa heilann.  Hún er gamall frönskukennari og hefur lært bæði spænsku og ítölsku. „Mér fannst að það væri kannski ekki erfitt að bæta portúgölskunni við. Svo finnst mér Portúgal fallegt land og hef velt fyrir mér að ferðast öðruvísi í framtíðinni, eftir Covid.  Ég er meðvitaðri um umhverfismálin en áður. Ég fer eiginlega aldrei til útlanda á sumrin. Á veturna get ég hugsað mér að fara eitthvert og dvelja þá lengur. Þá er gaman að geta bjargað sér á tungumáli þess lands. Ég myndi sennilega velja einhvern stað þar sem loftslag er betra og í apríl ætlum við til Madeira. Þá getur maður prófað að babbla aðeins“, segir hún og hlær.

 

 

Ritstjórn mars 15, 2022 12:45