Af hverju er farðinn minn horfinn af markaði?

Flestar konur eru íhaldssamar hvað varðar snyrtivörur. Þær finna hinn fullkomna maskara, farðann sem hentar þeim, litinn á varalitnum og ilmvatnið sem fellur að húðinni eins silki. Af og til gerist það svo að snyrtivörufyrirtækin hætta að framleiða þessa tilteknu vöru og þá eru góð ráð dýr. Stundum gengur vel að finna eitthvað sambærilegt og stundum alls ekki.

En hvers vegna hætta snyrtivörufyrirtæki að framleiða vinsæla vöru? Margt getur komið til. Reglugerðir um notkun ákveðinna innihaldsefna breytast oft. Sum geta verið óholl eða ofnæmisvaldar og þess vegna bannað að nota nema tiltekið hlutfall af þeim í vörunni. Þetta þýðir að áferð hennar og eiginleikar geta breyst. Stundum koma til náttúruverndarsjónarmið, í öðrum tilfellum uppgötva vísindamenn að þau eru ekki holl og annað einfaldlega úreldist. Hugsanlega reynast umbúðirnar einnig of dýrar eða þær eru á skjön við kröfur um umhverfisvernd. Þá er sama gamla varan sett í annan búning. Það er líka til í dæminu að varan detti úr tísku.

Maskari sem þótti fínn á sjöunda eða áttunda áratug síðustu aldar höfðar ekki til nýrra kynslóða og hann hættir því að seljast. Ný tækni og nýjar framleiðsluaðferðir geta einnig breytt ferlinu þannig að þessar snyrtivörur missi gæði og þess vegna er ákveðið að slaufa þeim fremur en að selja vöru sem stenst ekki staðla fyrirtækisins. Eins hefur sú skýring verið gefin að fyrirtækin verði einfaldlega að hætta með eitthvað til að skapa rúm fyrir nýjungar.

Gucci no: 3 er eitt þeirra ilmvatna sem ekki eru lengur fáanleg.

Leitað að nýrri vöru

Þessar sveiflur geta reynt verulega á því snyrtivörur verða eins og fatnaður iðulega hluti af persónuleika hvers og eins. Allir þekkja til dæmis rauða varalitinn, einkennismerki Rögnu Fossberg. Ilmvötn eru sumum konum jafnnauðsynleg og draga andann og þótt sum virðist teljast klassísk og alltaf til, koma önnur og fara. Það getur fylgt því sorg og svekkelsi að skafa síðustu leifarnar af uppáhaldsvaralitnum sínum upp úr hólknum eða berjast við kreista síðustu dropana úr ilmvatnsglasinu.

Við tekur örvæntingarfull leit að nýrri vöru. Gengið er milli snyrtivöruverslana, prófaðir alls konar ilmir, farðar, maskarar og varalitir. Starfsfólk keppist við að fullvissa þig um að þetta sé alveg eins eða næstum, nákvæmlega eins en þú sérð skýrt og greinilega að svo er alls ekki. Daniel Adler forstjóri BuyMeBeauty kom auga á að þarna væri hópur í þörf fyrir þjónustu. Hann sagði í viðtali við tímaritið Allure að það hefði komið þeim mjög á óvart hve mikilum vinsældum síðan náði og að viðskiptavinir hans keyptu ekki einn varalit, einn maskara eða eitt ilmvatnsglas. Algengt væri að þeir notuðu tækifærið þegar þeir fyndu sína uppáhaldsvöru og keyptu allt upp í tólf stykki.

Líklega kemur þetta engri konu á óvart. Þær hafa hlustað á vinkonur ergja sig á að eyelinerinn þeirra sé horfinn af markaði eða að skyndilega séu þeir litir af augnskuggum sem þeim líkar best ekki til. Nýlega heyrðum við af konu sem leitar að nýjum farða eftir að Lancôme hætti að framleiða þann sem hún hafði notað í tuttugu ár. Þessi sama kona keypti einnig varalit í litatóninum coral. Nú finnst hann hvergi og sama hversu marga liti hún reynir í snyrtivörudeildum stórverslana hvergi er hægt að fá nákvæmlega þennan litblæ. Önnur hafði samband og sagðist enn vera að leita að ilmvatni sem henni líkaði eftir Gucci no: 3 var tekið af markaði. Hún hafði prófað ótal ilmi en fannst enginn þeirra „klæða sig“ á sama hátt og sá ilmur hafði gert.

Þessi varalitur frá Revlon er meðal þeirra vinsælustu á síðunni buymebeauty.com

Sumt verður undir

Í viðtalinu við tímaritið Allure talaði Daniel Adler um að stærstu snyrtivörufyrirtækin framleiddu kannski um það bil  20.000 eintök af varalit eða augnskugga í tilteknum lit og þeir þyrftu aðeins að selja um 5000 til að framleiðslan borgaði sig. Hvort viðskiptavinurinn saknaði vörunnar þegar hún væri uppseld væri sjaldnast eitthvað sem þeir sem stjórnuðu hvað færi á markað hefðu áhyggjur af. Flestar konur finndu hvort sem væri eitthvað annað í staðinn og aðeins um 10 prósent viðskiptavina snyrtivörufyrirtækjanna væru verulega óánægðir.

Markaðsfræðingur sem talað var við í sömu grein segir mikilvægt fyrir fyrirtækin að setja nýjar vörur á markað reglulega. Í viðleitni þeirra við að markaðssetja þær mættu aðrar vörur afgangi og aðeins örfáar fengu þann sess að verða klassískar og þar af leiðandi alltaf í framleiðslu. Litir, áferð, ending og útlit snyrtivara er líka breytilegt eftir tísku.

Önnur vefsíða sem selur vörur sem hætt hefur verið að framleiða er Discontinued Beauty. Forsvarsmaður hennar, Daneen Woolstrum segist passa ákaflega vel upp á vörurnar. Hún geymir þær í vöruhúsi og stillir hita- og rakastig nákvæmlega til að auka geymsluþol þeirra. Venjulega geymast snyrtivörur ágætlega í tvö ár en ef á að geyma þær lengur þarf að gæta vel að umhverfisáhrifum eins og sólarljósi en það getur breytt ilminum í ilmvatnsglösum, raka í kringum augnskugga, púður og aðrar vörur sem eru í duftformi og áferð farða breytist eftir hitastigi.

Þau Daneen og Daniel vilja hvorugt gefa uppi hvar þau finna allar þessar vörur sem eru ófáanlegar í verslunum en Daneen segist fylgjast vel með ebay og að stundum séu snyrtistofur eða hárgreiðslustofur að hætta og á lagerum þeirra leynist ýmislegt. Þau tvö hafa einnig í gegnum tíðina fengið ómetanlega innsýn inn í hvaða ófáanlegu vörur það eru sem fólk sækist mest eftir. Daniel segir að ef stóru snyrtivörufyrirtækin hafi áhuga á að hefja aftur framleiðslu á einhverju ættu þau að sjá sér hag í hafa samband því hann gæti sagt bæði hvaða vörutegund og hvaða litir eru vinsælastir. En ef einhver lesenda Lifðu núna er í hópi þeirra sem sakna sárlega einhverrar snyrtivöru getur sá hinn sami leitað á eftirfarandi vefsíðum:

Discontinued Beauty

https://www.buymebeauty.com/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 2, 2024 07:00