Ingunn Ásdísardóttir hefur um árabil verið áberandi í okkar litla samfélagi fyrir ýmissa hluta sakir. Hún var ein af fáum hér áður fyrr sem kenndi sig við móður sína, hún stendur út úr fyrir útlit sitt og eins og margir listamenn vekur hún athygli fyrir öðruvísi og skemmtilegan klæðaburð. En síðast en ekki síst hefur hún unnið að merkilegum verkefnum sem tekið hefur verið eftir svo sem eins og nýjasta bók hennar sem nefnist ,,Jötnar hundvísir, norrænar goðsagnir í nýju ljósi“.
Ingunn er fædd 1952 á Egilsstöðum þar sem hún sótti skóla fyrstu árin. ,,Svo fór ég í MA eins og maður gerir,“ segir hún og brosir. ,,Síðan fór ég í Háskóla Íslands, ,,aftur eins og maður gerir“ þar sem ég lauk prófi í ensku og bókmenntafræði 1981 og meistaraprófi í þjóðfræði frá sama skóla 2005.“ Ingunn stundaði leikstjórnarnám í Þýskalandi á árunum 1981 – 1985 og hefur unnið bæði með atvinnu- og áhugaleikurum hérlendis og erlendis. Hún hefur auk þess verið mikilvirkur þýðandi, þýtt bæði fagurbókmenntir og fræðirit. Ingunn á eina dóttur, Ásdísi Grímu og dóttursoninn, Úlf Kára.
Leikstjórnarnám í Þýskalandi
Ingunn vann við að leikstýra í 15 ár eftir námið í Þýskalandi. Þá var dóttir hennar lítil og hún segir að lífið hafi verið mikið hark fyrir konur í leikstjórn á þessum tíma. ,,Þetta varð því meira hark eftir því sem konur urðu eldri en það hefur reyndar lagast mikið. Í seinni tíð hafa mun fleiri konur fengið almennileg leikstjórnarverkefni,“ segir Ingunn sem fór að vinna við þýðingar þegar illa áraði í leikstjórninni. Hún hefur þýtt skáldsögur, leikrit og fræðirit úr þýsku, ensku og norðurlandamálum en líka eina bók úr færeysku sem nefnist ,,Ó sögur um djöfulskap“ eftir færeyska rithöfundinn Carl Johan Jensen. Fyrir þá bók fékk hún Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2014. Hún starfaði um tíma í Færeyjum við leikstjórn og kynntist þá tungumáli nágrannaþjóðar okkar nokkuð. Ingunn segir að það hafi verið mikil áskorun að þýða úr færeysku því þótt tungumálin séu lík megi ekki alltaf treysta því að orðin hafi sömu merkingu þótt þau séu skrifuð eins. Af Þessu má ætla að Ingunn þrífist á áskorunum því hún ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur.
Þýddi bók um norræna goðafræði
Svo gerðist það í lok tíunda áratugarins að Ingunn var beðin um að þýða bók sem nefnist „Hugtök og heiti í norrænni goðafræði,“ og þá var teningunum kastað. „Sú vinna kveikti aftur áhuga minn á goðafræðinni og ég hellti mér þá í þjóðfræði í HÍ. Leiðbeinandi minn í meistaranáminu var Terry Gunnell og ég útskrifaðist 2005. Lokaritgerðin mín varð að bók sem heitir ,,Frigg og Freyja, kvenleg goðmögn í heiðnum sið“. Svo kom upp hugmyndin að ég færi í doktorsnám og árið 2014 fékk ég styrk úr Rannís og hellti mér í þá vinnu.“ Doktorsritgerð Ingunnar heitir Jötnar in War and Peace; The Jötnar in Old Norse Mythologhy. Their Nature and Function og hana varði hún árið 2018.
„Mig langaði til að skoða sögurnar af jötnum á annan hátt en hafði áður verið gert,“ segir Ingunn. ,,Frá því að hafa verið að skoða Frigg og Freyju og þessi kvenlegu goðmögn sem virtust tengjast þeim eins og dísir, nornir og valkyrjur, fór ég að skoða þær jötunkonur sem er að finna í Eddukvæðunum. Jötnarnir og jötunkonurnar eru alltaf einhvern veginn til hliðar en eru alltaf þarna og hafa hlutverk og mér þótti spennandi að skoða hvaða hlutverk það væru,“ segir Ingunn. „Svo ákvað ég að skrifa bók á íslensku upp úr rannsókninni og um þessar hugmyndir mínar, ekki síst um jötunkonurnar, því þær skipta í rauninni sköpum þegar nánar er skoðað. Heimildirnar sem við höfum, einkum Edda Snorra Sturlusonar og eddukvæðin, sem eru jafnframt helstu heimildir Snorra, hafa tekið á sig viðhorfið „við og hinir“. „Við“ eru æsirnir og þeir góðu og jötnar eru „hinir“, þ.e. óvinirnir. Þannig túlkar Snorri kvæðin og gerir jötnana að óvinum guða og manna. Að mínu mati mistúlkar hann kvæðin þegar hann gerir jötna að óvinum. Snorri er auðvitað yfirstéttarmaður og pólitíkus og er ríkur og valdamikill. Hann er uppi tveimur öldum eftir kristnitöku og þá eru kirkjuyfirvöld búin að festa sig í sessi hér á landi og Snorri vill engan styggja.“
Snorri varðveitir skáldahefðina fyrir ungskáldin
„Með Eddu sinni vill Snorri varðveita skáldahefðina, dróttkvæðin og kenningarnar sem eru stór hluti af dróttkvæðahefðinni. Þessar kenningar byggja mikið á goðafræðinni svo Snorri er í rauninni að varðveita þau fræði fyrir ungskáld síns tíma. Hann þræðir þröngan stíg við að styggja ekki yfirmenn kirkjunnar og konunga. Ungskáldin geti því ort lofkvæði um þessa háu herra en þurfi að hafa hetjuímyndina þannig að þeir geti lýst þeim næstum eins og guðum en líka óvinagera óvininn og líkja honum við andstæðing guðanna. Snorri býr þannig til munstur fyrir ungskáldin og þannig skrímslavæðir hann Jötnana. En þegar maður fer að skoða eddukvæðin í sinni varðveittu mynd – þau hafa líklegast orðið til á norrænum svæðum löngu fyrir landnám Íslands og þá jafnvel með annars konar sjónarhorni – þá er þetta „við og hinir“ viðhorf komið á yfirborð kvæðanna. Guðirnir erum ,,við“ og þeir mega allt og fara um og ræna og drepa. En undir yfirborðinu leynast miklu eldri menjar að átrúnaði og hugmyndaheimi um jötunverurnar sem eru greinilega nátengdar jörðinni og náttúrunni og kvenlægum gildum. Þarna einbeiti ég mér að því að skoða þessar verur þar sem þær birtast í kvæðunum. Ég reyni að nota Snorra sem allra minnst nema til samanburðar. Fræðimenn hafa alltaf látið Snorraviðhorfið, þ.e. þetta „við og hinir“ ráða í rannsóknum sínum. En ég fer aðra leið og reyni að skoða þessar verur eins hlutlaust og hægt er. Þá kemur í ljós að goðin þurfa að sækja allt sem þá vantar til jötnanna til að geta tekið yfir átrúnaðinn. Þeir þurfa að fá visku og þekkingu um sköpun heimsins frá þeim og þurfa meira að segja að sækja sér hluti til jötnanna. Þeir geta til dæmis ekki bruggað hinn helga mjöð nema sækja sér ketil til þeirra.“
Jötunkona færir hinn helga drykk
„Æsir þurfa auk þess að viðhalda lífinu í gegnum jötunkonur því þeir eignast eiginlega öll sín börn með jötunkonum. Auk þess kemur í ljós að svo til alltaf við mikilvægar, formlegar athafnir, kemur jötunkona með hinn helga drykk. Til dæmis segir í Hávamálum um Gunnlöðu að þegar Óðinn er búinn að halda mikla ræðu segir hann: „Gunnlöð mér um gaf / gullnum stóli á / drykk hins dýra mjaðar“. Þetta er munstur sem er gegnumgangandi í goðafræðinni, þ.e. að jötunkona ber fram þennan helga drykk sem þýðir að það er hún sem staðfestir það sem er að gerast. Jötnarnir eru þeir sem búa yfir viskunni og þekkingunni um sköpun heimsins og endalok. Þeir búa yfir rúnaþekkingu sem felur í sér galdrakunnáttu og töfraþekkingu og þetta ágirnast æsirnir. Ég dreg þær ályktanir af þessu að þarna séu einhvers konar trúskipti að eiga sér stað sem taki yfir langan tíma og til verði sögur eins og gerðist þegar kristnin tók yfir ásatrúna. Þetta er munstur sem gengur aftur og aftur og er enn að endurtaka sig í heiminum. Með því að færa sjónarhornið tel ég mig hafa fundið og sett fram nýjar hugmyndir. Menn hafa aldrei beint neinni sérstakri athygli að þessum jötunverum nema í tengslum við æsina. Ég vil skilja hvað það er við jötunkonurnar sem gerir það að verkum að Óðinn er alltaf að manga til við þær en ekki ásynjurnar og eiginkonu sína, Frigg. Þá koma fram allt öðruvísi og heillandi myndir. Í bókinni „Jötnar hundvísir, Norrænar goðsagnir í nýju ljósi“ vinn ég meira og nákvæmar úr frumrannsókninni sem ég gerði fyrir doktorsritgerðina,“ segir Ingunn.
Frá Japan til Sierra Leone
Ingunn var nýkomin frá Japan þegar viðtalið var tekið en þar hafði hún verið í skipulagðri ferð með vinafólki. ,,Þetta var alveg ógurlega skemmtileg ferð og mikil upplifun að kynnast svolítið japanskri menningu,“ segir Ingunn. ,,Svo kom ég heim í einn og hálfan sólarhring og flaug þá með dóttursyni mínum til Vestur- Afríku að heimsækja dóttur mína og móður hans en hún vinnur í Sierra Leone á vegum utanríkisráðuneytisins. Að fara frá Japan til Sierra Leone er eins og að fara á milli tveggja heima. Munurinn er ólýsanlegur. Í Japan fann ég fyrir mikilli og sterkri menningu þar sem þrifnaður og allir innviðir eru í góðu lagi á meðan samfélagið í Sierra Leone er nánast eins og á steinöld. Það var mjög áhrifaríkt fyrir mig að upplifa þessar andstæður,“ segir Ingunn sem hefur hvílt sig frá fræðistörfunum frá því að Jötnar hundvísir kom út, enda var sú bók mikið þrekvirki. „Ég gæti vel hugsað mér að þýða nokkrar góðar bækur núna í rólegheitum,“ segir þessi lifandi kona sem nýtur lífsins ríkulega og notar mikla reynslu og þekkingu sem hún hefur aflað sér í gegnum lífið í alls konar verkefni. Nú verður spennandi að fylgjast með hvað Ingunn Ásdísardóttir tekur sér fyrir hendur næst.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.