Af páskahretum fyrr og nú

Trausti Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands hefur tekið saman yfirlit yfir páskahret og birt  á vef Veðurstofunnar. Greinina í heild er hægt að lesa hér en við stiklum á stóru í grein Trausta og gefum honum orðið.

„Erfitt er að skilgreina páskahret, hitinn ræður ekki einn og sér. Fer það líka eftir tíðinni á undan hvort páskarnir skera sig úr. Nú á dögum skiptir færð um páskana meira máli en áður. Veður sem hefðu talist vera lítilsháttar hríðarbyljir fyrr á tímum geta nú valdið meiriháttar samgönguröskunum, einmitt þegar flestir vilja vera á ferðinni. Vertíð á sjó var í fullum gangi um páskaleytið og fyrr á árum voru mikir sjóskaðar algengir. Líklegt er að einhver hret vanti, sérstaklega þau stuttu. Sömuleiðis má vera að einhver séu oftalin, veðrið hafi alls ekki verið sérstaklega slæmt. Ef trúa á listanum gerir páskahret að meðaltali á um þriggja ára fresti.

Hretin eru langoftast samfara miklum norðan- eða norðaustanstormum. Mörg þeirra skullu mjög skyndilega á en önnur byggðust upp á lengri tíma. Í fáeinum tilvikum var um slæm vestanillviðri að ræða.

Á síðari hluta nítjándu aldar urðu 16 páskahret en 22 á fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Á seinni hluta tuttugustu aldar urðu 14 páskahret en engin hafa orðið nú á 21. öld.“ En skoðum páskahret síðustu áratugina. Það mannskæðasta varð snemma á sjöunda áratug síðustu aldar og gefum Trausta orðið aftur.

„1963: Páskadagur 14. apríl. Frægasta páskahretið. Veðrið skall skyndilega á eftir miðjan dag á þriðjudegi, 9. apríl, með hörkufrosti og stormi eftir óvenjumilda tíð. Miklir mannskaðar urðu í hretinu, 18 menn fórust á sjó og fádæma skemmdir urðu á gróðri. Fimm menn fórust af tveimur bátum frá Dalvík, 2 menn af báti frá Þórshöfn, 2 af báti frá Siglufirði. Allir þessir bátar voru norðan við land, skip fórst einnig við Reykjanes, þar fórust fimm, en sex björguðust naumlega. Tvo menn tók út af þýskum togara. Fjárskaðar urðu vestan- og norðanlands. Bátur sökk í Vopnafjarðarhöfn, mikið brim var á þeim slóðum. Rúður brotnuðu í húsum á Hvallátrum, þak tók af fjárhúsum í Breiðuvík og hús í Hænuvík löskuðust nokkuð. Miklir skaðar urðu á sunnanverðu Snæfellsnesi, þök tók af útihúsum á Bláfeldi, Lýsuhóli, Kálfavöllum, Hraunsmúla, Hofgörðum og Hólakoti og af íbúðarhúsi á Hóli. Bíll fauk út af veginum við Bláfeld. Steinsteypt sæluhús fauk í Hafursey á Mýrdalssandi. Á páskadaginn tók þak af hálfum fjárhúsum á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi.

1965: Páskadagur 18. apríl. Hret viðloðandi alla dymbilvikuna og fram á annan páskadag.

1967: Páskadagur 26. mars. Miklar samgöngutruflanir í miklu hríðarveðri sem hófst á föstudaginn langa og stóð yfir páskana. Grjótflug skemmdi bíla og þeir fuku af vegum. Fólk lenti víða í hrakningum. Bátar í Njarðvíkurhöfn voru hætt komnir vegna ísingar. Stórt gróðurhús í Mosfellssveit eyðilagðist. Áætlunarbíll fauk út af vegi í Kollafirði og valt. Snjóflóð féll úr Bjólfinum á Seyðisfirði og á mjölskemmu. Lagðist skemman saman, fleiri snjóflóð féllu í firðinum.

1970: Páskar 29. mars. Mikið illviðri gerði í dymbilvikunni og varð verst frá þriðjudegi fram á skírdag. Járnplötur fuku og rúður brotnuðu í Flatey. Þakplötur fuku af allmörgum húsum á Seyðisfirði og rúður brotnuðu, maður fékk glerbrot í auga. Bíll fauk á hliðina. Mikið tjón varð á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, þar fauk allt hlöðuþakið og hluti af áföstu fjósþaki, rúður brotnuðu í íbúðarhúsinu og járn tók af fleiri húsum. Mikið járn fauk af gamalli fiskimjölsverksmiðju og mjólkurstöð á Djúpavogi (á skírdag, 26.). Rúður brotnuðu í Neskaupstað. Þak fauk af hlöðu í Tungu í Höfðadal, margir lentu í hrakningum á heiðum. Víða urðu skemmdir og ferðafólk á páskaleiðum lenti í hrakningum.

1975: Páskadagur 30. mars. Norðanskot sem stóð mjög stutt. Maður varð úti í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Gámur fauk á bifreið í Vestmannaeyjum og skemmdi hana mikið. Skemmdir urðu einnig á rúðum og lakki bíla. Jeppi fauk út af vegi við Seljaland undir Eyjafjöllum. Farþegar slösuðust.

1976: Á skírdag, 15. apríl, lentu tæplega hundrað bílar í miklum hrakningum á Holtavörðuheiði.

1979: Páskadagur 15. apríl. Á skírdag fauk kyrrstæð fólksbifreið á Skeiðarársandi og varð að járnahrúgu, þar var mikið grjótflug og brotnuðu rúður í allmörgum bílum og lakk eyðilagðist.

1983: Páskadagur 3. apríl. Samgöngutruflanir urðu páskadagana vegna hríðarveðurs.

1994: Páskadagur 3. apríl. Aðfaranótt þriðjudags eftir páska fórst maður og mikið eignatjón varð er stórt snjóflóð féll á skíða- og sumarbústaðahverfi við Ísafjörð. Víðar varð þá tjón af snjóflóðum.

1996: Páskadagur 7. apríl. Á skírdag var mikil ófærð suðvestanlands í miklu hríðarveðri, samgöngur lömuðust. Talsvert tjón varð í fjöldaárekstrum og nokkur meiðsli urðu á fólki.“

Ritstjórn apríl 12, 2017 11:05