Af hverju sumardagurinn fyrsti?

Trausti Jónsson

„Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í grein á vefnum vedur.is.

„Dagurinn er hluti af misseristalinu sem tíðkast hefur hér á landi frá landnámi. Árinu er þar skipt í tvo nærri jafnlanga helminga: Sumarhelming og vetrarhelming. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því sumarið – frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin er einmitt hlýrri helmingur ársins, en veturinn sá kaldari. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.

Í Noregi og Svíþjóð var notað öllu frumstæðara misseristímatal, en þar er sumardagurinn fyrsti að gömlu tali þ.14. apríl og stendur sumarið til 14. október.

Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Ef við teljum árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember. Þessi skipting hefur verið notuð á Veðurstofunni í meir en 80 ár. Víðast hvar í Vestur- Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá des til feb, vorið mars til maí o.s.frv. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar. Íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma. Það varð fullþroskað á 12. öld og full ástæða er til að sýna því þá ræktarsemi sem það á skilið,“ segir Trausti ennfremur.

Sjá meira meira á fróðleikssíðum Almanaks Háskólans

Ritstjórn apríl 19, 2018 08:01