Afi og amma – bílstjórar eða sagnaþulir?

Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur skrifar

Margir segja að það séu bestu hlutverk í heimi að vera amma og afi. Allt öðru vísi en að vera foreldri. Ein amma sagði að sér finnist fá hlutverk hafa komið til sín jafn fyrirhafnarlaust. Samverustundirnar séu aldrei nógu margar. Býsna erfitt og krefjandi segja aðrir. Það besta við barnabörnin sé að þeim sé alltaf skilað aftur. Svona er lífið, það sem er einum létt er öðrum erfiðara. Það er víst ekkert skrýtið að þessi hlutverk séu ólík. Hjá sumum eru barnabörnin handan við hornið og hjá öðrum í annarri heimsálfu. Ein vinkona mín á barnabörn í Kanada, önnur í Bandaríkjunum og Þýskalandi, sú þriðja í Englandi og bernskuvinkona mín á barnabörn í Ástralíu. Ömmur og afar í þessari stöðu blessa tækni nútímans sem gerir þeim kleyft að eiga samskipti við barnabörnin á netinu og í síma. Mín barnabörn eru á Íslandi og ég er afar þakklát fyrir það.
Ég er ein af þeim sem finnst ömmuhlutverkið mjög skemmtilegt og gefandi, og ég hef velt því mikið fyrir mér, bæði persónulega og á fræðilegri hátt. Við þetta sýsl hef ég komist að ýmsu. Til dæmis rak ég mig á það að íslensk tunga á ekki sameiginlegt heiti fyrir ömmu og afa, fólkið sem heitir grandparents á ensku og besteforeldre á Norðurlandamálum. Stórforeldrar, bestuforeldrar eða eitthvað allt annað. Það væri gott að hafa svoleiðis orð.
Barn sem fæðist um þessar mundir kemur inn í allt öðruvísi fjölskyldugerð en áður hefur tíðkast. Norski félagsfræðingurinn Gunhild Hagestad orðar það svo að nú á dögum eigi börn í Noregi yfirleitt fleiri ömmur og afa á lífi heldur en systkini. Það hefur dregið úr barnsfæðingum og fullorðna fólkinu í kringum börnin fjölgar eftir því sem það lifir lengur. Rannsóknir hennar sýna að við nálgumst það að helmingur tíu ára barna eigi fjórar ömmur eða afa á lífi og þannig hefur þetta aldrei áður verið. Veruleiki nútímabarna sé þannig að margir fullorðnir keppi um athygli barnanna með dýrum leikföngum, bæði foreldrarnir og ömmur og afar. Má ætla að veruleiki íslenskra barna sé áþekkur þeirra norsku og til viðbótar við þetta kemur fólkið sem er í stjúpömmu og stjúpafa hlutverkum, jafnvel bæði núverandi og fyrrverandi.
Rannsóknir Gunhild hafa leitt í ljós að norskar ömmur og afar kjósa einkum stuðningshlutverk við börn sín og barnabörn þegar sérstaklega þarf á að halda, án þess að vera bundin frá degi til dags. Þessu er öðruvísi farið á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, þar sem ömmur koma mikið í stað dagmæðra. Í aðeins eldri bandarískri rannsókn voru foreldrar spurðir hvað væri það besta við ömmur og afa. Svörin leiddu í ljós að það var að þau veita stuðning og aðstoð þegar á þarf að halda, styrkja fjölskylduna, tengjast barnabörnunum vel, og miðla reynslu sinni og þar með arfleifðinni. Óskahlutverk ömmu og afa í Noregi á sér þannig sterkan samhljóm við skoðanir bandarísku foreldranna. Foreldrarnir voru einnig spurðir hvað væri það versta við ömmur og afa. Það var ef þau skipta sér af, skapa deilur við barnabörnin og gefa tilfinningu fyrir fjarlægð innan fjölskyldunnar. Þetta sýnir okkur vel hvað hlutverk ömmu og afa getur verið vandmeðfarið, því oft er stutt á milli stuðnings og afskipta.
Margir hafa velt fyrir sér hvað í því felist að vera amma eða afi. Ég safnaði saman því sem heimildir í fórum mínum segja um það hvað felst í hlutverkum þeirra og er afraksturinn fjölbreyttari en ég átti von á. Í honum felst að annast um, vernda, veita umhyggju og athygli, hugga, sætta, brýna til dáða og aga. Kenna, fræða og leiðbeina um handtök, hefðir og lífsreglur. Vera vinur og félagi, taka skutlið og vera bílstjóri og fararstjóri. Vera sagnaþulur og fræða börnin um fortíð sína og fjölskyldunnar. Vera fyrirmynd. Veita afþreyingu, vera skemmtikraftur og skemmta sér. Vera nemandi og læra af barnabörnunum. Vera fósturforeldri barnanna. Taka þátt í ýmsum sérverkefnum. Það er úr mörgu að velja og þessi hlutverk vefast svo saman á ótal vegu fyrir hverju og einu okkar og oft erum við í mörgum þeirra í einu. Sum getum við valið okkur, um önnur er minna val. Hver og einn þessara þátta er þess verður að fá sérstaka umfjöllun.
Það er því ljóst að ömmu- og afahlutverkið er margbrotið og síbreytilegt. Við leikum við börnin eða fræðum þau, gefum að borða og samtímis er þörf fyrir umhyggju eða aga. Börn vaxa hratt og þroskast, og það sem hentaði þeim í gær vilja þau gera öðruvísi á morgun. Amma og afi breytast líka og þarfir þeirra með. Þau eldast, hætta að vinna og hafa meiri tíma, og svo getur heilsan breyst. Þau missa maka eða eignast nýja. Umhverfið skiptir um svip, tæknin eykst og tækifærin með. Sumir flytja, fjárhagur annarra breytist og svona mætti lengi telja. Allt felur þetta í sér bæði tækifæri og ögranir. Bandaríski læknirinn og fræðimaðurinn Arthur Kornhaber orðaði þetta þannig að hlutverk ömmu og afa hafi annan tilgang heldur en foreldrahlutverk. Sum þeirra séu hagnýt og fræðandi, og þau bjóði upp á sérstök tilfinningaleg undur og tengsl við þann hluta af uppruna barnsins sem ekki sést á yfirborðinu. Ég tek undir með Kornhaber sem hvetur ömmur og afa til að velta hlutverkum sínum fyrir sér og finna með því á þeim nýjar hliðar til að gleðjast yfir.

(Endurbirt frá 2019)

 

 

Ritstjórn maí 6, 2014 16:57