Svampur Sveinsson fær harða samkeppni

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

Í mislangri innilokun vegna Covid19 hefur ýmislegt gerst sem hefur bætt manni upp að geta ekki sótt viðburði eins og venjulega. Eitt af því skemmtilega sem á dagana hefur drifið eru heimsóknir dóttursonar og vinar hans. Þeir félagar eru átta ára og hafa löngum haft mikinn áhuga á sjónvarpinu. Þegar þeir koma leggja þeir vanalega undir sig stofuna, drekka kristal og borða AB-mjólk með kanelsykri. Svona gekk þetta langa hríð. Síðan gerðist það að inn á heimilið var keyptur Ipad. Ég var ekki mjög áhugasöm um þetta tæki en eiginmaðurinn sat aftur á móti uppi í vinnuherbergi og hlustaði á hátíðlega heimspekifyrirlestra – oft svo langa að mér þótti nóg um.

Vinur dóttursonarins er skynugur drengur sem hefur auga á hverjum fingri, ef svo má segja. Hann þekkir orðið allt á heimilinu, veit hvar góðgæti er geymt og hvernig dagarnir líða hjá heimilisfólkinu. Einn góðan veðurdag bilaði sjónvarpið. Ég var inni í eldhúsi en heyrði að eitthvað herfilegt var á seyði í stofunni.

„Sjónvarpið er dautt,“ sagði dóttursonurinn sorgmæddur og reyndi að koma því af stað með ítrekuðum ýtingum á fjarstýringuna. Ég taldi víst að nettengingin væri eitthvað að stríða okkur og slökkti á henni og kveikti svo aftur. En allt kom fyrir ekki. Vinur dóttursonarins horfði á aðfarir mínar og sagði svo loks með djúpri hneykslan:

„Af hverju lætur þú ekki afann laga þetta. – Kemur hann aldrei niður?“ Bragðið er þá barnið finnur eins og þar stendur. – Jæja, sjónvarpið komst á endanum í lag og þeir félagar drukku sinn kristal og borðuðu AB-mjólkina sína meðan þeir horfðu á Svamp Sveinsson og fleira í þeim dúr.

En dag einn brá svo við að þeir komu við þriðja dreng og vildu fá lánaðan Ipadinn sem mesta nýjabrumið var nú til allra lukku farið af. Þeir fengu umyrðalaust Ipadinn og eftir það heyrðist ekki svo mikið sem múkk í strákunum þremur. Þeir höfðu lokað sig kyrfilega inni í stofu og voru þar allan þann dag og fram á kvöld.

Daginn eftir komu þeir félagar þrír og sögðu ábúðarfullir: „Við viljum fá Ipadinn, kristal og AB-mjólk og svo viljum við fá frið.“ Að svo mæltu tóku þeir þeir tækið og lokuðu sig inni í stofu. En lífið hefur alltaf lag á að koma fólki á óvart. Tvær dótturdætur á sama aldri og umræddir drengir komu í heimsókn. Þeim leiddist svolítið og ákváðu að fara að njósna um strákana. Ekki leið á löngu áður en þær komu stóreygar og gustmiklar fram í eldhús til mín og sögðu sínar farir ekki sléttar: „Amma, við sáum strákana gegnum stofugluggann. Þú ættir bara að sjá hvað strákarnir eru að horfa á dónalegt í Ipadinum. Aldrei nokkurn tíma myndum við horfa á svona!“

Ég læddist inn í stofuna. Strákarnir voru svo niðursokknir í efni Ipadsins að þeir uggðu ekki að sér og voru höndum seinni að slökkva á því sem þeir voru að horfa á. Stelpurnar höfðu rétt fyrir sér – efnið í Ipadinum var dónalegt – svo vægt sé til orða tekið.

Ég tók umsvifalaust af þeim Ipadinn. Þeir urðu allir rjóðir í framan og sögðust eiga brýn erindi út. Einn þeirra flýtti sér svo mikið að hann fór skólaus og annar gleymdi úlpunni sinni. Hringt var í mæður drengjanna og þeim gerð grein fyrir því sem gerst hafði. Sátu þeir félagar svo undir þungorðum umvöndunum vegna efnisvalsins. Varla þarf að taka fram að Ipadinn var settur í algjört bann eftir þetta og Svampur Sveinsson „átti aftur salinn“.

Þetta atvik minnti mig á æsku mína. Þar sem ég var í sveit var til bókin Heilsurækt og mannamein. Þegar ég var tíu ára krækti ég mér svo lítið bar á í þessa bók úr bókaskápnum í stofunni og fékk smám saman einkenni flestra sjúkdóma sem þar var sagt frá. – En langmestan áhuga hafði ég þó á kaflanum sem fjallaði um kynfræðslu. Þegar húsmóðirin á bænum gómaði mig dag einn niðursokkna í bókina sagði ég vandræðalega að ég hefði verið að lesa um hvernig ætti að búa um fótbrot. Hún rétti út hendina eftir bókinni og sagði um leið: „Láttu ekki svona stelpa, ég veit vel hvað þú varst að lesa um.“

Miðlarnir í þessari frásögn eru sannarlega ólíkir en mannleg náttúra er söm við sig. Einhvern veginn verður fólk að átta sig á því umhverfi sem það lifir í og vex upp til að taka þátt í. Börn eru þó líklega betur komin með annars konar kynfræðslu en harðsvíraðar klámsíður. Við yfirheyrslu foreldranna kom í ljós að nýr strákur var kominn í bekkinn og hann átti eldri bræður sem höfðu kynnt hann fyrir umræddu síðunum. Hann boðaði síðan skólabræðrum sínum „fagnaðarerindið“. En hvað um það – einhvern tíma hlaut að koma að þessu og allir lifðu það af. – Nú um stundir eru það svo tölvuleikirnir sem eiga hug félaganna þriggja óskiptan.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir nóvember 12, 2021 15:18