Allt brjálað í beinþéttimælingunum

Það er biðlisti í beinþéttimælingu hjá LSH á Borgarspítalanum í Reykjavík, alveg fram í miðjan nóvember. Magnea Gógó Þórarinsdóttir geislafræðingur segir að þangað komi yfirleitt 15 manns á dag í beinþéttimælingar, alla virka daga.  Það gerir um 300 á mánuði. Langstærsti hluti þessa fólks er konur. „Það er búið að vera brjálað að gera hjá okkur í beinþéttimælingunum allt þetta ár“, segir Magnea og bætir við að áhuginn sé greinilega að aukast. „Það hefur átt sér stað vitundarvakning meðal fólks um mikilvægi beinmassans,“ segir hún og telur að það sé vegna aukinnar kynningar á þessum málum.

Þögli sjúkdómurinn

Beinþynning er oft kölluð þögli sjúkdómurinn, því fólk er oft grandalaust og uppgötvar hann kannski ekki fyrr en það beinbrotnar allt í einu af litlu sem engu tilefni.  Konur geta fengið beinþynningu eftir að breytingarskeiðinu lýkur en langvarandi notkun krabbameinslyfja og steralyfja getur einnig valdið beinþynningu. „Þetta eru góð og nauðsynleg lyf, en geta haft þessar aukaverkanir“, segir Magnea.

Niðurstaðan fæst á meðan þú bíður

Þegar fólk mætir í beinþéttimælingu er það vigtað og hæðin mæld. Þetta skiptir máli uppá beinmassann. Síðan er fólk sett í skanna sem tekur myndir af beinunum.  Allt er þetta svo sett inní tölvu sem skilar niðurstöðu á meðan fólk bíður. Þetta er ekki mikið fyrirtæki, þegar í mælinguna er komið, og kostar um 4000 krónur fyrir fólk sem er ekki með afslátt í heilbrigðiskerfinu. Ef niðurstaðan er sú að fólk sé með beinþynningu, er því vísað til læknis og stundum fær fólk þá beinþéttilyf.

Góður beinmassi stuðlar að lífsgæðum

En það er líka hægt að stuðla sjálfur að betri beinmassa, með því að  hreyfa sig og taka lýsi, D-vítamín og kalktöflur. Það þarf líklega ekki að tíunda það fyrir fólki sem komið er yfir miðjan aldur, hversu mikilvægt það er að hafa góðan beinmassa og gott stoðkerfi. Slíkt stuðlar að meiri lífsgæðum þegar aldurinn færist yfir.

 

 

Ritstjórn september 20, 2017 11:50