Heilsubót eða tískufyrirbæri?

„Málið er að þegar eitthvað nýtt kemur fram, kemur sem betur fer einnig fram gagnrýni á það“, segir Elísabet Reynisdóttir næringarfræðingur um þá umræðu sem hefur orðið um kollagenið sem nú er mikið auglýst sem fæðubótarefni og allra meina bót.  Þó kollagen sé nýtt í umræðunni, hafa menn vitað af því lengi og til eru frásagnir af rannsóknum á kollageni frá því í upphafi síðustu aldar, en það eru til 28 tegundir af kollageni „Það sem er nýtt er að það eru komin fram tæki sem gera okkur kleift að brjóta kollagenið niður í duft, þannig að það er hægt að taka það inn“, segir Elísabet.

Kollagen minnkar og hrukkur myndast

„Kollagen er helsta byggingarprótein líkamans. Það styrkir bein, vöðva, húð, liði, sinar og innri líffæri”, segir Elísabet. „Heilbrigður líkami  framleiðir kollagen, en um 25 ára aldur fer að hægja framleiðslunni, eða að meðaltali um 1,5% á ári. Þegar kollagen framleiðslan minnkar byrja vefir líkamans að veikjast og það fer að bera á ýmsum öldrunareinkennum. Við getum fundið fyrir auknum stirðleika og verkjum í liðum og liðamótum. Áhrifanna gætir einnig í húðinni því með minni kollagen framleiðslu fara hrukkur að myndast og teygjanleiki húðarinnar minnkar”, segir hún.

Hjálpar gegn beinþynningu

Ýmsir sérfræðingar og læknar hafa sagt að það sé ekki hægt að draga úr öldrunareinkennum með því að taka inn kollagen, en Elísabet telur að það geti hjálpað til dæmis þeim sem eru farnir að finna fyrir beinþynningu og bendir á rannsóknir sem lofa góðu, máli sínu til stuðnings. “Í  rannsókn þar sem konur með beinþynningu tóku þátt í tveimur hópum, tók annar hópurinn kalk fæðubótarefni með 5 grömmum af kollageni á dag en hinn hópurinn tók kalk  án kollagens. Rannsóknin stóð í 12 mánuði. Að þeim tíma loknum var marktækur munur á hópnum sem fékk kalk og kollagen fæðubótina og mældist það í minna próteini í blóði sem veldur beinþynningu. Konur sem tóku kollagen sýndu aukna beinþéttni um 7% í samanburði við samanburðahópinn,” segir hún.

Ráðlagður dagskammtur 5 grömm

„Kollagen er eitt af þeim efnasamböndum próteina sem eru líkama okkar mikilvægust”, segir Elísabet, sem telur að það sé ávinningur af því fyrir flesta sem eru orðnir fimmtugir og eldri að taka það inn og er ráðlagður dagskammtur 5 grömm.  Sjálf vinnur hún fyrir Feel Iceland sem er með kollagen, sem hún segir vatnsrofið, en það gerir líkamanum auðveldara að vinna það úr meltingarveginum. Það er í duft formi og unnið úr íslenskum fiski, sem Elísabet telur besta kollagenið, en við fáum einnig kollagen úr ákveðnum fæðutegundum, svo sem kjúklingaskinni, svínaskinni, nautakjöti og fiski.  Hún bendir á að kollagenið sem tekið er inn þurfi að vera hreint, annars verði árangurinn ekki nægur.

Var með gríðarlegt hárlos

Elísabet segist hafa mikinn áhuga á aminósýrum og segist sannfærð um að kollagen virki fyrir suma. „Ég var með gríðarlegt hárlos en það hætti þegar ég fór að taka inn kollagen. Það er vegna amínósýra í kollageninu sem hjálpa okkur að endurnýja hárserkina. Þegar við eldumst, töpum við hárserkjunum og hárið þynnist. Kollagenið veitir styrk og raka þannig að endurnýjun hárserkjanna verður auðveldari. “ segir hún og bætir við að hún hafi einnig fengið foreldra sína til að taka kollagen. Það byggi til að mynda upp slímhúð í þörmum og geti bætt svefnvandamál, svo fátt eitt sé nefnt.  „Eldra fólk á að bæta þessu við fæðubótina og ég tek það fram að sem næringarfræðingur myndi ég ekki mæla með einhverju, nema ég hefði 130% trú á því”.

Búin að fá alla vini sína til að taka kollagen

Elísabet hefur tröllatrú á áhrifamætti kollagens og  segir að allir vinir hennar séu farnir að taka inn kollagen og hún vitnar í alls kyns upplýsingaefni sem sýnir árangurinn af því að taka efnið inn. Hún segir að það geti hægt á og unnið gegn öldrunareinkennum líkamans að bæta kollageni við mataræðið.  „Það er einnig mikilvægt er að fylgja góðum lífsstíl og borða hreinan og góðan mat, auka til dæmis  neyslu á grænmeti og ávöxtum, drekka vatn,  muna eftir að taka inn Lýsi og hreyfa sig í hálftíma á. Góð fæðubót og réttur lífsstíll fara því vel saman og geta bætt lífsgæðin”,  segir hún.

Ritstjórn október 24, 2019 14:19