Ástarfeimni

Hlín Agnarsdóttir

Hlín Agnarsdóttir skrifar þessa hugleiðingu á vefsíðu sína og hún er birt hér með leyfi höfundar

Ég er smákvíðin þessa dagana. Það er nefnilega að koma út bók eftir mig. Sú þriðja sem byggir á minningum mínum og í þetta sinn minningum um ástarsambönd sem ekki gengu upp, sem aldrei fengu að láta ljós sitt skína. Ég hef alltaf verið feimin við ástina, alltaf hrædd við að viðurkenna ástartilfinningar, að láta aðra sjá að ég væri ástfangin, ekki síst þann sem ég var ástfangin af.

 Ef til vill fannst mér ég ekki eiga ástina skilið þegar hún bankaði upp á. Eða það sem er líklegri skýring, ég kunni ekki að elska af því ég lærði það aldrei. Engu að síður varð ég oft og mörgum sinnum skotin og stundum alvarlega ástfangin en óttaðist eitt umfram allt annað. Að verða svikin. Og ég var svikin oftar en einu sinni, oftar en tvisvar. Og ég sveik á móti til að jafna leikinn.

Það var í frumbernsku ástarinnar, þegar allt gekk út á það að finna sér kærasta sem allra fyrst og þá helst fyrir lífstíð. Og ég gerði það eins og allir hinir, hélt ég hefði fundið mér lífsförunaut um tvítugt. En það var feilspor, 25 ára gömul var ég orðin fráskilin kona. Eftir það byrjaði ástaruglið, ástarsorgin, ástleysið.

Í dag er ég alveg að verða sjötug og reynslan hefur kennt mér að elska á ný eftir alls konar boðaföll í einkalífinu, já og einlífinu ekki síst. Því ég er einlíf kona og hef verið það um langt skeið, hef ekki deilt hjónaherbergi með sama makanum í áratugi eins og margir. Hins vegar hef sofið ég hjá hinum og þessum eins og sumir bæðir giftir og ógiftir. Hef ekki viljað loka mig af í einu hjónaherbergi fyrir lífstíð. Eða ekki tekist það.

Reyndar er ég á þeirri skoðun og hef verið það frá því ég var ung kona að þegar bráir af okkur eftir mesta ástarbrímann, þegar fyrsta kafla tilhugalífsins lýkur, sé gott að hin ástföngnu hafi hvort sitt svefnherbergið en þó með nægilega stóru rúmi svo hægt sé að skríða upp í hjá hvort öðru þegar þörfin fyrir nánd og hlýju kallar. Svona eins og börnin gera, skríða upp í til foreldranna. Því hvað eru makarnir annað en framhald af þeim, staðgenglar ástarinnar þegar betur er að gáð eða þeim foreldrum sem aldrei voru til staðar, sem ekki gátu gefið þeim ástarhlýjuna?

En ég ætla ekki að gerast neinn hjónabandssérfræðingur hér, það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að makar vilji hafa hvor sitt svefnherbergi. Óþolandi allt þetta vesen kringum opin og lokaðan glugga, ljós og ekki ljós, svo ég minnist ekki á hrotur, endalausar byltur og ósjálfrátt tal upp úr svefni. Jafnvel hlátur eða vein.

Nú sofa flest hjón með storytel eða hlaðvarp í eyrunum til að þola við í sama rúmi endalaust. Minn er að hlusta Biblíuna núna, það tekur 90 klukkustundir eða rúmlega tvær vinnuvikur að hlusta. Já, þetta er eilífðarmál, þetta með ástina og hjónabandið eins og með guð og allt hans stúss. Tekur þó meira en tvær vinnuvikur að lesa sig til um ástina, hvað þá finna hana.

Um það að vera ástfangin, um ástarraunir, ástarþrá og ástarþráhyggju, já allt sem byrjar á ást, ástsýki, ástamál, ásthatur, ástarhelvíti og ástargeðveiki, um þetta allt og miklu meira fjallar nýja bókin mín Einlífi – ástarrannsókn sem kemur út í október hjá bókaforlaginu Króníku og er þriðja bókin í röð af sjálfsævisögulegum skrifum mínum.

Í þetta sinn er reyndar um bræðing að ræða, blöndu af skáldskap og sannsögu. Það er mjög í tísku um þessar mundir skilst mér í bókmenntunum. Og umdeilt sömuleiðis sé ég á bókmenntasíðum heimsblaðanna. Í mínum bræðingi kemur mannfræðingurinn Saga Líf kemur í heimsókn til rithöfundarins Eyju Bjarkar og leggur fyrir hana rannsóknarspurningu sem ég ætla ekki að ljóstra upp hver er. Í kjölfarið tekur mannfræðingurinn nokkur „eigindleg viðtöl“ við hana um eilífa ástarleitina.

„Eigindleg viðtöl eru rannsóknir sem ganga út á að reyna að fá dýpri skilning á ástæðum tiltekinnar hegðunar“ eins og segir á Wikipediu. Já, ástarrannsóknir eru orðin fræðigrein innan hugvísinda og mín Saga Líf er einmitt að reyna að fá dýpri skilning á ástæðum tiltekinnar hegðunar í ástamálum Eyju Bjarkar.

Þetta er metoo saga, mín femme fatale horfist í augu við sitt hættulega og ástlausa ástarlíf og þá drusluskömmun sem fylgdi í kjölfarið.  Já, ástin, ástin, hvað hún getur leitt okkur út í og afvegaleitt ekki síst. Og ég segi ykkur satt, ég er pínulítið kvíðin þessa dagana skiljanlega. Feimin – ástarfeimin –  því ástin sjálf, þessi raunverulega, sanna kemur líka við sögu.

En núna á þessum tímamótum mega allir vita það og sjá að jafnvel í lífi hinna lang-einlífu getur ástin bankað upp á. Þó ekki fyrirvaralaust, það þarf að hafa fyrir henni. Um leið og óttinn við svik og vonbrigði hverfur, birtist hún í öllu sínu veldi. Ástin. Hún hættir aldrei að vera til ekkert frekar en guð. Og við eigum öll hvorutveggja skilið, ástina og guð.

Ritstjórn september 27, 2023 15:40