Fyrir alla muni

Hlín Agnarsdóttir

Hugleiðingar Hlínar Agnarsdóttur leikstjóra

Þegar mér líður illa og þá meina ég illa, einkum á sálinni, deyfi ég ekki sársaukann með lyfjum, hvorki læknadópi né eiturlyfjum, ekki einu sinni áfengi, hvað þá sígó, ekki mat eða sætindum. Hef aldrei verið sælgætisgrís eða goskerling. Nei, ég fer í heimilisbúðir og geng í leiðslu á milli fallegra heimilismuna. Ég skoða alls konar húsgögn og allt sem tilheyrir innréttingum. Ég er sérstaklega hrifin af eik og strýk gjarnan húsgögnum sem eru smíðuð úr þeim viði.

 Heimilisbúðirnar eru mín fíkn og nautn. Ég þukla á áklæðum, gardínum og mottum. Læt fingurgóma og augu leika um efnisleikann og ímynda mér hvernig hægt sé að raða öllu saman og skapa hlýlegt heimili. Lampadeildirnar eru sérstakt áhugamál, óbein lýsing, engin loftljós, hliðarlýsing eða undirlýsing til að skapa stemningu. Bastdeildin höfðar líka sterkt til mín, tágakörfur og allt sem gert er úr bambus. Gæti mín þó á að ofhlaða ekki. Keramikið kemur þar á eftir, ég sogast að fallegu og litríku leirtaui og glösum. Handleik bolla, skálar, vasa og kertastjaka. Og við þetta sefast ég og vanlíðan mín hverfur. Það nægir að horfa og snerta, ég þarf ekki að kaupa nema þegar mig bráðvantar eitthvað inn á heimilið.

Í seinni tíð líður mér betur og betur og hef náð ágætis tökum á sálartetrinu sem oft var í molum hér áður fyrr. Það þýðir auðvitað að ferðum mínum í heimilisbúðir hefur fækkað en þó hef ég þurft á þeim að halda upp á síðkastið. Ég er nefnilega að búa mér til heimili enn eina ferðina og fátt er jafn skapandi og koma sér fyrir. Ég er komasérfyrir konan þessa dagana. Þegar ég tel saman öll heimilin sem ég hef búið til um ævina, reynast þau vera hátt á annan tug. Að búa til nýtt heimili er á við að setja upp leiksýningu. Allt þarf að vera á sínum stað og ganga upp. Nú tel ég mér trú um að ég sé endanlega komin heim en ég þori ekki að lofa því. Stríð og óáran gætu breytt því en ég get þó hlaupið niður í kjallara þar sem er að finna neðanjarðarbyrgi.

Ég er að minnsta kosti komin út í heim, því gatan sem ég bý við núna og allt hverfið (sem heitir Liljan), angar af öllum heiminum. Í húsinu við hliðina eldar kínversk kona mat frá ýmsum löndum í  Austur-Asíu. Mér finnst kjúklingur með hnetusósu bestur. Niður á horni eru Grikkir með matvöruverslun og selja auðvitað gríska ólífuolíu og jógúrt. Þegar ég hitti hana Vassiliki frá Saloniki sem rekur búðina ásamt manni sínum, fæ ég tækifæri til að æfa mig í grísku sem ég eitt sinn lærði og það er búið að bjóða mér í gríska félagið þar sem alltaf er dansaður grískur dans á þriðjudagskvöldum. Kominn tími til að æfa sig í honum þótt hún Hafdís í Kramhúsinu hafi reynt að halda syrtaki dansinum við öll þessi ár sem ég hef hoppað hjá henni. Nú á ég bara eftir að finna nýtt Kramhús í hverfinu en þó jafnast ekkert á við Kramhúsið hennar Hafdísar sem er um það bil það einasta sem ég sakna frá Íslandi.

Best er þó að vera laus við bílinn og fara fótgangandi í matvörubúðina að vísu með tösku á hjálparhjólum sem heitir dramaten. Taskan heitir þó ekki eftir Dramaten þjóðleikhúsi Svía, heldur er samsett úr orðunum dra og mat þ.e. kona dregur matinn heim í hús, dregur björg í bú. Gæti því heitið Búbjörg upp á íslensku sem er nú samt ægilega nítjándualdarlegt orð. Eða kannski væri Dræsa betra? Já, nú gengur allt út á að vera á tveimur jafnfljótum og notast eingöngu við almenningssamgöngur þegar þarf að bregða sér dagleið til stórborgarinnar. Á lestarstöðina er aðeins tíu mínútna gangur og strætóarnir á flugvöllinn eru þar líka ef ég þyrfti skyndilega að æða til ísalandsins góða, í faðm blárra fjalla og oní heita laug.

Hingað kom ég fyrst sem ung kona á menntabraut og héðan lágu allar mínar leiðir út í heim. Hér kynntist ég fyrst fólki frá öðrum heimshlutum en Norðurlöndum, flóttafólki frá herforingastjórnum í Grikklandi og Chile, innflytjendum frá Sýrlandi og Eritreu. Hér var suðupottur heimsins og nú er ég komin í hann aftur. Reynslunni ríkari af áratugadvöl á einangraðri eyju á norðurhveli jarðar. Reynslu sem ég nýti mér nú þegar ég hverf inn í hellinn minn, konuhellinn, ekki bakvið eldavélina eða fyrir framan hlóðirnar, heldur við tölvuna, vinnuborðið mitt og alla munina sem minna mig á að einu sinni átti ég annað líf. Ég tók allt með mér hingað, var reyndar búin að skera mikið niður en gat ekki verið án bókanna sem nú bíða þess að fá pláss í nýjum hillum, bæði lesnar og ólesnar.

Já, þegar mér líður illa leita ég á náðir heimilisbúðanna til að skapa mínar eigin heimilisbúðir, griðastað fyrir sálina, frið frá hávaða, glundroða og óróleika samtímans. En fyrir alla muni, ekki halda að ég sé orðin einhver hellisbúi, einangrunarsinni, félagsskítur. Nei, hér eru tækifærinn næg til að halda andanum lifandi með öðru fólki og löngu horfnum konungum sem hvíla lúin bein inni í háum haugum.

Þeir tóku eitt og annað með sér í ferðina löngu þessir forfeður, ýmsa muni, að vísu ekki frá IKEA. Það gerði ég ekki heldur. Enda hefur mér sjaldnast liðið betur og engin lyf í augsýn. Brátt fer ég í lestina og bruna á frumsýningu á íslensku myndinni Godland. Það er víst ekki hægt að hætta að vera Íslendingur erlendis.

Þessar hugleiðingar Hlínar eru birtar með leyfi hennar, en þær er að finna á  heimasíðu hennar. Sjá hér.

Hlín Agnarsdóttir mars 20, 2023 07:00