Óreiðan í tilverunni

Hlín Agnarsdóttir

Hlín Agnarsdóttir skrifar þessa hugleiðingu á vefsíðu sína og hún er birt hér með leyfi höfundar. 

 

Ég varð sjötug á árinu sem leið en ekki fékk ég neinn jeppa í sjötugsgjöf eins og mamma þegar hún varð sjötug. Nei, ég seldi skrjóðinn minn og fékk mér gönguskó fyrir andvirðið. Svokallaða Uppsalaskó. Satt best að segja var það ein af ástæðunum fyrir því að ég flutti frá Íslandi, nefnilega sú að þurfa ekki að eiga bíl.

Á Uppsalaskónum þramma ég nú yfir sjó og land í hvaða veðri sem er. Ekkert er jafn nauðsynlegt og góðir gönguskór. Þeir halda heilanum við og ef heilinn er við góða heilsu, er líkaminn það sömuleiðis. Og heilinn hefur verið sístarfandi allt árið. Mesta afrek ársins var líklega að koma mér fyrir í nýjum heimkynnum og ljúka við bók.

„Ertu nú hætt að skrifa um sjálfa þig,“ spurði mig útvarpskona milli jóla og nýárs þegar ég sagðist vera búin að loka ákveðnum þríleik um ævi mína. „Hættir það nokkurn tíma?“, svaraði ég á móti. Allt sem höfundar fjalla um snýst meira eða minna um hvernig þeir skilja sjálfa sig í samskiptum við aðra og heiminn í kringum sig. Allar bækur eru einhvers konar tilraun til að efna til samtals um mennskuna í öllum sínum myndum, tilraun til að skilja óreiðuna í tilverunni.

Og talandi um óreiðuna, ég er nýbúin að horfa á heimildamyndina Moonage Daydream um David Bowie þar sem hann segist ganga út frá kaosinu eða óreiðunni í allri sinni listsköpun. Óreiðan sem Bowie talar um minnti mig á titil á leikriti eftir Lars Norén, Kaos är granne med gud (Óreiðan er nágranni guðs) sem er reyndar tilvitnun í sænska skáldið Stagnelius. Allt streymir þetta fram hlið við hlið í tíma og rúmi, óreiðan og guð. Guð er kannski möguleiki til að koma stjórn á óreiðuna, sá tími sem okkur er skammtaður á þessari jörð.

Sem minnir mig á annað leikrit eftir Norén Tiden är vårt hem (Tíminn er heimili okkar) sem ég sá í Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi í fyrra og var fyrir mér leiksýning ársins. Leikritið er skrifað 1994 og gerist upp í sveit um sumar eins og annað leikrit eftir Norén, Löven í Vallombrosa (Laufin í Skuggadal) sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu 2001. Í báðum verkunum er fólk í sumarfríi að rifja upp líf sitt, reyna að átta sig á óreiðunni, hvar það sé statt í sjálfu sér, tímanum, tilfinningum og minningum. Bæði verkin minna á leikrit og persónur Tsjékovs sem eru engin smá meðmæli með verkum Norén sem féll frá 2021 og var oft orðaður við Nóbelinn eins og norski nágranni hans Jon Fosse.

Annars hefur leikhúsáhuginn dvínað hjá mér á undanförnum árum af ástæðum sem ég ætla ekki að skrifa um hér. Mér finnst kvikmyndirnar einfaldlega skemmtilegri þessi dægrin. Reyndar sagði ég upp öllum streymisveitum á árinu sem leið og læt mér nægja að horfa á kvikmyndaúrvalið í sænska sjónvarpssarpinum eða fara í bíó. Síðast horfði ég á norsku myndina Versta manneskja í heimi sem var algert dúndur og hreyfði aldeilis við mér, brillant handrit og leikur, bæði fyndið og sorglegt, frumleg nálgun á klassísku þema, leitina að sjálfri sér og ástinni. Það er svo hollt að láta hreyfa við sér, láta listina snerta sig, bæði í gamni og alvöru. Norðmennirnir sko, þeir eru með þetta.

En það sem hreyfði almennilega við tilfinningum mínum á árinu sem leið var tónlistin, einkum tónleikar Sinfó með verkum Önnu Þorvaldsdóttur í Hallgrímskirkju í október. Þeir urðu einhvers konar opinberun, hátindur í sköpun. Anna er frægust í útlöndum og þykir algert kraftaverk og ég er ekki hissa.  Það eru fyrst og fremst listamennirnir sem setja Ísland á heimskortið eins og Hallgrímur Helgason orðaði það. Án listar væri líf okkar ansi fátæklegt.

Ég sá sýningu Laurie Anderson á Moderna museet í Stokkhólmi og hlustaði mikið á tónlistina hennar í framhaldi. Hún er auðvitað risi í samtímalistinni og hefur margar listgreinar á valdi sínu. Ekki er hún nein felumynd eða einfari í listinni eins og hann Jói Píp vinur minn. Sýning hans á rituðum myndum í Hafnarborg var viðburður. Ríflega sjötugur stígur þessi fyrrum pípulagningamaður fram á sjónarsviðið með myndlist sem er ekki lík neinu sem við höfum áður séð.

Af bókum ársins vil ég ekki nefna neina eina íslenska af hættu við að móðga höfundana sem ekki eru nefndir en ég les aðallega eftir konur, nú síðast síðustu bók Judith Hermann, Heima. Konurnar eru kjarninn í bókmenntum heimsins á okkar dögum og það er feykigaman að sjá hvernig þær spretta fram á bókmenntasviðið hver af annarri. Við þurfum engu að kvíða um framtíð bókmennta á meðan konurnar halda áfram að skrifa.

Og ekki svíkur hlaðvarp og útvarp í allri sinni dýrð bæði íslenskt og erlent. Mitt uppáhald er Filosofiska rummet eða Heimspekiherbergið í sænska útvarpinu.  Síðast þáttur ársins sem leið fjallaði um hlutverk og þýðingu samtalsins í mannlegu samfélagi. Og þar var talað um leiðir til að tjá skoðun sína án þess að særa eða móðga. Þótt ég sé ósammála vini mínum um skoðanir hans á lífi og list, þurfum við ekki að hætta að vera vinir.

Á nýju ári er kannski mest viðeigandi að hlusta betur á hvert annað þótt við skiljum ekki allt, leyfa óreiðunni að vera nágranni guðs. Með það í huga ætla ég að þramma út í búð á Uppsalaskónum sem eru negldir því það er fimbulvetur hjá mér þessa dagana og hálkan lúmsk. Ég má ekki við því að detta svona í upphafi árs. Þrátt fyrir árin sjötíu er heilinn við góða heilsu og hjartað líka, held ég. En hvað veit ég svo sem?

Hlín Agnarsdóttir janúar 18, 2024 17:53