Á Íslandi er algengt að einhvers konar æði gangi yfir og allir þurfi að eignast einhverja tiltekna muni. Hér eru til dæmis sárafá heimili sem ekki skarta Omaggio-vasa frá Kähler. Á Bretlandi er á hinn bóginn mjög sjaldgæft að margir fáir æði fyrir einhverju tilteknu, sérstaklega hvað varðar heimilisprýði, enda þykja heimili þar fínni eftir því sem innanstokksmunir eru eldri. En það lá við að Bretar fetuðu í fótspor Íslendinga þegar skyndilega myndaðist ótrúlegur áhugi á umdeilanlegri keramíkhönnun. Ástarhandföngin eða Love Handles eftir Anissu Kermiche þykja flott híbýlaprýði en líka skemmtileg leið til að tjá húmor í innanhússhönnun.
Vasinn er einfaldlega eftirgerð af rassi og mjöðmum með tveimur höldum. Þau vísa auðvitað til þessa þykka efsta hluta mjaðmanna sem margir kunna ákaflega vel við að grípa um meðan þeir tjá ást sína á makanum. Vasinn, eða réttara sagt vasarnir því um nokkrar útgáfur er að ræða, hafa selst eins og heitar lummur á netinu og eru rifnir út í þeim verslunum sem bjóða þá til sölu.
Höfundurinn Anissa Kermiche er lærð í verkfræði og tölvunarfræðum. Hún vinnur öll sín verk í 3D og hóf hönnunarferil sinn í skartgripahönnun. Hún er velþekkt fyrir fallega perlugripi og eyrnalokka sem kalla mætti skúlptúra en hefur nú tímabundið hætt að vinna með þá í kjölfar velgengni vasanna. „Ég heyri alltaf það sama frá viðskiptavinum,“ segir hún um vasann. „Hann lífgar upp á herbergi og fær alla til að brosa.“ Hugmyndin kviknaði þegar hún var að leita að einhverju til að skreyta eigin íbúð en fann ekkert sem henni líkaði.
Hlutirnir þurfa að vera fullkomnir
Hún segir reyndar að það hafi tekið hana smátíma að fullvinna vasana. Það hafi alls ekki verið einfalt að finna út hve stóran hluta af mjöðmunum beri að sýna og hvort naflinn ætti að vera með og þá hvar ætti að koma honum fyrir. Eins hafi verið frekar erfitt að laga fótleggina að nýju hlutverki eða því að taka við blómastilkum og leyfa knúppunum að njóta sín. Anissa hannaði í 3D og segir að hvert minnsta smáatriði skipti máli. Það geti hreinlega skipt sköpum um hvort varan nær vinsældum eða ekki. „Ég get ekki látið neinn hlut frá mér nema ég bókstaflega dái hann og finnist hlutföll hans fullkominn.“
Mjög fljótlega varð henni ljóst að vel hafi tekist til vegna þess að þegar vinir hennar heimsóttu hana og sáu vasann langaði þá í einn slíkan. Hún framleiddi þess vegna takmarkað upplag til að prófa sig áfram og þegar það seldist upp var framleitt meira. Vasarnir eru handunnir á verkstæði í Portúgal. Nú hafa bæst við fleiri vörur í sama stíl, þær heita The Jugs-drykkjarkanna, Breast Friend-vasi og Popotin-pottur og kertastjakar.
Anissa telur að velgengni munanna hennar eigi hún ekki hvað síst Instagram að þakka. Þeir hafi komið á markað þegar fólk var mjög upptekið af því að sýna myndir frá heimili sínu á þeim miðli og gefa góð ráð varðandi innanhússhönnun. Það hafi gert það að verkum að sífellt fleira fólk leggi mikið upp úr því að eiga falleg heimili og skapa þar persónulegt andrúmsloft. Áhrifavaldar hafi valið vasann hennar og gefið honum rými í færslum sínum og tístum.
Vinnur með fleiri líkamshluta
Hún veit að þeir sem helst sækjast eftir Ástarhandföngunum eru yngra fólk. Ungt fólk að byrja að búa og unnendur hönnunar eru miklir aðdáendur hennar og kjósa að hafa gripi eftir hana á áberandi stað inni á heimilinu. Hún hefur unnið fleiri gripir sem byggja á sömu grunnhugmynd og meðal annars eru fætur í aðalhlutverki. Hún hafði til að mynda mikið fyrir því að finna út hvernig hún gæti búið til vasa þar sem krosslagðar kvenfætur koma við sögu. Gripir hennar hafa ekki náð alveg sömu vinsældum hér og úti en eftirgerðir af þeim hafa þó verið sýnilegar víða.
„Anissa telur að velgengni munanna hennar eigi hún ekki hvað síst Instagram að þakka. Þeir hafi komið á markað þegar fólk var mjög upptekið af því að sýna myndir frá heimili sínu á þeim miðli og gefa góð ráð varðandi innanhússhönnun.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.