Áttræður og fullur af sköpunarkrafti

Gísli B., eins og hann er gjarnan kallaður, er Reykvíkingur og hefur búið í höfuðborginni fyrir utan árin þrjú sem hann var við myndlistarnám í Stuttgart í Þýskalandi. Gísli er án efa einn kraftmesti grafíski hönnuðurinn sem Ísland hefur alið og óhætt er að fullyrða að allir þeir sem hafa útskrifast úr grafískri hönnun á Íslandi hafi hagnast nokkuð á leiðsögn hans. Gísli kenndi allar götur frá því hann útskrifaðist sjálfur 1961, eða í rúm fimmtíu ár en samhliða því stofnaði hann auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar sem heitir Hvíta húsið í dag. Ári eftir að hann stofnaði auglýsingastofuna stofnaði hann líka grafíska deild í auglýsingateiknun í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Sú deild er nú deild innan Listaháskóla Íslands í grafískri hönnun þar sem Gísli kenndi þar til fyrir sjö árum. Hann hefur með öðrum orðum verið óþreytandi við að efla vitund almennings um starfsgrein sína og í fyrra kom út merkileg bók um merkjahönnun hans sem heitir Merki og form og kom út á vegum Listaháskólans og Háskólaútgáfunnar. Bókin er ætluð nemendum í Listaháskólanum en merkjahönnun hefur verið rík á starfsferli Gísla. Hann hefur, ýmist einn eða með öðrum, komið að hönnun merkja á borð við merki Ríkisútvarpsins, Norræna hússins, Landbúnaðarháskólans, Hjálparstofnunar kirkjunnar, Hjartaverndar og mörgum fleiri.

Gísli varð áttræður í fyrra og eftir að hafa rekið auglýsingastofu í áratugi gekk hann út úr GBB auglýsingastofu 1986 og hefur síðan starfað einn. Hann er einn af þeim sem eru svo lánsamir að hafa áhugamál sem beið á meðan hann sinnti störfum sínum en nú þegar efri árin eru hafin getur hann snúið sér að því heilshugar. Gísli er mikill áhugamaður um hesta og er höfundur að stórri og mikilli bók um íslenska hestinn, ásamt Hjalta Jóni Sveinssyni, og hefur ferðast mjög mikið um landið á hestum. 1974 – 2002 fór Gísli á hestbaki um landið sem fararstjóri og leiðsögumaður fyrir Íshesta allmargar ferðir. “Nálægð mannsins við umhverfi sitt verður varla meiri,” segir hann. “Ólík birta frá þungum skýjabökkum til ótal bjartra geislatóna heilla mig. Vetur, sumar, vor og haust – alltaf eru næg tilefni ti að skoða og njóta. Sama má segja um landið sjálft, landslagið, gróið land sem ógróið. Þetta eru endalausir og þó afmarkaðir akrar, sléttur, mýrar, flóar, sandar, heiðar, hafið, vötn og breiðar ár sem mynda forgrunn og upp af því rís við sjóndeildarhring tignarlegt fjall, fell, eyja, mögnuð ský og litir veðursins sem loka myndinni. Allt verður þetta tilefni til sköpunar og þessu vil ég koma til skila,” segir Gísli og í myndum hans má klárlega sjá hvað það sem sem hann hefur upplifað á ferðum sínum og hefur örvað listamanninn til dáða. Gísli talar um að litaflóra íslenskrar náttúru hafi verið að taka breytingum á síðustu árum. “Allur gróður er orðinn meiri eftir mörg “góð” sumur og gróður þekur nú sanda sem áður voru svartir,” segir hann. “Nýjar nytjajurtir eru komnar til sögunnar eins og bygg, hafrar, repja og súrur, þessar jurtir eru litaglaðar og akrarnir bera þess merki. Fjöldi tóna er í gulu, grænu og okkurlit yfir í brúnt og rautt.”

Síðustu árin hefur Gíslu fengist við myndlist sína og var með stóra og mikla vinnustofu sem hann hefur því miður ekki lengur. Hann er því með vinnuaðstöðuna heima og í stofunni má sjá myndir eftir hann undir öllum borðum og við veggi því hann þarf reglulega að virða myndirnar fyrir sér áður en þær eru fullgerðar og hann ánægður. Myndir eftir hann eru til sýnis á hóteli dóttur hans 360°Panorama Hóteli  í Hnaus í Flóa á jörð fjölskyldunnar þar sem Gísli vinnur að skógrækt.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 4, 2019 07:13