Ávöxtun fjármuna á eftirlaunaaldri

Björn Berg Gunnarsson

Björn Berg Gunnarsson

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB skrifar
Hvernig er skynsamlegast að ávaxta ævisparnaðinn þegar byrjað er að nota hann til daglegrar neyslu? Við hjá VÍB aðstoðum marga okkar viðskiptavina við að byggja upp sparnað og eignir en nálgunin þarf að vera önnur þegar starfsævi er lokið og gengið er á sparnaðinn. Þá er ekki lengur svigrúm til að þola lækkanir og miklar sveiflur heldur er umfram allt lögð áhersla á öryggi og jákvæða raunávöxtun (að ávöxtun haldi í við verðbólgu).

Hvar er öryggið í dag?

Einkum er litið til þriggja þátta þegar leitað er að öryggi í ávöxtun fjármuna:

  • Hversu mikið getur eignin sveiflast í verði?
  • Hversu líklegt er að sá sem tekur við peningunum geti ekki borgað til baka?
  • Er eignunum dreift nógu vel?

Á lífeyrisaldri kjósa flestir að minnka sveiflur í eignasöfnum sínum og koma fjármununum fyrir þar sem stöðugleiki er meiri. Algeng eignadreifing er milli ríkisskuldabréfa og innlána, verðtryggðra og óverðtryggðra.

Hvað með TR og skattinn?

Margir hafa áhyggjur af 20% fjármagnstekjuskatti og skerðingum Tryggingastofnunar Ríkisins (TR) vegna vaxta og ávöxtunar. Gott er að hafa í huga að frítekjumark vaxta hjá TR nemur 98.640 kr. á mann á ári og hjá skattinum er slíkt frítekjumark 125.000 kr. á mann á ári. Það þýðir að hjón sem ávaxta 6 milljónir króna á hefðbundnum bankareikningi fá væntanlega allan fjármagnstekjuskattinn endurgreiddan og verða að öllum líkindum ekki fyrir skerðingu hjá TR vegna vaxtanna. Hærri upphæðir geta skert bætur, en minna en flestir telja. Gott er að kynna sér áhrif vaxta á bætur með að nota reiknivél lífeyris á vef TR, www.tr.is.

Að nota vextina

Á lífeyrisaldri kemst oft mikil hreyfing á fjármuni fólks. Sumir minnka við sig húsnæði og eignast við það lausafé, öðrum tæmist arfur eða selja fyrirtækið sitt og séreignarsparnaður er laus til úttektar. Þá vaknar oft spurningin hvað skal gera við fjármunina.

Þeir sem ekki vilja ganga á höfuðstólinn geta með tiltölulega einföldum hætti skammtað sér áætlaða vexti inn á tékkareikning um hver mánaðamót. Það gera margir og líta á sem eins konar auka-lífeyri. Þetta geta bankarnir auðveldlega framkvæmt og er algengt að viðskiptavinir einkabankaþjónustu nýti sér það. 10 milljóna króna inneign gæti skilað um 25.000 króna vöxtum á mánuði miðað við núverandi vaxtastig og það getur munað um slíkt þegar lífeyrisgreiðslur eru lágar.

Það er auðvelt að leita sér ráðgjafar

VÍB veitir upplýsingar og ráðgjöf um fjármál við starfslok í 440-4900, vib@vib.is eða með persónulegri ráðgjöf á Kirkjusandi. Ítarlegar upplýsingar má auk þess finna á starfslokasíðu VÍB www.vib.is/60.

 

Ritstjórn maí 15, 2015 12:01