Hvernig hægt er að spara í verðbólgunni  

Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur eru flestir kunnugir verðbólgudraugnum, sem nú hefur vaknað upp á ný og verðbólgan hér á landi mælist um 10%. Ítrekaðar vaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki dugað til að kveða drauginn niður.  Við verðum flest vör við verðhækkanir á matvöru og öðrum nauðsynjum og fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun, halda launin tæplega í við hækkanirnar.  En blaðamaður Lifðu núna datt um grein á netinu, frá aarp í Bandaríkjunum þar sem veittar eru ráðleggingar um það hvernig hægt er að spara í dýrtíðinni,en þar mælist verðbólgan rúmlega 7%.  Sparnaðarráðin eru þannig að það er auðvelt að fara eftir þeim. Menn þurfa ekki að umturna lífi sínu til að spara. Ráðin koma hér í styttri útgáfu og að hluta staðfærð.

Eldri borgara afslátturinn og sparnaðarráðin

Fyrst eru nefndar í greininni nokkuð augljósar leiðir til að spara, svo sem eins og að skera niður útgjöld, og muna eftir afslættinum sem er víða veittur eldri borgurum. Hann telur þegar upp er staðið. Það er rétt að benda fólki hér á landi á afsláttarbókina frá Landssambandi eldri borgara, en hana fá allir sem eru í félögum eldri borgara.

En hérna koma átta hagnýt sparnaðarráð úr smiðju aarp, sem ráðleggur fólki raunar líka að leggja féð sem sparast inná reikning vegna óvæntra útgjalda, skyldi efnahagslífið taka krappa dýfu á árinu.

          1.Komið böndum yfir matarkostnaðinn

Það er hægt að gera til dæmis með því að útbúa matseðla fyrir vikuna og hengja þá uppá töflu, eða bara á ísskápshurðina þar sem þeir blasa við. Þegar matseðlarnir liggja fyrir er auðvelt að gera lista yfir matinn sem þarf að kaupa í vikunni og svo er halda sig við hann. Það er nefnilega oft alveg ótrúlegt hvað ratar í innkaupakörfuna þegar ekkert plan er í gangi yfir það sem á að kaupa í matinn fyrir heimilið.

Það auðveldar sparnaðinn að greiða með peningum í matvörubúðinni, segir í greininni. Fólki er líka ráðlagt að fara í fleiri en eina búð og bera saman verð.

Líka að kaupa vörur sem alltaf þurfa að vera til og sem geymast, í stærri pakkningum. Það getur til dæmis verið dósamatur, kaffi, te, hveiti, sykur og þvottaefni . Það er kostur að eiga slíkar vörur á lager, meðan verðið á þeim  heldur áfram að hækka í búðunum. En auðvitað eru takmörk fyrir því hversu stór lagerinn getur orðið.

  1. Dragið úr óþarfa útgjöldum

Að fara út að borða og panta tilbúinn mat til að borða heima getur gert lífið auðveldara, en ekki endilega fjármálin, segir í  greininni. Þessi útgjöld safnast saman og ef fólk kaupir sér einn kaffibolla á dag sem kostar milli 600 og 700 krónur, er það farið að eyða hátt í 20 þúsund krónum á mánuði, eingöngu í kaffið. Ráðleggingarnar ganga ekki út á að fara aldrei út að borða, eða kaupa aldrei tilbúinn mat og kaffi, en það er hægt skera slík útgjöld verulega niður.

  1. Minnkið fatakaupin

Það er alltaf gott að gera góð kaup, nema fólk geti ekki setið á sér, ef það sér afslætti eða útsölur í verslunum og þurfi þá  alltaf að kaupa eitthvað. Þeir sem eru þar staddir verða að reyna að leiða útsölurnar hjá sér. Afþakka tilkynningar frá verslunum, sem sendar eru út til viðskiptavina í sms-i  með alls kyns tilboðum. Það er ekki ástæða til að skera allt niður, en fólki er ráðlagt að kaupa einungis það sem það vantar og rúmast innan þeirra fjárhagslegu marka sem það ræður við. Það sparar líka umtalsvert fé að kaupa notuð föt í Rauðakross búðunum, ef fólk þarf á meiri fötum að halda. Líka að fara vel yfir fataskápana og draga fram falleg föt sem hafa verið í geymslu og hressa uppá þau með skemmtilegum fylgihlutum.

  1. Segið upp áskriftum sem ekki eru notaðar

Síðan eru það áskriftirnar. Er fólk með áskriftir að efni sem það notar aldrei?  Blöðum og tímaritum? Það er eins og að henda peningum út um gluggann.  Það er um að gera að skera þær niður eins og mögulegt er. Og hvað er fólk  tilbúið að verja miklum peningum í efnisveitur og erlendar sjónvarpsstöðvar?  Það er einnig hægt að lækka kostnað við bókakaup, með því að nota bókasöfn.

  1. Dragið úr kostnaði við síma og farskipti

Það er ástæða til að fara reglulega yfir fjarskiptaútgjöldin sín. Athuga hvort verið er að borga of mikið fyrir símann eða netið. Það er ástæða til að fylgjast með tilboðum síma- og fjarskiptafyrirtækja og athuga hver býður best og þeir sem hringja  mikið í  upplýsinganúnmer eins og 1818 og 1819, ættu líka að athuga hvað það kostar, því það getur hækkað símareikninginn ótrúlega mikið!!

Það er heldur ekki ástæða til að kaupa sér nýjan farsíma í hvert skipti sem ný gerð kemur á markaðinn.

Fólk ætti að fara reglulega yfir hversu margar sjónvarpsstöðvar það er með áskriftir að og hvort það horfir reglulega á þær. Ef það eru margar stöðvar sem aldrei er horft á, er ástæða til að segja öllum „pakkanum“ upp og athuga hvort hægt er að fá færri stöðvar á lægra verði. Sama gildir um efnisveitur, sem margir eru áskrifendur að, hversu mikið er verið að nota þær?

  1. Athugið hversu miklar tryggingar þið eruð með

Margt fólk sem er komið yfir miðjan aldur, greiðir þó nokkrar upphæðir í tryggingar. Það er ástæða til að athuga vel hvort tryggingarnar rekast á. Er ferðatrygging í heimilistryggingunni  og kannski líka í kredit kortinu?  Það er góð regla að fara árlega yfir tryggingarnar og sumir fá tilboð í þær á hverju ári, til að vera öruggir um að þeir séu ekki að borga of mikið.

  1. Skoðið kostnað við greiðslukort og þjónustugjöld

Það gildir svipað um greiðslukortin og jafnvel þjónustugjöld bankanna. Er fólk með rétta kreditkortið, eða er það kannski með kort sem það greiðir of mikið fyrir? Er hægt að lækka þjónustugjöldin sem fólk greiðir bankanum?  Þetta kann að skipta  máli úti í heimi, en í hinu íslenska fákeppnisumhverfi eru vextir og þjónustugjöld bankanna hins vegar mjög svipuð og því erfiðara að lækka þjónustugjöld sín.

  1. Að tímasetja ferðalögin rétt

Það skiptir máli hvenær fólk ferðast. Það er mun ódýrara að ferðast utan hefðbundins sumarleyfatíma til dæmis. Það getur munað töluvert miklu bæði á flugfargjöldum og hótelum. Það má sjá að flug og hótel, hækka 1.maí og þess vegna er apríl hugsanlega betri tími  til að skreppa í ferðalag. Fólki er bent á að nota flugpunktana sína til að spara, ef það á flugpunkta og gæta að því að þeir gleymist ekki og renni út. Íslenskar ferðaskrifstofur bjóða iðulega sólarlandaferðir á lágu verði, síðari hluta vetrar, áður en aðal sumarleyfatíminn gengur í garð og einnig á haustin . Það getur komið sér ágætlega fyrir þá sem eru komnir á eftirlaun og eiga auðveldara að fara með skömmum fyrirvara, þegar slík tilboð detta inn.

Ritstjórn mars 21, 2023 07:00