Áttu fjársjóð í frystinum?

Að henda mat sem hefur dagað upp í frystinum er eins og að fleygja peningum út um gluggann, segir í grein sem birtist á vef danska ríkisútvarpsins, dr.dk. Það væri ef til vill ekki úr vegi að líta í frystinn á heimilinu og athuga hvort þar er ekki eitthvað ætt og nýta það áður en það verður óætt.

Íslendingar eru örugglega ekki eftirbátar dana þegar kemur að matarsóun eða því að grauta öllu saman í frystinum. Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Danmörku átti annar hver fullorðinn dani mat í frysti í meira en ár áður en honum var hent í ruslið. Það sem gleymdist að borða var kjöt og unnar kjötvörur í 48 prósentum tilvika, afgangar af ýmsu tagi í 47 prósentum tilvika, grænmeti í 31 prósenti tilvika og brauðmeti og sætabrauð í 22 prósentum tilvika.

Ástæðan fyrir því að við notum ekki þær matvörur sem er að finna í frystinum er að við gleymum matnum sem þar er að finna, margir gleyma líka að skrifa utan á umbúðirnar hvenær maturinn var frystur og svo er matnum pakkað þannig að ekki er nokkur leið að sjá hvað er verið að geyma.

Næringarfræðingurinn Marie Steenberger lumar á nokkrum góðum ráðum varðandi frystinn. Hún ráðleggur fólki skipuleggja sig. Setja matarafganga í sér hillu, skúffu eða hólf, gera það sama við hrávörur, grænmeti og ávexti. Nota gegnsæjar umbúðir og merkja þær með dagsetningu. Með þessu móti sé fljótlegt að finna það sem til er í frystinum. Marie ráðleggur fólki að líta í frystinn áður en það fer út í búð að kaupa í matinn. Með því vinnst tvennt, fólk sóar ekki mat og getur sparað umtalsverðar upphæðir.

 

Ritstjórn september 14, 2015 15:34