Bað Guð að blessa Guðmund

Á þessari mynd má sjá aðstandendur sýningarinnar Jesus Christ Superstar, sem var sett upp í Austurbæjarbíói í Reykjavík  fyrir rúmum 40 árum, eða árið 1973. Guðmundur Benediktsson sem þá var söngvari hljómsveitarinnar Mána frá Selfossi fór með aðalhlutverkið í söngleiknum. Hann segist alltaf muna ártalið, því það byrjaði að gjósa í Vestmannaeyjum á æfingatímabilinu. Pétur Einarsson sem var leikstjóri er Vestmannaeyingur og vegna gossins var gert hlé á æfingum.

Leist misjafnlega á tiltækið

Það kom Guðmundi nokkuð á óvart að vera beðinn um að syngja hlutverk Krists í sýningunni og hann segist hafa frétt seinna að Jóhann G. Jóhannsson hefði verið búinn að hafna hlutverkinu. Kirkjunnar mönnum leist misjafnlega á að færður væri upp rokksöngleikur um píslarsöguna og Guðmundur segist hafa heyrt að séra Árelíus Níelsson hafi í sunnudagspredikun, beðið Guð að blessa þennan unga mann sem hefði tekið að sér að leika frelsarann.

Júdasi tókst að hengja sig

Á myndinni eru frá vinstri, Tim Rice sem samdi textana við lögin, Guðmundur og Pálmi Gunnarsson eru við hlið hans, síðan Andrew Loyd Webber sem samdi tónlistina í verkinu og lengst til hægri er Pétur Einarsson. Pálmi fór með hlutverk Júdasar í verkinu og á einni sýningunni vildi svo illa til að hengingarbúnaðurinn sem tilheyrði hlutverkinu, fannst ekki. Það varð uppi fótur og fit, en þetta bjargaðist á endanum, Júdas hengdi sig og var dreginn upp af sviðinu. Shady Owens fór með hlutverk Maríu Magdalenu í þessum fræga söngleik.

Ritstjórn janúar 14, 2015 14:56