Sómastaðir í Reyðarfirði

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og rithöfundur hefur birt ótrúlega skemmtilegar myndir á Facebook síðu sinni, af gömlum húsum í Reykjavík og víðar.  Með myndunum fylgir fróðleikur um húsin, byggingu þeirra og fólkið sem bjó þar. Hér kemur næsta hús sem Guðjón hefur leyft Lifðu núna að birta á vef sínum, Sómastaðir í Reyðarfirði.  Guðjón lýsir því þannig:

Hús dagsins (158). Sómastaðir í Reyðarfirði. Ekki fer mikið fyrir þessu mjög svo sérstaka steinhlaðna húsi frá árinu 1875 þar sem það stendur rétt ofan við hið risastóra álver Alcoa í firðinum. Sá sem reisti það var þó mikill mektarmaður í sínu byggðarlagi. Sá var Hans Jakob Beck, sem var af dönskum, íslenskum og enskum ættum. Talið er að hann hafi séð svona hús í Skotlandi og það sé fyrirmyndin en það er hlaðið með blágrýti þarna úr nágrenninu og bundið saman með smiðjumó sem mun vera ein tegund jökulleirs. Eikarstokkar eru yfir gluggum en risið er úr timbri. Upphaflega var húsið byggt við torfbæ sem þarna var og áfast honum en seinna var reist timburhús í stað torfbæjarins en það er einnig horfið og sömuleiðis nýrra steinhús á jörðinni. Steinbærinn stendur einn eftir með litlu bíslagi en hann er 37 fermetrar að grunnfleti. Húsbyggjandinn, Hans Jakob Beck, var kvæntur Steinunni Pálsdóttur frá Karlsskála og átti með henni 13 börn. Eftir að hún féll frá kvæntist hann ungri konu, Mekkín Jónsdóttur, og var þá kominn langt í sjötugt. Skipti engum togum að hann átti með henni tíu börn til viðbótar og var kominn á níræðisaldur þegar það yngsta fæddist. Voru 56 ár á milli elsta barns hans og þess yngsta. Margt afkomenda er komið frá Hans Jakob og læt ég hér nægja að nefna tvo dóttursyni hans, þá Eystein Jónsson ráðherra og séra Jakob Jónsson. Eftir Hans Jakob bjó Páll hreppstjóri sonur hans á bænum ásamt konu sinni Maríu K. Sveinbjarnardóttur. Börn þeirra, systkinin Guðrún og Hans Jakob Beck, voru síðustu ábúendurnir á Sómastöðum en þau brugðu búi 1980 og fluttust til Reykjavíkur. Þjóðminjasafnið eignaðist steinbæinn árið 1988 og stóð fyrir endurgerð hans, einkum á árunum 2008-2010 og fékk til þess styrk frá risanum mikla á jörðinni, sjálfum Alcoa. Hjörleifur Stefánsson arkitekt mældi bæinn upp og teiknaði en Gunnar Bjarnason trésmíðameistari stóð fyrir endurgerðinni.

Ritstjórn október 31, 2020 12:57