Strauk tvisvar af heimavistinni

Sveinn R. Eyjólfsson

Sumarið er tími, þegar fólk er í fríi og þá hafa margir gaman af að glugga í bækur. Allt kann sá er bíða kann er titillinn á ævisögu Sveins R. Eyjólfssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur, eða æsku- og athafnasögu Sveins eins og segir á bókakápu. Það er rétt lýsing því sagan fjallar um uppvöxt hans og viðskiptasögu, en hann kemst kannski næst því að hafa verið fjölmiðla „mógúll“  á Íslandi af þeim mönnum, sem komu við sögu í rekstri fjölmiðla á ofanverðri síðustu öld. Hann kynnti sér blaðarekstur á Norðurlöndum og kom að rekstri ýmissa flokksblaða hér á landi með einum eða öðrum hætti á löngum ferli. Hann stofnaði svo Dagblaðið ásamt fleirum, árið 1975, blað sem átti eftir að valda straumhvörfum í íslenskri blaðamennsku.

Lýsingarnar í bókinni á æsku Sveins eru mjög áhrifaríkar. Foreldrar hans voru Eyjólfur Sveinsson og Kristín Bjarnadóttir. Hann átti einn bróður Ólaf Sveinsson. Þeir bræður misstu föður sinn ungir og móður sína nánast líka, því hún var með berkla og dvaldi um árabil á sjúkrahúsum. Þó hún væri heima af og til, var ekki talið óhætt að drengirnir dveldu hjá henni.

Því er lýst í bókinni þegar þeir voru hjá Vigdísi  Blöndal  á heimavist Laugarnesskólans, en þá bjó Kristín móðir þeirra inná Langholtsvegi.

Ég strauk tvisvar af heimavistinni. Í fyrra skiptið strauk ég ekki til að vera heima – ég vissi að ég yrði sóttur – heldur til að gá hvernig mömmu liði. Þá hafði ég ekki séð hana lengi, fannst mér. Þegar ég kom upp á Langholtsveg beið Vigdís ein eftir mér hjá mömmu og tók strokinu með stillingu, fór bara með mig aftur niður í skóla. Ég sætti mig við það, enda hafði ég hitt mömmu og fullvissað mig um að henni liði vel.

Í hitt skiptið strauk ég af því að ég hafði lent í slagsmálum á vistinni. Tólf ára strákur var að berja bróður minn og ég hjólaði í hann þó að ég væri bara sjö ára. Hann hristi mig auðvitað af sér. Þegar umsjónarkennarinn kom og skildi okkur að sagði strákurinn að ég hefði ráðist á sig. Það var alveg rétt, ég gerði það, en það var ekki rétt að ég hefði átt upptökin. Samt nefndi ég ekkert að hann hefði verið að berja bróður minn. Umsjónarkennarinn, Ingólfur frá Prestbakka, sagði þá að ég ætti ekki að ráðast á mér stærri stráka og þá móðgaðist ég svo mikið að ég ákvað að strjúka. Um kvöldið þegar allir voru háttaðir læddist ég út. En ég varð að fara á inniskónum af því að skórnir okkar voru læstir inni á næturnar – sjálfsagt til að koma í veg fyrir strok.

Afskipti Sveins af blaðarekstri á Íslandi eru forvitnileg aflestrar fyrir þá sem hafa áhuga á fjölmiðlum – og spennandi því oft var djarft teflt. En Guðjón Friðriksson sagnfræðingur segir í bók sinni, Nýjustu fréttir- saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga, að með Dagblaðinu hafi hafist blómatími í íslenskri blaðamennsku.

Staðreyndin er sú að tímabilið frá því Dagblaðið var stofnað 1975 og til 1981 er eitt líflegasta tímabilið í sögu íslenskrar blaðamennsku, sannkallað blómatímabil að mörgu leyti, og stuðlaði að því að flokksblaðakerfið byjarði fyrir alvöru að riða til falls. Vísir undir stjórn Þorsteins Pálssonar lét ekki sitt eftir liggja og hóf öfluga samkeppni undir merkjum sömu frjálsu blaðamennskunnar og Dagblaðið lagði svo mikla áherslu á. Önnur leið var ekki fær fyrir blaðið ef það átti að lifa samkeppnina af.

Eftir hádegi hvern dag var háður gríðarlegur bardagi á götum úti um athygli vegfarenda. Sölubörn beggja blaðanna reyndu á hverju götuhorni í miðbæ Reykjavíkur og allt uppá Hlemm að yfirgnæfa hvert annað með hrópum og köllum úr fyrirsögnum blaðanna.

Bókin lýsir aðstöðu barna í Reykjavík sem bjuggu við erfiðar aðstæður á síðustu öld, þróuninni í rekstri blaða og fjölmiðla og  því hvernig kaupin gerðust á eyrinni í viðskiptalífinu á Íslandi á þessum tíma.

Ritstjórn júní 4, 2019 12:53