Barátta uppá líf og dauða

Einar Kárason.

Stormfuglar eftir Einar Kárason er spennandi bók, sem menn leggja helst ekki frá sér fyrr en þeir eru búnir með hana. Sem betur fer er hún ekki ýkja löng. Hún er eins og við er að búast feikna vel skrifuð. Sagan segir frá tvísýnni  baráttu áhafnarinnar á síðutogaranum Máfinum, þar sem hann var á veiðum við Nýfundnaland. Þegar halda átti aftur heim skall á þvílíkt ofsaveður og frost að gríðarlegur ís hlóðst á skipið. Allir í áhöfninni voru settir í að berja ísinn af skipinu. Fleiri skip lentu í erfiðleikum á sömu slóðum og fórust í óveðrinu. Höfundurinn segir í upphafi bókarinnar.

Í febrúar 1959 lentu nokkrir íslenskir togarar í fárviðri á Nýfundnalandsmiðum. Það sem þar gerðist er kveikjan að þessari sögu, en frásögn og persónusköpun lúta eingöngu lögmálum skáldskapar.

En gípur niður í sjálfa söguna, þar sem áhöfnin er í miðju kafi innanum risaöldur, að reyna að ná ísnum af skipinu.

Skipsstjórinn sá að fyrr eða síðar yrði hann að senda menn í þann hættuleiðangur að fara og reyna að losna við eitthvað af ísnum á hvalbaknum, en að um sinn væri það allt of varasamt, þeir yrðu að bíða þess að eitthvað skánaði, yfir hvalbakinn gengu þessar stóru öldur og þar var engin handfesta, bara svell. Hann varð líka að stóla á að vélin færi ekki að bila, hún gerði það reyndar sjaldnast, þetta var mikill og traustur rokkur smíðaður í Englandi, en nú var hún hart keyrð, ýmist hratt eða hægt, stopp eða aftur, þá getur eitthvað undan látið. Menn voru úti að berja á yfirbyggingunni, uppi á þaki stjórnpallsins eða brúarinnar, þaðan bárust högg og skruðningar, allt var frosið þarna uppi, meðal annars radarinn, hann snerist ekki og því var ekki hægt að vita hvort önnur skip væru í nánd. Harpan var alveg hætt að svara köllum, það hafði heyst neyðarkallið Mayday frá tveimur útlendum skipum eða þremur, þeim var það ekki alveg ljóst, skruðningarnir voru svo miklir í talstöðunni.

Á endanum varð ekki undan því vikist að að senda menn uppá hvalbakinn til að freista þess að brjóta ísinn sem hafði hlaðist á hann.

Svo voru þeir komnir uppá sjálfan jökulinn, hvalbakinn, enn hafði ekki brotið yfir þá, ekki nema skvettur, og nú reið á að vera dálítið handfljótur. Og þeir sáu strax árangur af verkinu, flyksur brotnuðu af undan hverju höggi, smám saman fór að sjást í málað skipsstál undan ísstálinu. Þeir börðu og börðu allir fjórir og þegar þeir fundu að brátt yrðu þeir lausir við næstum allan skaðvaldinn sem hótaði að toga þá á hafsborn með nefið á undan gleymdu þeir sér kannski, og þótt skipsstjórinn væri svo rómmikill að sagt væri að köll hans gætu ómað yfir heilu fiskimiðin, allan flotann, þá glumdi líka hátt undan bareflunum og þeir heyrðu ekki nógu snemma viðvörun um brot sem nú reið yfir, dundi á þeim eins og snjóflóð.

 

Ritstjórn júlí 10, 2018 10:09